Slaklega staðið að úttekt EuroTap

Göngin undir Hvalfjörð urðu óvænt eitt helsta umræðuefni fjölmiðla nú í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar, í tilefni af úttekt samtaka bifreiðaeigenda í Evrópu á öryggismálum í veggöngum, þar á meðal í Hvalfjarðargöngum. Ráðamenn Spalar, félagsins sem á og rekur Hvalfjarðargöng, taka niðurstöður úttektarinnar (EuroTap) að sjálfsögðu alvarlega, líkt og þeir hafa gert frá upphafi varðandi allt sem varðar öryggi vegfarenda í göngunum. 

Þess má geta að Spölur ehf. lagði þessu verkefni til verulegan fjárstyrk til þess að fá mætti samanburð við ýmis göng í Evrópu, þó svo að hafa verði ákveðinn fyrirvara á við þann samanburð.

Vert er að nefna að Hvalfjarðargöng voru hönnuð og gerð í samræmi við gildandi staðla um slík samgöngumannvirki á sínum tíma.  Miðað við þær reglur sem þá giltu uppfylltu Hvalfjarðagöng allar kröfur og gott betur, enda hafa öryggismál ætíð verið efst á baugi hjá stjórn Spalar ehf. Staðlar og öryggiskröfur hafa breyst nokkuð síðan þá, einkum með reglugerð Evrópusambandsins frá 2004 og  hliðstæðri reglugerð sem íslensk stjórnvöld gáfu út í framhaldinu. Spölur fól verkfræðistofunni Mannviti að gera úttekt á því hvað þyrfti að gera í göngunum til að uppfylla kröfur í reglugerðunum og skýrsla þar að lútandi var lögð fyrir stjórn Spalar í október 2009. Í framhaldinu var gerð áætlun til ársins 2014 um hvernig brugðist skyldi við og af alls 20 aðfinnsluþáttum í úttekt EuroTap eru 9 á dagskrá framkvæmdaáætlunar Spalar.

Reyndar er nauðsynlegt að hafa í huga að EuroTap er ekki að meta og mæla ágæti vegganga út frá opinberum og viðurkenndum stöðlum heldur út frá eigin mælistiku eða „smiðsauga“ eftir því sem við á!

Skoðaði hvorki hátt né lágt

Spölur greiddi eina milljón króna í styrk til EuroTap-verkefnisins og telur ekki eftir sér að verja fjármunum í þágu umferðaröryggis. Úttekt EuroTap er hins vegar ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk og ástæða er til að staldra við nokkur atriði þar, nú þegar rykið er farið að setjast eftir að niðurstöður voru birtar.

Fyrst skal staldrað við ummæli Ólafs Guðmundssonar, verkefnisstjóra EuroTap á Íslandi og varaformanns FÍB, í frétt mbl.is 29. júlí. Þar er haft eftir honum að kerfið, sem EuroTap fylgi, sé „mjög þróað“ og að hingað til lands hefði komið fulltrúi samtaka þýskra bíleigenda sem „skoðaði göngin hátt og lágt í tvo daga“. Hið rétta er að maðurinn gaf sér tíma í eina klukkustund á vettvangi  í göngunum  í fylgd fulltrúa Spalar, leit í kringum sig en skoðaði hvort hátt né lágt. Spalarmenn fengu hins vegar lista með einum 600 spurningum sem þeir vörðu drjúgum tíma í að svara í þágu EuroTap.

Fyrir lá að verkefnisstjóri EuroTap á Íslandi myndi kynna Speli niðurstöður og ályktanir, sem dregnar yrðu af heimsókn Þjóðverjans og spurningaflóðinu áður en þær færu í skýrslu til birtingar. Við það var ekki staðið, sem er miður því tækifæri hefði þá til dæmis gefist til þess að benda á missagnir og vitleysur á borð við þær að slökkvilið sé í 28 km fjarlægð frá göngunum. Staðreyndin er sú að 9 km eru til Akraness frá norðurmunnanum og að slökkvilið Akraness fer með forræði í aðgerðum í útkalli vegna elds í göngunum. Það er í samræmi við viðbragðsáætlun ganganna. EuroTap segir reyndar að viðbragðsáætlunin sé úrelt, sem er einfaldlega rangt.

