Kjarnaborunum fram haldið í göngunum

Einföld skýringarteikning af legu fyrstu tveggja kjarnaborholanna.Sú fyrri er til hægri, til suðurs. Sú er lengri og hallar minna en hin. Þar borað 8 metra upp í sjávarsetið ofan við klöppina á fjarðarbotninum. Í síðari holunni, til vinstri, var borað upp úr klöppinni, sem er basalt með setbergslögum, eins og sést hér.Samhljóða frumniðurstöður fengust í stórum dráttum í tveimur kjarnaholum sem boraðar voru upp úr stóra útskotinu neðst í Hvalfjarðargöngum. Ákveðið er að bora fleiri rannsóknarholur næstu daga og vikur til undirbúnings hönnun nýrra ganga undir fjörðinn.

Lokið var við að bora fyrri holuna til suðurs síðastliðinn föstudag og þá síðari til norðurs í gær, fimmtudag. Fyrri holan var með 30º halla, 137 metrar að lengd en sú síðari með 40º halla, 92 metrar að lengd (sjá skýringarteikningu hér að neðan).

Í báðum tilvikum reyndist yfirborð klapparinnar vera á um 100 metra dýpi, sem er 15-20 metrum grynnra en áður hefur verið talið. Þó er þess að gæta að enginn veit auðvitað hvort borinn hafi hitt á þá staði þar sem dýpst er á bergið eður ei. Þarna skeikar engu að síður litlu og niðurstöður jarðeðlisfræðimælinga af sjó á sínum tíma standast því ágætlega.

Staðfest er nú að klöppin fyrir ofan neðsta hluta Hvalfjarðarganga er um 60 metra þykk og það er þannig heldur lengra upp í sjávarsetið á fjarðarbotninum, sem skilur að klöpp og sjó, en talið hefur verið hingað til. Þetta kann að vera vísbending um að unnt sé að fara með neðsta hluta nýrra ganga grynnra í bergið en sem svarar til legu núverandi ganga, þar sem 165 metrar eru af yfirborði sjávar niður í gangabotn. Það er hins vegar of snemmt að hrapa að ályktunum í þeim efnum, einkum og sér í lagi í ljósi þess að eftir er að bora fleiri kjarnaholur og meta svo niðurstöðurnar í heild sinni.

Klöppin ofan við göngin reynist traust nánast alla leið upp úr og afar þétt. Þar fyrir ofan tekur svo viðhreinn sjávarsandur og 5 metrum ofan við hann er þéttara lag úr bergmylsnu (silti).

Nú verður borinn færður 500 metra norðar í göngunum, upp í brekkuna þar sem ný akrein bætist við til norðurs. Þar verður boruð hola til suðurs til að kanna jarðfræði fjarðarins enn betur.

Á meðan verkið er í gangi verður akreinin næst gangaveggnum lokuð umferð. Ráðstafanir verða gerðar til að bormönnum stafi ekki hætta af umferð eða að vegfarendum stafi ekki hætta af borvélinni og tilheyrandi búnaði. Ástæða er því til þess að hvetja vegfarendur til að draga úr hraða og aka gætilega fram hjá vinnusvæði bormanna.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009