Framkvæmdir við ný göng hefjist ekki síðar en 2012

Spalar telur að hefja beri framkvæmdir við ný göng undir Hvalfjörð og tvöföldun akbrauta um Kjalarnes ekki síðar en árið 2012. Þetta kemur fram í skýrslu um málið sem Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, afhenti Kristjáni L. Möller samgönguráðherra í hófi á Akranesi tíu ára afmæli Hvalfjarðarganga, föstudaginn 11. júlí 2008.

Stjórn Spalar telur að hefja beri framkvæmdir við ný göng undir Hvalfjörð og tvöföldun akbrauta um Kjalarnes ekki síðar en árið 2012. Þetta kemur fram í skýrslu um málið sem Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, afhenti Kristjáni L. Möller samgönguráðherra í hófi á Akranesi tíu ára afmæli Hvalfjarðarganga, föstudaginn 11. júlí 2008.

Skýrslan umrædda varðar rannsóknir og rannsóknir og tæknilega undirbúningsvinnu vegna nýrra ganga undir Hvalfjörð á vegum verkfræðistofanna Hnits, Mannvits og RTS og Jarðfræðistofunnar ehf.

  • Fyrir liggur frumhönnun nýrra ganga sem liggja myndu samsíða núverandi göngum innar í Hvalfirði:
  • Gert er ráð fyrir að bergveggurinn milli núverandi og nýrra ganga verður að jafnaði 25 metrar og að bergþekjan ofan við nýju göngin verður alls staðar yfir 30 metrar.
  • Umfangsmiklar jarðfræðirannsóknir á svæðinu snemma árs 2008 leiddu í ljós að unnt væri að ,,lyfta" botni nýrra ganga um allt að 15 metra, þ.e. fara grynnra í bergið með göngin þar sem þau fara dýpst undir fjörðinn. Með því móti tækist að draga úr halla vegarins upp úr göngunum að norðan. Mesti veghalli í norðurhlutanum nú er 8,1% en verður mest 7% í nýjum göngum, sem er álíka og mesti veghalli í suðurhluta núverandi ganga.
  • Þvergöng verða gerð milli núverandi og nýrra ganga með 250 metra bili og höfð síðan lokuð með eldþolnum hurðum í báða enda. Þvergöngin verða í senn flóttaleið og brunahólf fyrir þá sem þurfa að yfirgefa bíla í göngunum á neyðarstundu.

Áætlaður kostnaður við ný Hvalfjarðargöng er um 7,5 milljarðar króna að virðisaukaskatti meðtöldum á verðlagi um mánaðarmótin maí/júní 2008. Þá er reiknað með öllum verkkostnaði og tilheyrandi búnaði ganganna ásamt vegskálum og vegtengingum beggja vegna auk kostnaðar við hönnun, umsjón og eftirlit. Fjármagnskostnaður er ekki meðtalinn og heldur ekki kostnaður vegna landakaupa.

Ætla má að um þrjú og hálft ár líði frá því vinna hefst við hönnun nýrra ganga til útboðs þar til göngin verða tekin í gagnið. Áður en næsta skref verður stigið nú þarf að ljúka tveimur mikilvægum þáttum málsins, annars vegar tilheyrandi landakaupum og hins vegar skipulagsferli beggja vegna Hvalfjarðar. Landakaupin eru á forræði Vegagerðarinnar og undirbúningur þar að lútandi er hafinn. Þá er unnið að nýju aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar og breytingum á aðalskipulagi á Kjalarnesi.

Hvalfjarðargöng voru upphaflega hönnuð fyrir umferð allt að 8.000 bíla á dag að meðaltali. Umferðin í göngunum hefur verið langt umfram spár frá upphafi og var um 5.500 bílar á sólarhring að jafnaði á árinu 2007. Sé miðað við um 4% aukningu umferðar í göngunum að jafnaði næsta aldarfjórðunginn munu allt að 15 þúsund ökutæki fara þar um á sólarhring árið 2033.

