Ryk- og mengunarnemar eru stöðugt á vakt

IMG 3130Vegfarendur hafa stundum samband við vaktmenn í gjaldskýli eða stjórnendur Spalar ef þeir telja sig verða vara við umtalsverða mengun í Hvalfjarðargöngum og halda þá jafnvel að loftræstibúnaðurinn þar virki ekki sem skyldi. Rétt er það að fyrir kemur að vart verði útblásturs- og svifryksmengunar þegar umferð er mikil og enn frekar ef meirihluti bílaflotans er á nagladekkjum en eftirlits- og viðbragðskerfið hefur alltaf brugðist við og virkað fullkomlega.

Efni standa til að skýra hvernig fylgst er með mengun í göngunum og hvað gerist ef hún fer yfir ákveðin mörk. Tæknibúnaður þar að lútandi er umfangsmikill og skjótvirkur enda tæknilega mun flóknara mál að loftræsta neðansjávargöng, sem fara 160 metra niður fyrir sjávarmál, en til dæmis veggöng sem eru lögð í svipaðri hæðarlínu gegnum fjöll.

 

Útblástur mældur frá því göngin voru opnuð

Mengun af völdum útblásturs bíla og svifryks er stöðugt vöktuð í Hvalfjarðargöngum með sjálfvirkum nemum á fjórum stöðum. Ef mengun fer upp fyrir tiltekið hámark bregst sjálfvirkt öryggiskerfi ganganna við með því að kveikja á rauðum ljósum beggja vegna fjarðar og þá eru göngin lokuð þar til mengunar- eða rykloft hefur verið hreinsað út með blásurum.

Mengun af völdum útblásturs frá bílum (CO-gildi: kolmónoxíð) hefur verið mæld á fjórum stöðum frá því göngin voru opnuð sumarið 1998.

Mælist loftmengun yfir öryggismörkum er göngunum lokað um stund svo hinb öflugi loftræstibúnaður nái að blása menguðu lofti út og draga ferskt loft inn í staðinn.

 

Svifryksnemar settir upp 2006

Haustið 2006 voru settir upp tveir nemar til að mæla svifryksmengun í göngunum. Þeir eru tengdir öryggiskerfinu á sama hátt og loftmengunarnemarnir. Í báðum tilvikum eru blásarar ræstir sjálfvirkt í fjórum þrepum ef mengun fer yfir ákveðin mörk. Í hverri samstæðu í lofti ganganna eru átta blásarar. Fyrst er einn blásari ræstur í hverri samstæðu, síðan tveir í viðbót, þá þrír og loks síðustu tveir blásarnir í fjórða og síðasta þrepinu. Ef allir 32 blásarar ganganna duga ekki til að hreinsa loftið, þannig að mengunin fari ekki upp fyrir sett öryggismörk, er göngunum lokað á meðan blásararnir vinna sitt verk.

Spölur reiðir sig ekki eingöngu á sjálfvirkan mælibúnað heldur fylgjast vaktmenn í gjaldskýlinu jafnframt með mengunarmælunum, einkum þegar umferð er mikil og mestar líkur á að mengun fari yfir „rauða strikið“. Ef svo færi að tæknibúnaðurinn virkaði ekki sem skyldi þegar á reyndi geta vaktmennirnir gripið inn í atburðarásina með því að ræsa fleiri blásara handvirkt og loka síðan göngunum fyrir umferð ef nauðsyn krefur.

Vegfarendur ættu að hafa sem reglu að hafa slökkt á miðstöð bíla og alla glugga lokaða á meðan ekið er undir Hvalfjörð. Það eru góðar varúðarráðstafanir bæði gagnvart útblástursmengun og svifryki. 

Staðreynd er að svifryk veldur vegfarendum oftar óþægindum en útblástur bíla, ekki síst að vetrarlagi þegar ökutæki eru á nagladekkjum og þyrla upp rykögnum af ýmsu tagi. Svifryksmengun er sýnileg og hvimleitt er þegar ryk sest til dæmis á rakar rúður bíla í göngunum ef þannig viðrar.

Spölur, sem á og rekur Hvalfjarðargöng, hefur undanfarin vor og haust látið sjúga upp ryk í göngunum til að sporna gegn mengun. Ryksugum er beitt á akbrautum og meðfram þeim, inni í útskotum og í kringum búnað af ýmsu tagi í loftinu, því þar leynist líka ryk sem gustur frá stórum bílum getur hæglega komið á hreyfingu!

Ryksogið er orðinn fastur liður árlegrar vorhreingerningar og viðhalds að hausti í göngunum og hefur skilað miklum árangri. Það sést best á því að svifryksmengun er tæplega mælanleg næstu vikur eftir að hreingerninguna.

Raftákn ehf. á Akureyri hannaði rafmagnskerfi Hvalfjarðarganga, þar á meðal öryggiskerfið sem vaktar loftmengun og svifryksmengun.


linuritLínurit úr upplýsingakerfi Hvalfjarðarganga sýnir mengunarmælingu í einn sólarhring, frá miðnætti aðfararnætur föstudags 31. október til miðnættis aðfararnætur 1. nóvember 2008. 

Bláa línan sýnir svifryk, sú brúna sýnir CO² -mengun (útblástur bíla) og sú græna sýnir nítrat-köfnunarefni (NO²).

Þarna sést greinilega að mengun var afar lítil alla nóttina en fór vaxandi með morgunumferðinni upp úr klukkan sex. Loftmengunin náði hámarki um sexleytið um kvöldið þegar síðdegisumferðin var í hámarki en minnkaði síðan þegar leið á kvöldið. Svifryksmengun var mest yfir daginn, þegar flutningabílar og önnur stór ökutæki voru mest á ferðinni, og reyndar rauk svifmengunin upp fyrir tiltekin mörk milli kl. 10 og 11. Blásarar voru þá ræstir sjálfkrafa hver á eftir öðrum þar til þeir voru allir komnir sjálfkrafa í gang til að hreinsa andrúmsloftið með augljósum árangri, eins og sést á snöggu risi og síðan jafnsnöggu falli bláu línunnar.

kerfi Umsjónar- og öryggiskerfis ganganna eins og það birtist á tölvuskjám vaktmanna í gjaldskýli, starfsmanna á skrifstofu Spalar á Akranesi og tæknimanna Raftákns ehf. á Akureyri sem hönnuðu kerfið. Neðst á myndinni hér til hliðar sjást átta blásarar ganganna, ofan við má sjá hve mikið vatn hefur safnast fyrir í Guðlaug, þrónni í botni ganganna sem tekur við grunnvatni. Þar fyrir ofan sést að ein dæla af þremur er í gangi til að dæla vatni úr þrónni áleiðis upp úr göngunum að norðan og áfram út í sjó. Fyrir ofan dælurnar þrjár er unnt að sjá hve mikil loftmengun er í göngunum á þessu augnablik (CO² og NO²) og til hægri er samsvarandi mæling á svifryksmengun.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Spölur ehf. á og rekur Hvalfjarðargöng.

Skrifstofa Spalar er að
Kirkjubraut 28, 
300 Akranes
sími 431 5900, fax 431 5901. 

Opið mánudaga til fimmtudaga  8-16

og föstudaga 8-15 

Kennitala: 511295-2119

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009