150.000 króna sekt fyrir að aka

Konunni er gert að sæta fangelsi í 12 daga verði sekin ekki greidd innan eins mánaðar frá uppkvaðningu dómsins.

Ólafur Þór Hauksson, sýslumaður á Akranesi, höfðaði málið með ákæru 30. júlí 2007 og Benedikt Bogason héraðsdómari kvað upp dóminn í Héraðsdómi Vesturlands 12. október síðastliðinn.

Í ákæruskjali sýslumanns er vísað til þess að ákærða væri skráður eigandi bifreiðar sem ekið hefði verið 65 sinnum gegn rauðu ljósi við gjaldskýlið og krafðist þess að viðkomandi yrði dæmd til refsingar fyrir brot á umferðarlögum.

  • Í dómnum kemur skýrt fram að ljósin í gjaldhliðinu teljist vera umferðarljós og heyri þar með undir ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987.
  • Í dómnum telst ákærða hafa unnið sér til refsingar í öll skiptin sem bifreið hennar var ekið um gjaldhliðið gegn rauðu ljósi, þrátt fyrir að hún hafi sjálf ekki verið undir stýri í öll skiptin.

Spölur kærði upphaflega konuna, sem er skráður eigandi umræddrar bifreiðar, fyrir akstur um gjaldhliðið án þess að veggjald væri greitt og framvísaði myndum úr öryggiskerfi Hvalfjarðarganga kærunni til stuðnings. Lögregla hafði áður yfirheyrt konuna og sambýlismann hennar. Bæði könnuðust við að hafa ekið oft um gjaldhliðið gegn rauðu ljósi. Þau báru við knöppum fjárráðum en jafnframt hefðu þau gert þetta í mótmælaskyni. Það hefði þannig verið „ákvörðun þeirra beggja að greiða ekki gjaldið, sem þau hefðu ekki verið sátt við að greiða fyrir að aka eftir þjóðveginum.“

Fram kom við yfirheyrslur að yfirleitt hefði sambýlisfólkið verið saman í bílnum á ferð um gjaldhliðið en stundum konan ein eða unnustinn einn. Hvorugt gerði sér grein fyrir að ljósin við gjaldskýlið teldust vera umferðarljós og að háttsemi þeirra fæli þannig í sér brot gegn umferðarlögum.

Málið var dómtekið 1. október síðastliðinn að ákærðu fjarstaddri. Í dómnum kemur fram að jafna megi fjarveru hennar til játningar, enda fari sú niðurstaða „ekki í bága við það sem komið hefur fram í málinu.“ Vísað er til þess að í fyrirkalli, sem konunni var birt 26. september, hafi verið tekið fram að „fjarvist hennar kynni að verða metin til jafns við viðurkenningu á að hafa framið það brot sem henni væri gefið að sök og að dómur gengi um málið þótt þing yrði ekki sótt, sbr. 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.“

Í niðurlagi dóms Héraðsdóms Vesturlands segir síðan orðrétt:

„Akstur sem fer gegn leiðbeiningum um umferð sem gefnar eru með umferðarljósum varðar við 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Teljast ljósin við Hvalfjarðargöng til umferðarljósa, sbr. ákvæði P61 í 35. gr. reglugerðar um umferðarmerki og notkun þeirra, nr. 289/1995, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 458/2001. Varðar akstur bifreiðarinnar í þeim tilvikum sem greinir í ákæru við nefnt ákvæði umferðarlaga og breytir engu um saknæmi brotsins sú fullyrðing ákærðu að henni hafi ekki verið ljóst að um væri að ræða akstur gegn rauðu ljósi. Samkvæmt þessu verður ákærða sem eigandi bifreiðarinnar sakfelld í samræmi við ákæru fyrir að bifreiðinni hafi með hennar vitund og vilja verið ekið hjá gjaldskýli Spalar ehf. fyrir norðan Hvalfjarðargöng í þau skipti sem greinir í ákæru þótt rautt ljós logaði fyrir akstursstefnu bifreiðarinnar. Með þessu hefur ákærða unnið sér til refsingar samkvæmt 3. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Ákærðu er hins vegar ekki gefið að sök í ákæru að hafa sjálf ekið og því verður henni ekki gerð refsing samkvæmt 1. mgr. sömu greinar.

Samkvæmt sakavottorði ákærðu hefur hún ekki fyrr gerst sek um refsiverða háttsemi.

Við ákvörðun refsingar ákærðu er til þess að líta að umferðarljós við Hvalfjarðargöng hafa eingöngu þann tilgang að stjórna umferð vegna gjaldtöku. Því leiddi enga hættu af því fyrir vegfarendur þótt ekið væri gegn rauðu ljósi. Að þessu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin 150.000 króna sekt og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn málsins hjá lögreglu og rekstri þess fyrir dómi.“

 

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009