Viðbragðsáætlunin hefur verið endurskoðuð einu sinni frá grunni frá því göngin voru opnuð og tekin í gagnið breytt og bætt á árinu 2004 eftir umfangsmikið samráð allra sem að öryggis- og björgunarmálum koma. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur svo unnið að því, í samráði við Spöl, að setja viðbragðsáætlun Hvalfjarðarganga upp í staðlað form viðbragðsáætlana yfirleitt, sem til dæmis er unnið eftir á flugvöllum og vegna náttúruhamfara. Ef viðbragðsáætlun ganganna væri úrelt myndi Almannavarnadeildin örugglega ekki verja tíma og kröftum í að setja hana upp nákvæmlega eins og aðrar slíkar áætlanir sem viðbragðsaðilar starfa eftir!

Er sólarhringsvakt víðar en hér?

Í könnun EuroTap voru tekin 26 veggöng víðs vegar í Evrópu. Athygli vekur að þar af eru 14 göng fjögurra ára og yngri en Hvalfjarðargöng, langflest eru mun styttri en Hvalfjarðargöng, flest göngin eru með mun meiri umferð en Hvalfjarðargöng (þar af leiðandi aðrar öryggiskröfur til þeirra gerðar), meirihluti ganganna er tvöfaldur (tvenn göng hlið við hlið). Síðast en ekki síst virðast Hvalfjarðargöngin hafa þá sérstöðu að vera neðansjávar en flest ef ekki öll önnur göng í könnuninni eru á landi.

Samanburðurinn er því í mörgum tilvikum eins og að bera saman epli og appelsínur.  
Einn mikilvægasti öryggisþáttur Hvalfjarðarganga er sá að þar er sólarhringsvakt í gjaldskýli allan sólarhringinn, alla daga ársins. Skyldu önnur veggöng á EuroTap-listanum vera vöktuð á þann hátt? Því ætti EuroTap að svara en gerir ekki. Þjóðverjinn hlýtur samt að hafa orðið var við vaktmenn í gjaldskýlinu í Hvalfirði en trúlega hefur slíkt ekki passað inn í stórevrópsku myndina sem ætlunin var að draga upp í úttektinni.

Dæmi um „veikleika“ að mati EuroTap

Í úttekt EuroTap eru tíundaðir kostir og gallar öryggismála viðkomandi ganga (strengths and weaknesses).  Eftirfarandi eru nokkur dæmi um „veikleika“ sem taldir eru í öryggismálum Hvalfjarðarganga og athugasemdir Spalar fylgja hverjum lið.

