Søren Langvad, fyrrverandi stjórnarformaður Ístaks, lést í Kaupmannahöfn 15. desember 2012, 88 ára að aldri. Hann kom við sögu allra stórvirkjana á Íslandi i meira en hálfa öld og hann á sinn kafla í sögu Hvalfjarðarganga.
Søren Langvad stýrði fjölskyldufyrirtækinu E.Pihl & Søn, sem hefur frá upphafi átt verktakafyrirtækið Ístak hf. að stórum hluta. Hans hefur verið minnst hérlendis fyrir Íslandsvináttu og þátt sinn í að virkja vatnsföll hérlendis. Rétt er að halda því til haga líka að þessi merki framkvæmdamaður kom heldur betur við sögu Hvalfjarðarganga. Hann lá reyndar ekkert á því sjálfur að sér þætti göngin einna merkilegust af því sem hann hefði komið nálægt á Íslandi, enda mjög sérstök framkvæmd á margan hátt.
Fossvirki sf. var aðalverktaki við gerð Hvalfjarðarganga og bæði tæknilega ábyrgt fyrir framkvæmd verksins og fyrir allri fjármögnun á framkvæmdatímanum. Fossvirki var sameignarfélag sænska verktakafyrirtækisins Skanska AB, E.Pihl & Søn og Ístaks, stofnað 1978 til að bjóða í framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun.
Søren Langvad undirritaði samninga um Hvalfjarðargöng fyrir hönd Fossvirkis við athöfn á Hótel Sögu 22. febrúar 1996. Hann var á vettvangi norðan Hvalfjarðar 30. maí 1996 þegar byrjað var að sprengja fyrir göngunum og var annt um framkvæmdina alla tíð.