  • Ræða Gísla Gíslasonar í hófinu er birt í heild sinni hér neðan við myndirnar.

ny gong 01
ny gong 02
ny gong 03
ny gong 04
ny gong 05
ny gong 06
ny gong 07
ny gong 08


Ræða stjórnarformanns Spalar, Gísla Gislasonar, í afmælishófi Hvalfjarðarganga á Akranesi 11. júlí 2008:

Ágætu gestir:

Tíminn er fugl sem flýgur hratt. Við horfumst í augu við að liðin eru tíu ár frá því Hvalfjarðargöng voru opnuð og tveir áratugir eru liðnir frá því að hópur manna henti á lofti innlegg Hreins Haraldssonar, þáverandi yfirjarðfræðings hjá Vegagerðinni, í opinberu skýrslukorni um að bæði væri skynsamleg og þjóðhagslega hagkvæmt að gera göng undir Hvalfjörð. Þegar litið er á viðburði sem átt hafa sér stað þann ágæta dag 11. júlí má sjá að af ýmsu merkilegu er að taka. M.a. hófst hér á Íslandi þennan dag árið 1972 Einvígi aldarinnar milli þeirra Bobby Fischer og Boris Spasský, sem allir þekkja. Fyrsti þátturinn í Útvarpi Matthildi fór þennan dag í loftið árið 1971, en sem kunnugt er tengist einn ,,fréttamanna" þess þáttar gerð Hvalfjarðarganga og opnaði göngin árið 1998. Loks má nefna að þennan dag árið 1945 var fyrsta áætlunarflugið til útlanda flogið úr Skerjafirði með Catalina flugbáti til Glasgow. Af þessari upptalningu er ljóst að 11. júlí er einn af merkisdögum sögunnar og þá ekki síst samganga á Íslandi.

Samgöngumál um Hvalfjörð voru á sínum tíma áratuga umræðuefni, tilefni þingsályktana og skýrsluskrifa. Tillögur um bættan veg fyrir fjörðinn Hvalfjörð, brúargerð, ferjusiglingar, loftpúðaskip og jafnvel áætlunarferðir með þyrlum voru áhugaefni þeirra sem um fjölluðu. En stutt greingargerð, sem reyndar var viðauki við aðra skýrslu, kveikti neista hjá réttum mönnum á réttum stað á réttum tíma.

Þannig má segja að sá örlagavefur hafi verið ofinn sem leiddi til þess að Spölur var stofnaður og ráðist var í gerð Hvalfjarðarganga, sem óhætt er að fullyrða að hafi verið um flest afar óvenjuleg og djörf framkvæmd. Mér er það mikill heiður að leyfa mér nú þegar áratugur er liðinn frá því göngin voru opnuð að mæla hér fyrir munn allra þeirra sem lögðu sál sína og lífsorku í verkefnið og segja að það hafi verið okkur öllum einstök forréttindi að leggja þar hönd á plóginn og sjá hugmynd breytast í þroskað og árangursríkt verkefni.

Líklega má fullyrða að hugmyndin hafi orðið að veruleika á þrjóskunni einni saman og sem betur fer völdust til verka í árdaga verkefnisins þrjóskir menn og áhugasamir en býsna fylgnir sér. Á árunum 1988 til 1995 skipti miklu máli að láta ekki hugfallast og sem betur fer var það einnig áhugaefni Vegagerðarinnar, undir traustri forystu Helga Hallgrímssonar, þáverandi vegamálastjóra, að veita verkefninu brautargengi auk þess sem traustir og öflugir menn í ríkisstjórnum sem sátu á þessum árum lögðu málinu lið. Margs er að minnast, margir komu við sögu og samkomusalurinn okkar í dag er meira að segja hluti þessarar sögu því hér var Spölur stofnaður og hér voru fyrstu samningar félagsins við ríkisvaldið undirritaðir í janúar 1991.

