Kerfi sjálfvirkrar sívöktunar með 57 myndavélum tekið í gagnið

Spölur hefur tekið í notkun nýtt og sjálfvirkt sívöktunarkerfi myndavéla í Hvalfjarðargöngum, einn fullkomnasta tæknibúnað af þessu tagi sem völ er á. Þar með er komin meginskýring á lokun ganganna í alls sjö nætur núna í nóvember. Fjöldi tæknimanna var þá að störfum við að koma búnaðinum fyrir og prófa hann en fínstillingu lýkur fljótlega. Kerfið kostar uppsett um 60 milljónir króna.

spolur2-_01110 Spalarmenn með eina af nýju myndavélunum:Gylfi Þórðarson og Marinó Tryggvason.Hafið er yfir allan vafa að Hvalfjarðargöng eru nú mun betur vöktuð en nokkur annar kafli í samanlögðu þjóðvega- og gatnakerfi landsmanna, hvort heldur er í þéttbýli eða dreifbýli, á nóttu jafnt sem degi. Sjálft eftirlitskerfið er frá belgíska fyrirtækinu Traficon, sem býr að hátt í þriggja áratuga þekkingu og reynslu af eftirlitskerfum í veggöngum og á hraðbrautum víðs vegar um heiminn.

Nýju myndavélarnar eru 57 talsins frá Bosch Security í Þýskalandi og á sjónsviði þeirra eru akbrautir enda á milli í göngunum, munnar beggja vegna og svæðið utan munna. Þær eru sem sagt hin sívakandi „augu“ nýja sjálfvirka vöktunarkerfisins. Þar við bætast alls 24 öryggisvélar sem notaðar hafa verið innan og utan ganganna og verða notaðar áfram. Þar á meðal eru þrjár fjarstýrðar vélar sem beint er að stærstu útskotunum í göngunum.

Alls er því 81 öryggismyndavél í notkun í Hvalfjarðargöngum og með þeim er nú vaktað bókstaflega allt svæðið sem göngunum tilheyrir.

Sjálfvirk atvikagreining

„Þetta er miklu meira en vöktun með myndavélum, ég kýs að kalla búnaðinn í heild kerfi sjálfvirkrar atvikagreiningar,“ segir Jón Tryggvi Helgason, framkvæmdastjóri Ísmars í Reykjavík, fyrirtækisins sem seldi Speli nýja vöktunarkerfið. Ísmar, sem sérhæfir sig í meðal annars í umferðaröryggisbúnaði, hefur umboð fyrir bæði Traficon og Bosch Security.

„Kerfið lætur vaktmenn í gjaldskýli vita þegar í stað ef það greinir myndrænt einhver frávik frá „eðlilegu ástandi“ í göngunum. Þetta á til dæmis við um ef bíll stöðvast eða er stöðvaður, bílar lenda í árekstri, ef reykur myndast af einhverjum ástæðum, ef ekið er hægt eða hratt eða ekið er inn í útskot. Ef farmur flutningabíls fellur af palli á leiðinni undir fjörðinn, berst aðvörun.“

spolur3-_01110Jón Tryggvi Helgason, frá Ísmar, fylgist með belgískum tæknimanni prófa vöktunarkerfið.

Jón Tryggvi bætir því við að kerfið sjái sjálfvirkt um að vista myndskeið af atvikum sem það greinir og skráir til að vaktmenn í gjaldskýli geti kannað málið betur þegar í stað. Jafnframt er skrifstofa Spalar á Akranesi í örbylgjusambandi við kerfið.

Rétt er að taka fram að hraðamælingar í Hvalfjarðargöngum verða hér eftir sem hingað til á vegum lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar með sérstökum búnaði í göngunum.

 

Liður  í að uppfylla skilyrði ESB-reglugerðar um öryggi í veggöngum

Nærtækt er að álykta sem svo að Spölur hafi með nýja vöktunarkerfinu brugðist við úttekt samtaka bifreiðaeigenda í Evrópu á öryggismálum jarðganga í Evrópu undir verkefnaheitinu EuroTap. Úttektin var birt í júlí 2010. Þar voru Hvalfjarðargöng harkalega gagnrýnd og úr varð umtalsverður fjölmiðlahvellur og margur bloggpúkinn fitnaði á fjósbitanum.

„Það var komið í framkvæmdaáætlun haustið 2009 að setja upp sjálfvirkt eftirlitsmyndavélakerfi og gera fleiri ráðstafanir í öryggismálum," svarar Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar.

„Við þurfum að uppfylla ákvæði tilskipunar ESB nr. 54 frá 2004 um öryggi í veggöngum, sem tók gildi á Íslandi með reglugerð nr. 992 á árinu 2007. Strax og reglugerðin tók gildi hófumst við handa til að uppfylla ákvæði hennar og lukum við að tvöfalda ljósalampa í göngunum síðastliðið vor. Raunar er brotið blað í umferðareftirliti hérlendis með nýja kerfinu og við njótum þar mikillar alþjóðlegrar reynslu Traficon á sínu sviði. Þetta belgíska fyrirtæki hefur sett upp eftirlitskerfi í yfir 400 veggöngum í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína, Hong Kong, Malasíu og víðar. Með þeim eru yfir 600 kílómetrar vaktaðir með 70.000 myndavélum og á þessu sviði öryggismála eru Hvalfjarðargöng komin í fremstu röð í heiminum.“

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009