Klöppin þykkri en áður var talið

Sandurinn sem náðist af botni Hvalfjarðar í fyrstu borholunni.Kjarnaborun upp úr Hvalfjarðargöngum hefur nú þegar skilað upplýsingum og þekkingu sem varpa nýju ljósi á jarðfræði svæðisins. Á daginn kemur að klöppin ofan við neðsta hluta ganganna er þykkri en áður hafði verið talið en setið þar fyrir ofan er hins vegar sandur og síðan silt (bergmylsna).

Um hádegisbil í gær, 15. febrúar, var borað upp úr klöppinni í Hvalfjarðarbotni og inn í botnsetið þar fyrir ofan. Þetta var vissulega söguleg stund í sjálfu sér, alla vega fyrir jarðfræðinginn Ágúst Guðmundsson sem stjórnar þessu rannsóknarverkefni af hálfu Spalar. Aldrei fyrr hefur nefnilega verið tekinn borkjarni úr setinu á Hvalfjarðarbotni og auðvitað hefur aldrei fyrr í Íslandssögunni verið tekið sýni úr sjávarseti neðan frá!

Á árum áður önnuðust Hafrannsóknastofnunin, norska fyrirtækið Geoteam og Orkustofnun rannsóknir á Hvalfirði af sjó og reyndu með svonefndum endurvarps- og bylgjubrotsmælingum að mæla dýpi niður á klöpp, mæla þykkt sjávarsetsins og meta eðli bæði bæði klappar og sets. Aldrei var hins vegar borað í botn Hvalfjarðar af sjó á undirbúningstíma Hvalfjarðarganga.

Kjarnaborunin nú leiðir í ljós að klöppin fyrir ofan dýpsta hluta ganganna er um 60 metrar að þykkt, 15-20 metrum þykkri en áður hefur verið talið. Borkjarnarnir sýna að bergið er þétt og gott alla leiðina upp að skilum klappar og sjávarsets. Ágúst jarðfræðingur hafði allt eins gert ráð fyrir að setið þarna fyrir ofan væri þétt og skilin jafnvel ekki greinileg. Í ljós kom svo að ofan á klöppinni í botninum tók við um 5 metra þykkt en lekt sandlag, nánast pússningarsandur. Þar fyrir ofan er fínkorna smágerð bergmylsna (silt) með lítilli vatnsleiðni. Borað var alls 8 metra upp í setið, þ.e. fyrst í gegnum sandlagið og síðan þrjá metra upp í siltið.

Vitneskjan gæti bent til þess að hægt sé að fara með ný Hvalfjarðargöng grynnra í klöppinni en núverandi göng en hvort niðurstaðan verður á þá lund, og hversu miklu grynnra unnt er þá að fara, er of snemmt að segja til um. Spennandi verður nú að sjá hvað kemur í ljós í nýrri holu sem byrjað verður að bora eftir helgina. Þá verður borað skáhallt til norðurs upp úr botni ganganna. Hugsanlegt er að setið sé þéttara nær landi en það reynist vera lengra úti á firðinum þar sem borinn kom upp nú.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009