Það reyndist snúið að fá fjárfesta að verkefninu og margt var okkur mótdrægt, ekki síst almenningsálitið í landinu. En þegar loksins tókst að fá til liðs banka, lífeyrissjóði og fleiri tók við framkvæmdaskeiðið og þá skipti miklu máli að verktakinn, Fossvirki - samsteypa fyrirtækjanna Ístaks, Phil & Sön og Skånska - lét ekki óvissu og áhættu trufla sig en leysti verkefni sitt af einstakri fagmennsku og prýði. Með Fossvirki og Speli ehf. starfaði ötull hópur sérfræðinga og ráðgjafa sem allir skiluðu frábæru verki.


Bæði er ljúft og skylt að staðhæfa að allir sem lögðu Hvalfjarðargöngum lið, á hvers vegum sem það svo var, gerðu það af stakri fagmennsku og eiga heiður skilinn fyrir framlag sitt. Hinn almenni vegfarandi er ánægður með Hvalfjarðargöng, það sýna ummæli og viðbrögð þeirra sem um göngin fara og ekki síst þróun umferðar. Laun heimsins eru því þakklæti eftir allt.

Hvalfjarðargöng var fyrsta einkaframkvæmd sinnar tegundar hér á landi en samfélagslegt verkefni engu að síður, sem bæði er hollt og nauðsynlegt að rifja hér upp enn og aftur. Aldrei hvarflaði það að okkur forsprökkunum að þetta væri gert í eigin hagsmunaskyni á einn eða annan hátt. Þetta var einfaldlega hugsjónamál, verkefni sem við höfðum sannfæringu fyrir að kæmi fólki og fyrirtækjum á Vesturlandi til góða og íslendingum öllum í leiðinni. Þessari hugsjón hefur Spölur og forystusveit félagsins verið trú frá upphafi til dagsins í dag. Aukin umferð hefur skilað viðskiptavinum lægra veggjaldi og á endanum verður ríkinu afhent mannvirkið skuldlaust til eignar og rekstrar.

Í aðdragandanum þurfti að sannfæra marga um að göngin væru til heilla fyrir samfélagið og að tæknilega og fjárhagslega væri mögulegt að láta dæmið ganga upp. Allt hefur þetta gengið eftir og í raun hefur ávinningurinn og árangurinn verið langt umfram vonir þeirra sem drifu verkefnið áfram í upphafi. Hið eina sem við og ráðgjafar okkar fórum villur vega í upphafi var að vanmeta gróflega umferðina í göngunum annars vegar og vanmeta hins vegar áhrifin af göngunum á samfélagið á Vesturlandi og á íslenskt samfélag yfirleitt. En hvoru tveggja eru vissulega brestir í áætlanagerð sem við getum bærilega unað við!

Frá því göngin voru opnuð hafa farið um þau liðlega 14 milljónir ökutækja og umferðin hefur bara aukist ár frá ári - allt þar til í apríl, maí og júní í ár þegar eldsneytisverð og efnahagsþengingar hafa sett mark sitt á umferðartölur eins og flest annað í samfélaginu. Tímabundinn andbyr breytir þó engu um langtímaáhrif af Hvalfjarðargöngum og þróun umferðar til framtíðar. Því mun umferð aukast áfram á næstu árum í vaxandi samfélagi.

Sérstök ástæða er til að minna á að samhent starfsfólk Spalar ehf. vakir yfir göngunum og velferð vegfarenda dag og nótt árið um kring og leysir hvers manns vanda eftir mætti og aðstæðum. Það kunna viðskiptavinir okkar vel að meta eins og ótal dæmi sanna. Tveir hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra félagsins frá árinu 1998, fyrst Stefán Reynir Kristinsson sem var í hópi frumkvöðlanna en féll frá langt fyrir aldur fram, og síðar Gylfi Þórðarson, einnig úr frumkvöðlahópnum og reyndar fyrsti formaður Spalar hf. Þeim báðum og öllu öðru starfsfólki félagsins skulu færðar hér bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Ekki síður skal þeim þakkað sem setið hafa í stjórnum Spalar í gegnum tíðina fyrir farsælt og einstaklega ánægjulegt samstarf.