 1. Lítil lýsing (lighting is too weak). Spölur lét mæla lýsinguna í ágúst 2009 og niðurstaðan var sú að hún uppfyllti kröfur ESB-staðals, nema á 1.200 metra kafla. Lýsing var aukin á þessum 1.200 metrum og því verki lauk nokkru fyrir heimsókn Þjóðverjans frá EuroTap í vor. Sá mældi ekkert, hvorki lýsingu né annað. Mat hans á lýsingunni var í það minnsta huglægt í alla staði.
 2. Hátalara vantar (no loudspeakers). Reglugerðin kveður á um að þar sem er neyðarrými fyrir vegfarendur skuli vera hátalarar. Slík rými eru ekki í göngunum (sem breytist þegar önnur göng verða gerð við hlið þeirra sem fyrir eru). Nokkur hávaði stafar af umferð og blásurum í göngunum. Hátalarar myndu í engu bæta öryggi vegfarenda við núverandi aðstæður.
 3. Öryggismyndavélar ná ekki til allra ganganna (full video surveillance is not possible).  Núverandi kerfi nær ekki til allra útskota eða til vegkafla í beygju syðst í göngunum. Úrbætur eru á framkvæmdaáætlun og vinna er þegar hafin við þær. Verkinu lýkur haustið 2010.
 4. Sjálfvirkt viðvörunarkerfi vantar (no automatic detection). Ef neyðarsímar í göngunum eru notaðir  hringir sjálfkrafa hjá Neyðarlínunni. Vaktmenn þar sjá að símtalið er úr Hvalfjarðargöngum. Sé slökkvitæki tekið úr festingu sinni í göngunum lætur viðvörunarkerfi vaktmenn í gjaldskýli samstundis vita.  Frekari tenging við sjálfvirkt eftirlitskerfi er á framkvæmdaáætlun áranna 2013-2014.
 5. Of langt milli neyðarsíma (the distance of 500 m between emergency phones is too long). Á framkvæmdaáætlun er að fjölga neyðarsímum árið 2011 þannig að þeir verði með 125 metra millibili (reglugerð ESB kveður á um að lágmarkið skuli vera 150 metrar). Neyðarsímar hafa reyndar ekki verið hreyfðir í göngunum í mörg ár, enda eru vegfarendur vel farsímavæddir og nota undantekningarlaust eigin síma ef á þarf að halda.
 6. Of langt milli slökkvitækja (distance between fire extinguishers of 250 m is too long). Þetta bil verður komið niður í 125 metra haustið 2011, sbr. það sem segir hér á undan um símamálið (liður 5). 
 7. Engir neyðarútgangar í göngunum (escape routes er note marked). Þetta á að sjálfsögðu frekar við þar sem göng eru tvöföld og hægt er að komast á milli þeirra um neyðarútganga. Eðli máls samkvæmt eru engir neyðarútgangar í Hvalfjarðargöngum nema sjálfir gangamunnarnir. Skilti, sem sýna fjarlægð til hvors munna, eru með reglulegu millibili í göngunum og í útskotum. Á framkvæmdaáætlun Spalar er að bæta við skiltum á árinu 2012 með upplýsingum um fjarlægð frá gangamunnum. Einnig verða sett upp ljós, í eins metra hæð yfir vegi, sem kviknar á ef rafmagn fer af. Þau auðvelda fólki að komast út á neyðarstundu.
 8. Engar flóttaleiðir (no additional escape or rescue routes). Þessu er auðvitað ekki hægt að koma fyrir í einföldum neðansjávargöngum! Hins vegar er gert ráð fyrir slíkum flóttaleiðum við frumhönnun nýrra Hvalfjarðarganga.
 9. Ekkert sjálfvikt brunaviðvörunarkerfi (no automatic fire alarm system). Í göngunum eru reyk- og mengunarskynjarar sem ræsa viðvörunarkerfi ef farið er yfir viðmiðunarmörk. Sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi er á framkvæmdaáætlun 2013-2014.
 10. Varaafl skortir ef rafmagn fer af (the power supply and local power supply are not protected against power failure). Hægt er að tengjast rafmagni við báða gangamunna og göngin fá því rafmagn þótt straumrof verði úr annarri áttinni.  Því þarf hins vegar að handstýra og tekur um hálftíma. 
 11. Leiðslur/kaplar þola ekki eld (safety-relevant cables are not sufficently fire-resistant). Þetta er ekki allskostar rétt. Þær leiðslur, sem lagðar voru á sínum tíma, hafa ákveðið hita-/brunaþol en eru ekki merktar samkvæmt úttektarstaðli EuroTap. Á framkvæmdaáætlun er að skipta út köplum í göngunum fyrir árið 2014 og setja í staðinn rafmagns- og neyðarkapla samkvæmt nýjustu stöðlum.

