Um Spöl ehf., ný göng og tvöföldun vegar á Kjalarnesi

Stjórn Spalar telur réttlætanlegt í ljósi hagsmuna vegfarenda, atvinnulífs og íbúanna norðan og sunnan Hvalfjarðar að halda óbreyttu veggjaldi til árins 2018 í því skyni að tryggja nauðsynlegar vegabætur undir Hvalfjörð. Þetta segir stjórnarformaður Spalar meðal annars í ítarlegri grein sem hann skrifaði að gefnu tilefni og birt er hér á Spalarsíðunni.

Eftir Gísla Gíslason, stjórnarformann Spalar
Undirrituðum barst nýlega erindi frá vegfaranda með nokkrum spurningum um Spöl og Hvalfjarðargöng. Að þeim svöruðum benti fyrirspyrjandi á að málið ætti örugglega erindi við fleiri en hann. Því hef ég sett nokkur orð á blað um stöðu og stefnu varðandi rekstur Spalar á komandi árum.

Vegfarandinn þakkaði fyrir lækkun á veggjaldinu 1. mars síðastliðinn og hrósaði því að Spölur - sem eitt örfárra félaga ef ekki það eina fyrr og síðar - lækkaði gjaldskrá sína enn og aftur!

Vegfarandinn setur veggjaldið sem slíkt alls ekki fyrir sig en furðaði sig á að Spölur væri að verja fjármunum í kjarnaborholur og tilheyrandi rannsóknir á berginu undir Hvalfjarðarbotni til undirbúnings nýjum Hvalfjarðargöngum. Hann vísaði einnig til þess að ríkinu bæri að greiða fyrir ný göng auk þess sem álitamál væri hvort brýn nauðsyn væri á nýjum göngum. Ýmislegt fleira nefndi viðkomandi sem ástæða er til að setja í heildarsamhengi þess sem verið er að gera.

Aðdragandi ganganna
Eins og margir muna voru Hvalfjarðargöng gerð fyrir áræðni sveitarfélaga norðan Hvalfjarðar og fyrirtækja á svæðinu og verkefnið drifið áfram af fámennum hópi sem hafði trú á verkefninu. Sú niðurstaða Hreins Haraldssonar, jarðfræðings hjá Vegagerðinni, að Hvalfjarðargöng væru bæði tæknilega framkvæmanlegt verkefni og þjóðhagslega hagkvæmt opnaði þá gátt sem þessi hópur nýtti sér.

Ljóst var á þeim tíma að ríkið hugðist ekki ráðast í framkvæmdina, annars vegar vegna kostnaðar og hins vegar vegna ótta um að verkefnið myndi verða tæknilega erfitt. Umræða um þetta er vonandi mörgum enn í fersku minni en ýmsir leikmenn og lærðir fóru þá mikinn og töldu verkefnið óráð, jafnvel hreint brjálæði.

Nú á 10 ára afmæli Hvalfjarðarganga í júlí næstkomandi blasa við áhrif ganganna sem gera forna gagnrýni að gjalli. Aðalatriðið er ekki að minnast verkefnisins fyrir orð úrtölumanna heldur fyrst og fremst vegna þeirra gríðarlegu áhrifa sem þau hafa haft á samfélagið norðan og sunnan Hvalfjarðar. Úttektir og skýrslur staðfesta allar að íbúafjölgun norðan Hvalfjarðar, hærra fasteignaverð á svæðinu, fjölbreyttari vinnumarkaður, stærra atvinnusvæði norður og suður fyrir Hvalfjörð, aukið og ábatasamt samstarf sveitarfélaga beggja vegna Hvalfjarðar og loks bætt aðgengi að mörkuðum og skólum er það sem einkennir áhrif Hvalfjarðarganga. Þá er ótalinn sá hagur sem ríkið hefur haft af Hvalfjarðargöngum meðal annars vegna verulega lægri stofn- og rekstrarkostnaðar við veginn fyrir Hvalfjörð. Þær upphæðir hafa ekki verið teknar saman en óhætt er að meta þær á milljarða króna.

Því má með gildum rökum halda fram að engin ein framkvæmd í samgöngumálum hafi haft jafn víðtæk áhrif á jafn víðfemt og fjölmennt svæði á Íslandi. Áhrifin eru undantekningalaust jákvæð og miklum mun jákvæðari en þeir sem stóðu að gerð ganganna þorðu að vona.