Við opnun Hvalfjarðarganga fyrir 10 árum voru fluttar margar góðar og að sjálfsögðu eftirminnilegar ræður. Má þar m.a. minnast snjallrar ræður Antons Ottesen, sem setti fortíð og nútíð í skemmtilegt samhengi með því að velta fyrir sér ferðum Jóns Hreggviðssonar, Arnesar Pálssonar, Péturs Ottesen og Stephensena ef Hvalfjarðarganga hefði notið við á þeim tíma sem sem þeir stigu sín spor í samfélaginu norðan og sunnan Hvalfjarðar. Þá er mér og sjálfsagt fleirum minnisstæð tiltekin ummæli í hátíðarræðu þáverandi samgönguráðherra, Halldórs Blöndal, sem sagði þá sem svo að innan tveggja áratuga yrðu komin ný göng undir Hvalfjörð. Okkur þótti nú maðurinn heldur galsafenginn í bjartsýninni en reynslan sýnir að Halldór er annað hvort eða hvoru tveggja glöggur raunsæismaður - eða hreinlega skyggn!

Fyrir fáeinum misserum var því nefnilega hreyft í stjórn Spalar ehf. að ástæða væri til þess að undirbúa jarðveginn fyrir ný Hvalfjarðargöng. Sú umræða leiddi til samkomulags við Vegagerðina um að Spölur ehf. annaðist tæknilegan undirbúning vegna nýrra ganga en að Vegagerðin færi að undirbúa tvöföldun vegar á Kjalarnesi, enda bæri að leysa bæði verkefnin í samhengi. Á síðustu mánuðum hefur stjórn Spalar ehf. unnið ötullega að málinu og meðal annars virkjað í því efni trausta menn og snjalla sem þekktu vel til verka frá því núverandi göng voru gerð.

Til að gera langa sögu stutta liggur fyrir niðurstaða grunnrannsókna og undirbúningsvinna fyrir ný göng undir Hvalfjörð og frumhönnun nýrra ganga. Þeim sem að því verki stóðu, verksfæðistofununum Hniti, Mannviti og RTS, auk Jarðfræðistofunnar ehf., skulu hér færðar bestu þakkir fyrir framlag þeirra og vinnu.

Stjórn Spalar telur að nauðsynlegt sé að halda áfram undirbúningi og að framkvæmdir hefjist við ný göng undir Hvalfjörð og við tvöföldun vegar á Kjalarnesi ekki síðar en 2011 eða 2012.

Ný göng verða byggð á enn betri tæknilegum forsendum en þau sem fyrir eru og umbæturnar í Hvalfirði og á Kjalarnesi munu uppfylla síauknar kröfur um greiðar og öruggar samgöngur milli landsbyggðar og höfðuðborgarinnar.

Ég hef haldið því fram að horfa eigi á samgönguæðar norður frá höfuðborginni sem eina heild frá Sæbraut í suðri að norðurströnd Hvalfjarðar í norðri og því er það upplagt að hefjast handa til að svara kalli nútíðar og framtíðar um traust og trygg umferðarmannvirki á þessari leið.

Tvímælalaust bíða mörg stór verkefni á sviði samgöngumála en komandi kynslóðir munu án vafa færa samtíðarfólki okkar þakkir fyrir þá framsýni að ráðast í þessi verkefni en undrast ef töf verður á.

Um leið og ég ítreka innilegustu þakkir mínar og stjórnar Spalar ehf. til þeirra sem lögðu afl sitt, starfsorku og áhuga í þau Hvalfjarðargöng sem opnuð voru fyrir réttum 10 árum leyfi ég mér að brýna alla þá sem lagt geta nýjum göngum og vegabótum lið. Með þeim orðum óska ég okkur til hamingju með daginn, bið fyrir áframhaldandi farsæld við rekstur Hvalfjarðarganga og leyfi mér að afhenda samgönguráðherra, Kristjáni L. Möller, skýrslu Spalar um ný Hvalfjarðargöng. Megi hann taka við skýrslunni sem kyndilberi frekari framfara á sviði samgöngumála um Hvalfjörð og Kjalarnes, en nefna má hann nafn okkar Spalarmanna ef lítið liggur við.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009