Spölur valinn fyrirtæki ársins hjá VR!

Spölur ehf., sem á og rekur Hvalfjarðargöng, varð þess heiðurs aðnjótandi að vera valinn fyrirtæki ársins í könnun á vegum VR. Tilkynnt var um þetta í gær, Íslenska gámafélagið vann í flokki stærri fyrirtækja en Spölur varð sigurvegari í flokki fyrirtækja með 49 eða færri starfsmenn.

„Félaginu er hér mikill sómi sýndur. Þetta kom á óvart og ég er bæði ánægður og þakklátur,“ segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar um tilefninguna.

VR hefur staðið fyrir könnun á fyrirtæki ársins í rúman áratug og síðustu fimm ár hefur SFR, stéttarfélag starfsmanna hins opinbera, tekið þátt í henni. Þetta er stærsta vinnumarkaðskönnun á Íslandi og í ár fengu ríflega 30 þúsund starfsmenn á almennum og opinberum vinnumarkaði spurningaeyðublað til að svara. Könnunin nær einnig út fyrir raðir VR og SFR því yfir eitt hundrað fyrirtæki og stofnanir tóku þá ákvörðun að veita öllum starfsmönnum færi á því að taka þátt, burtséð frá því í hvaða stéttarfélag þeir voru.

Spölur  fékk 4,90 í heildareinkunn í könnuninni en meðaltalið var 4,10 hjá minni fyrirtækjum. Hæsta einkunn sem er gefin í könnuninni er 5,00  en sú lægsta er 1,00.

Í fyrra var Spölur í 16 sæti með einkunnina 4,57. Í ár fékk Spölur fullt hús stiga, fimm stig, fyrir þrjá af átta lykilþáttum: starfsanda, sjálfstæði í starfi og ánægju og stolt. Starfsandi mælir gæði samskipta og andrúmsloftið á vinnustaðnum.  Sjálfstæði í starfi mælir bæði hvernig svarendur meta eigin áhrif á hvernig starfið er unnið og einnig hvesru góð tök þeir hafa á starfinu að eigin mati. Ánægja og stolt tekur m.a. til þess hversu vel svarendum líður í vinnunni  og hvort þeir myndu mæla með  vinnustaðnum.

Á öðrum þáttum er Spölur einnig ofarlega á lista, einnig þegar kemur að mati á launakjörum, en það er sá þáttur sem lækkaði mest á milli ára að meðaltali í könnun VR á fyrirtæki ársins og kemur það líklega engum á óvart.

Markmið könnunar VR er að skapa umræðuvettvang starfsmanna og stjórnenda um vinnustaðinn. Hún veitir starfsmönnum tækifæri til að koma skoðunum sínum og athugasemdum á framfæri og skapar þeim grundvöll til að ræða um starfsaðstæður sínar og kjör við sína yfirmenn. Niðurstöðurnar nýtast starfsmönnum einnig til að meta sinn vinnustað í samanburði við aðra vinnustaði, bæði í sömu atvinnugrein og í öðrum ólíkum greinum.
Og á sama hátt eru niðurstöður könnunarinnar mikilvægar fyrir stjórnendur því þær gefa þeim innsýn í afstöðu starfsmanna, sýna þeim hvar gera má betur í mannauðsstjórnun fyrirtækisins og hvað  vel er gert. Þær eru þannig mælikvarði á frammistöðu þeirra í starfi. Aðstæður á vinnumarkaði nú gera það enn mikilvægara en áður að stjórnendur hafi þau tæki og tól sem þeir þurfa til að sinna sínu starfi og eru niðurstöður þessarar könnunar liður í því.

  • Spölur var valið meðal fyrirmyndarfyrirtækja VR árið 2009 og var þá í 16. sæti í sínum fyrirtækjaflokki, eins og greint var frá hér á síðunni á sínum tíma. Félagið hefur því tekið undir sig umtalsvert stökk um virðingarstigann í ár og hafnað á toppnum!
  • Nánari umfjöllun um fyrirtæki ársins 2010 og könnunina á heimasíðu VR.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009