Umferð um Hvalfjarðargögn og þróun mála
Þegar Hvalfjarðargöng voru undirbúin fóru að meðaltali um 1.200 bílar á sólarhring fyrir Hvalfjörð og með Akraborginni. Ferðin milli Akraness og Reykjavíkur tók eina klukkustund með Akraborginni en 75 til 90 mínútur fyrir fjörð. Hvalfjarðargöng styttu leiðina um eina 60 kílómetra og ferðatíminn fór niður í 35 til 40 mínútur. Þetta er lykillinn að því að hófleg umferðarspá stjórnenda Spalar fór veg allrar veraldar og í stað hóflegrar aukningar umferðar kom í raun stökkbreyting í þeim efnum. Nú er um 5.500 bílum að meðaltali ekið undir Hvalfjörð á hverjum sólarhring.. Þess má geta að hönnun Hvalfjarðarganga miðaðist við um 5.000 bíla meðaltalsumferð á sólarhring en allir vita samt að göngin anna miklu fleiri bifreiðum eins og sannaðist 11. júlí 1998 og 11. júlí 2003 þegar frítt var í göngin og umferðin þá daga var um 12.000 bílar á sólarhring. 

hvalfjardargong throun

Til þess að mæta mikilli umferðaraukningu hefur stjórn Spalar ehf. lagt ofurkapp á að gæta öryggis vegfarenda í göngunum eins og framast er kostur. Nægir að nefna öflugt eftirlitskerfi myndavéla, bætta lýsingu og aðgerðir til að draga úr ökuhraða. Þetta hefur skilað góðum árangri og skilað vegfarendum heilum undir fjörðinn. Ekki síst er að þakka þessum öryggisráðstöfunum að Hvalfjarðargöng anna nú 5.500 bílum á sólarhring án vandkvæða en við nálgumst tvímælalaust mörk þess að vandræði geti skapast vegna þess að umferðin bara eykst ár frá ári og ætla má að þar verði ekki lát á næstu árin.

Leiða má líkur að því að þegar umferðin fer yfir 6.000 bíla að meðaltali á sólarhring geti skapast einhver vandamál og við 7.500 bíla á sólarhring fari að skapast meiriháttar vandamál:

 • Öryggi vegfarenda minnkar.
 • Umferðarhnútar fara að myndast, sérstaklega að sumarlagi.
 • Aukin mengun í göngunum leiðir til að loka þarf þeim tímabundið á álagstímum.
 • Aukin hætta á slysum og umferðaróhöppum verður á þjóðveginum um Kjalarnes, ekki síst í hálku og ófærð.

Afleiðingar þessa gætu orðið

 • tíðari slys í Hvalfjarðargögnum og á veginum um Kjalarnes.
 • minni afkastageta ganganna með tilheyrandi töfum.
 • takmörkuð umferð vöruflutningabifreiða á ákveðnum tímum.

Þessir þættir eru hvati þess að stjórn Spalar ehf. leggur áherslu á tvöföldun Hvalfjarðarganga og vegarins um Kjalarnes. Að mati stjórnarinnar er óviðunandi annað en að bregðast við aðsteðjandi og fyrirsjáanlegs vanda að óbreyttu með nauðsynlegum framkvæmdum í stað þess að bíða eftir að vandræði skapist og fara þá fyrst að ræða um viðbrögð vegna afleitrar stöðu umferðamála á þessu svæði! 

Það liggur í hlutarins eðli að Spölur bregðist við því ,,lúxusvandamáli" að umferðin er margfalt meiri en ráð var fyrir gert á sínum tíma. Menn verða að hafa hugfast að félagið á og rekur umferðarmannvirkið samkvæmt samningi sem Alþingi hefur lögfest og félagið ber því einfaldlega ábyrgð á þessum hluta vegakerfisins. Þess vegna hefur stjórn Spalar ehf. í samvinnu við Vegagerðina hafið undirbúning að nýjum göngum með nauðsynlegum rannsóknum á berginu í Hvalfirði. Þess vegna eru nú lið að störfum við að kanna bergið enn betur en gert var á sínum tíma. Allir eru um það sammála að á sínum tíma unnu jarðfræðingar frábært verk við að meta jarðlög í Hvalfirði, en þeim er einnig ljóst að betur má gera til þess að ný göng verði enn betur úr garði gerð. Með nákvæmari rannsóknum má hugsanlega stytta göngin um nokkur hundruð metra og lækka þannig framkvæmdakostnað og minnka veghalla í þeim, sem dregur úr rekstrarkostnaði ganganna sjálfra og ekki síst rekstrarkostnaði bifreiða sem um göngin fara. Með nýjum göngum verður einstefna í hvora átt undir Hvalfjörð, sem eykur verulega umferðaröryggið. Að auki verður gert ráð fyrir flóttaleiðum milli ganganna með um 250 metra millibili og er þar enn hugsað fyrir auknu öryggi vegfarenda. Það er því til mikils að vinna að leggja nauðsynlega fjármuni í verkefnið og flýta þannig fyrir hönnun og gerð nýrra ganga. Þeir fjármunir sem fara í þetta verkefni munu koma vegfarendum framtíðarinnar til góða.