Ábyrgðarlaust tal um  göngin sem „slysagildru“

 • Þáttastjórnandi á Rás 2 að morgni 30. júlí talaði um Hvalfjarðargöng sem „hættulegustu göng Evrópu“.
 • Morgunblaðið slær því upp í fyrirsögn 30. júlí að ekki þurfi að „loka göngunum vegna falleinkunnar EuroTap“.  
 • Haft er eftir Ólafi Guðmundssyni, verkefnisstjóra EuroTap á Íslandi, í mbl.is 29. júlí að „hingað til hafi menn verið heppnir að ekki hafi orðið stórslys í göngunum.“

Þetta eru dæmi um hvert könnun EuroTap hefur leitt menn í opinberri umræðu.  Ábyrgðarlaust tal,   stóryrði og sleggjudómar eru þar slæmt veganesti og er nema von að einhver hugsi með sér: „Er boðskapur Félags íslenskra bifreiðaeigenda sá að menn eigi frekar að aka fyrir Hvalfjörð en um Hvalfjarðargöng?!“  Tæplega myndi slíkt auka öryggi vegfarenda!

Björn Karlsson brunamálastjóri nálgast málið af öllu meiri yfirvegun og ábyrgð í samtali við Morgunblaðið 30. júlí. Hann segir réttilega að úttekt EuroTap gefi ekkert tilefni til að „loka göngunum“. Hann bendir síðan á að „í áhættumati sem gert var árið 2004 hafi komið í ljós að sexfalt meiri áhætta fælist í því að keyra fyrir Hvalfjörðinn en að fara um göngin.“

Einnig fjallar Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, um málið af ábyrgð í viðtali við mbl.is 29. júlí: „ Hann [þ.e. Jón Viðar] segir lausnina á vandanum felast í gerð nýrra ganga, þannig að Hvalfjarðargöngin verði tvöföld. Það hafi staðið til fyrir nokkrum árum, en Jón Viðar segist hafa setið fundi með aðilum sem áttu að hanna ný göng og leysa samgöngur á milli þeirra. Eitt meginmarkmiðið með nýjum göngum sé að skapa flóttaleið komi upp eldsvoði.”  

Enn fremur segir í sömu frásögn mbl.is og haft eftir slökkviliðsstjóranum:  „En Spölur er búinn að gera átak í því,“ segir hann. Í göngunum sé nú ýmiskonar búnaður sem aðstoði slökkviliðsmenn í sínum störfum, s.s. myndavélar og fjarskiptabúnaður. Þá sé búið að bæta almennar umgengnisvenjur, sem séu nú til fyrirmyndar.”

Niðurstöðu áhættumatsins, sem brunamálastjóri vísar til, er einfaldlega hægt að staðreyna með því að bera saman upplýsingar um slys og óhöpp í umferðinni fyrir Hvalfjörð áður en göngin komu til sögunnar og í umferðinni í göngunum sjálfum á fyrsta áratugnum eftir að þau voru tekin í gagnið.

Þannig fengjust beinharðar staðreyndir, sem eru staðgott fóður í þjóðmálaumræðuna um öryggismál í umferðinni.  Huglægt mat er hins vegar léttvægt og marklítið, til dæmis þegar EuroTap-Þjóðverjinn dæmdi lýsingu í Hvalfjarðargöngum ónóga eftir skyndikynni af Hvalfjarðargöngum á vordögum 2010 – þvert á niðurstöður mælinga.

Hvalfjarðargöng komu vissulega verst út úr úttekt EuroTap af þeim göngum sem voru skoðuð/metin. Þar með hefur ekki fallið dómur um að þau séu hættulegustu göng í Evrópu, heldur að þau standist ekki samanburð við ný eða nýuppgerð veggöng þar sem farið er eftir reglum og stöðlum sem gilda nú en giltu ekki á síðasta áratugi liðinnar aldar, þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð.

Það hefur verið sjónarmið stjórnar Spalar ehf. að brýnt sé að huga að nýjum göngum við hlið núverandi ganga. Til þess að koma því máli á rekspöl hefur Spölur ehf. annast alla nauðsynlega undirbúningsvinnu en framhald málsins er í höndum samgönguyfirvalda landsins. Með nýjum göngum gæfist færi á að uppfylla ítrustu kröfur um öryggi og slíkt er í afar góðu samræmi við áherslu Spalar ehf. í öryggismálum Hvalfjarðarganga.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009