Austurrískir verkfræðinemar undir Hvalfirði

Verkfræðinemar frá Austurríki fjölmenntu í Hvalfjarðargöng í dag til að kynna sér mannvirkið. Þeir fengu síðan fyrirlestur í máli og myndum á Akranesi um framkvæmdirnar við göngin, reksturinn og söguna.

IMG 2383

Í hópnum voru bæði verkfræðinemar á útskriftarári og nýnemar í greininni, allt stúdentar í samgöngutengdri verkfræði og sumir beinlínis í jarðgangaverkfræði. Tækniháskólinn þeirra í Linz, þriðju stærstu borg Austurríkis,  sendir nemendahóp í ferð í eina viku á hverju skólaári til annars Evrópuríkis til að sýna sig og sjá aðra, kynnast öðrum þjóðum, menningu og náttúru en verða líka einhvers vísari um starfsemi eða framkvæmdir sem tengjast samgönguverkfræðinni.

Austurríkismennirnir fara heim á morgun (laugardag 14. apríl) eftir að hafa verið á Íslandi sem „venjulegir túristar“ og séð fjöll, jökla og jökullón í rigningu og sólskini, mannlíf, pylsuvagna og hamborgarabúllur.

Í dag var fræðilegur hluti ferðarinnar og sá átti sér fyrst stað 165 metrum undir yfirborði sjávar í Hvalfirði og síðan í byggðasafninu að Görðum á Akranesi, í elsta dansiballasal Vesturlands. Það hús áttu góðtemplarar á Skaganum.

Gylfi G. Guðmundsson þjónustustjóri og Marinó Tryggvason öryggisstjóri tóku á móti austurrísku gestunum fyrir hönd Meitils á Grundartanga, þjónustufyrirtækis Spalar, og Spalar sem á og rekur göngin.

Matthías Loftsson, fagstjóri jarðfræði og bergtækni hjá ráðgjafarfyrirtækinu Mannviti, flutti hópnum fyrirlestur um jarðgangagerðina og svaraði ótal fyrirspurnum um ýmsa tæknilega þætti framkvæmdanna og annað sem gestunum lá á hjarta.

Margt vakti mikla athygli austurrísku stúdentanna og prófessoranna, ekki síst það að inn í göngin læki 27 gráða heitt vatn og stuðlaði að stöðugu loftsteymi til suðurs. Og að vatnshitinn hefði slegið í 57 gráður á ákveðnum kafla í göngunum á framkvæmdatímanum. Heita vatnið undir Hvalfirði væri reyndar úr sömu neðanjarðarlindunum og það sem Austurríkismennirnir hefðu baðað sig í á Suðurnesjum í Íslandsferðinni, í sjálfu Bláa lóninu!

Evrópska regluverkið sem gildir um veggöng var Austurríkismönnunum að sjálfsögðu vel kunnugt. Þeir höfðu áhuga á að vita hvernig kröfur þess væru uppfylltar og fengu það skilmerkilega upplýst. Matthías Loftsson brá meðal annars upp tölum um aukna umferð í göngunum annars vegar og hins vegar um framtíðarhorfur um hvenær meðalumferð yrði meiri en það sem Evrópureglur kveða á um sem hámark.

Austurrískur prófessor spurði hvort undirbúningur að nýjum Hvalfjarðargöngum væri ekki kominn af stað því hann sæi ekki betur en umferðin væri nú þegar orðin svo mikil að þörf yrði mjög fljótlega fyrir slík viðbrögð.

Matthías viðraði árið 2023 í glærum í fyrirlestri sínum sem mögulegan tímapunkt til að taka ný göng í gagnið. Prófessornum austurríska fannst sem það mætti nú ekki seinna vera ef standast ætti hið margumtalaða ESB-regluverk.

IMG 2354
IMG 2357
 IMG 2372
 IMG 2405
 IMG 2435
IMG 2392
IMG 2409
IMG 2379

 

 

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofu Spalar að Kirkjubraut 28 á Akranesi hefur verið lokað! 

Unnt er að hafa samband í síma 431 5900 og með tölvupósti: spolur@spolur.is 

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009