Samstarf Spalar ehf. og Vegagerðarinnar
Spölur ehf. og Vegagerðin gerðu með sér samkomulag 9. janúar 2006 um að Spölur greiddi Vegagerðinni 150 milljónir króna strax í stað þess að fylgja ákvæðum samninga um að greiða þessa upphæð árið 2018, þegar gert er ráð fyrir að síðustu skuldir Spalar verði greiddar upp. Vegagerðin lagði fram á móti 100 milljónir króna og samanlögð upphæð, 250 milljónir króna, skyldu renna til til nauðsynlegs undirbúnings Vegagerðarinnar vegna tvöföldunar vegar á Kjalarnesi og nýrra Hvalfjarðarganga. Í því efni var horft til umhverfismats framkvæmdanna, nauðsynlegra uppkaupa á landi undir væntanlegan veg og gangamunna, skipulagsmál og fleira. Spölur ehf. féllst hins vegar á að láta vinna að nauðsynlegum rannsóknum á berglögum, gerð kostnaðaráætlana fyrir ný gögn og fleira. Af hálfu Vegagerðarinnar hefur framgangur verkefnisins tekið lengri tíma en áætlað hafði verið en verkefni Spalar ehf. hefur gengið vel. Þær kjarnaboranir, sem nú er unnið að, gegna lykilhlutverki eins og áður hefur verið nefnt.

Nú liggur einnig fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar um að ekki þurfi sérstakt umhverfismat vegna nýrra ganga. Reikna má með að á miðju ári 2008 verði öll nauðsynleg gögn tilbúin af hálfu Spalar ehf. til þess að hefja hönnun nýrra ganga en ætla má að undirbúningstími framkvæmda verði eitt til tvö ár og að gerð nýrra ganga taki um tvö ár. Það munu því líða þrjú til fjögur ár frá því að ákveðið verður að hefjast handa þar til ný göng verða opnuð.

Í samkomulagi Spalar ehf. og Vegagerðarinnar er ekki kveðið á um með hvaða hætti skuli standa að framkvæmdum en haldið opnu sem möguleika að Spölur ehf. komi að verkefninu ef eftir því verður óskað. Í ljósi mikilvægis þess fyrir vegfarendur og íbúa norðan og sunnan Hvalfjarðar er það að mati stjórnarinnar hin rétta afstaða, enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir alla. 

Veggjaldið
Segja má að allt frá því Hvalfjarðargöng voru opnuð hafi þær raddir að leggja eigi veggjaldið af. Af hálfu stjórnar Spalar ehf. hefur ætíð verið lögð áhersla á að hlutverk stjórnarinnar sé að tryggja öruggan rekstur og að sjá til þess að staðið verði við þær skuldbindingar sem undirritaðar voru á árinu 1996 þegar gengið var frá samningum um gerð ganganna m.a. með samningum við ríkið, fjármögnunaraðila og verktaka. Það er því ekki hlutverk stjórnarinnar að berjast fyrir niðurfellingu gjaldsins. Ýmsir halda slíku á lofti í þjóðmálaumræðunni og ýmsir þingmenn hafa valið sér afnám veggjalds sem sérstakt stefnumál og halda því á lofti á Alþingi og utan þess.

Augljóst er að það kemur sér út af fyrir sig vel fyrir pyngju vegfarenda að fella niður veggjaldið fyrr en áætlanir Spalar ehf. gera ráð fyrir og fari svo hefur stjórn Spalar ehf. að sjálfsögðu ekkert við slíka ákvörðun ríkisins að athuga. Á það skal hins vegar benda að niðurfelling veggjaldsins getur verið skammgóður vermir ef ekki fylgja með í þeim pakka nauðsynlegar vegabætur á Kjalarnesi og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Það er bjargföst trú undirritaðs að niðurfelling veggjaldins án þessara aðgerða sé óráð. Þess vegna hefur stjórn Spalar ehf. gert samgönguráðherra grein fyrir kostum sem við blasa:

 • Miðað við núverandi umferð í Hvalfjarðargöngum og óbreytta gjaldskrá er mögulegt að ljúka innheimtu veggjalds síðla árs 2014 eða 2015. Á þeim tímamótum yrðu hlutabréf í eignarhaldsfélaginu Speli hf. framseld ríkinu.
 • Með nokkurri lækkun á veggjaldi um Hvalfjarðargöng gæti Spölur ehf. lokið uppgreiðslu lána félagsins og lokið verkefni sínu árið 2018.
 • Með óbreyttri gjaldskrá gæti stjórn Spalar ehf. lagt fram fjármuni til að flýta gerð nýrra Hvalfjarðarganga ef innheimtu er haldið áfram til ársins 2018.

Þau skilaboð fylgdu einnig með til samgönguráðherra að ef ekki yrði tekin sérstök ákvörðun um framhald mála myndi stjórn Spalar ehf. miða rekstur félagsins við staflið a), þ.e. að halda veggjaldinu sem næst óbreyttu og stefna að því að hætta gjaldtöku árið 2015.

Eins og vegfarendum um Hvalfjarðargöng er best kunnugt hefur stjórn Spalar ehf. skilað ábatanum af aukinni umferð til þeirra sem göngin nota. Allt frá árinu 2001 hefur gjaldskrá Spalar ehf. lækkað bæði í krónum talið og að raungildi.

hvalfjardargong 2 throun

Ólíklegt er að nokkurt annað fyrirtæki hafi jafn oft lækkað gjaldskrá sína á jafn stuttum tíma og Spölur. Ef ekki kemur annað til er líklegt að gjaldskrá Hvalfjarðarganga verði svipuð þeirri gjaldsrká sú sem nú er í gildi og að stefnt verði að því að ljúka gjaldtöku síðla árs 2014 eða á árinu 2015. Enn sem fyrr mun eflaust verða knúið á um niðurfellingu gjaldsins en á meðan ekki verður annað ákveðið er stefna Spalar ehf. skýr.

Staða mála
Í ljósi framangreinds er staða mála eftirfarandi:

 1. Gjaldheimtu í Hvalfjarðargöngum lýkur að óbreyttu árið 2015.
 2. Stjórn Spalar ehf. telur óhjákvæmilegt að ný göng verði grafin til að tryggja öryggi vegfarenda og viðhalda þeim jákvæðu áhrifum sem fólgin eru í hindrunarlausri umferð undir Hvalfjörð.
 3. Stjórn Spalar ehf. telur nauðsynlegt að tvöfalda veginn um Kjalarnes í því skyni að auka umferðaröryggi.
 4. Ekkert liggur fyrir um að Spölur taki að sér framkvæmdir við ný Hvalfjarðargöng og annist rekstur þeirra.
 5. Stjórn Spalar telur réttlætanlegt í ljósi hagsmuna vegfarenda, atvinnulífs og íbúanna norðan og sunnan Hvalfjarðar að halda óbreyttu veggjaldi til árins 2018 í því skyni að tryggja nauðsynlegar vegabætur undir Hvalfjörð.

Niðurlag
Þeir sem stóðu að gerð Hvalfjarðarganga frá1988 til 11. júlí 1998, þegar þau voru opnuð, lögðu áherslu á að bæta samgöngur milli Vesturlands og höfuðborgarsvæðisins. Þegar því markmiði var náð urðu áhrifin margfalt meiri en nokkur maður hefði þorað að trúa og vona.

Rekstur ganganna í tæpan áratug miðast við að tryggja öryggi vegfarenda eins og kostur er um leið og ákvæði samninga um greiðslu áhvílandi lána hafa verið uppfyllt. Það er því óhjákvæmilegt að hafa skoðun á því með hvaða hætti vegfarendum og samfélaginu öllu nýtist best sú fjárfesting sem lögð hefur verið í Hvalfjarðargöng.

Með öryggi vegfarenda að leiðarljósi, og til þess að viðhalda þeim jákvæðu búsetuáhrifum og jákvæðum áhrifum á atvinnulíf norðan og sunnan Hvalfjarðarganga, er því nauðsynlegt að tryggja greiðan framgang nauðsynlegra vegabóta á Kjalarnesi og framkvæmda við ný Hvalfjarðargöng.

Að því gefnu að ríkið ákveði ekki að leggja af innheimtu veggjalds er þriggja til fjögurra ára viðbót í innheimtu þess á árunum 2015 til 2018 því lítið framlag miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi. Því eru ráðherra, þingmenn og sveitarstjórnarfólk hvatt til að gefa þessu brýna máli þann gaum sem það verðskuldar og leggja því það lið sem dugar til að tryggja nauðsynlegar framkvæmdir.

Akranesi 10. mars 2008

Gísli Gíslason

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009