Endurfjármögnun lykill að lækkun veggjalds

Lykillinn að lækkun veggjaldsins í dag er samningur um sem Spölur gerði í dag við Íslandsbanka um að endurfjármagna 5 milljarða króna innlend og erlend lán félagsins. Íslandsbanki lánar Speli 2 milljarða króna og hefur selt 13 fagfjárfestum skuldabréf fyrir 3 milljarða króna.

Við Guðlaug í morgun (vatnsþróna í botni Hvalfjarðarganga).Spölur notar fjármunina annars vegar til að greiða upp þriggja milljarða króna skuld við bandaríska líftryggingafélagið John Hancock og hins vegar tveggja milljarða króna skuld við íslenska ríkið. Gísli Gíslason, stjórnarformaður, og Stefán Reynir Kristinsson, framkvæmdastjóri, undirrituðu samninginn fyrir hönd Spalar en Bjarni Ármannsson, forstjóri, og Jóhannes Hauksson, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði, fyrir hönd Íslandsbanka. Skrifað var undir á mjög svo táknrænum stað: á módeli af Hvalfjarðargöngum í Steinaríki Íslands á safnasvæði Akraness að Görðum.

Íslandsbanki býður Speli hagstæðari vaxtakjör en þau sem fyrir eru á eldri lánum félagsins. Endurfjármögnun á lægri vöxtum og lengri greiðslutími lána skapa forsendur fyrir því að lækka verulega veggjald í Hvalfjarðargöngum.

Þegar samið var um Hvalfjarðargöng árið 1996 var gert ráð fyrir að langtímalán Spalar yrðu endurgreidd að fullu 2018-2020. Umferð um göngin hefur frá upphafi verið meiri en áætlað var og tekjur félagsins eru að sama skapi meiri en ráð var fyrir gert. Auknar tekjur leyfðu hraðari greiðslu lána og að óbreyttu hefði Spölur greitt upp allar skuldir sínar 2014-2015. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að nýju lánin verði að fullu greidd árið 2018 og að íslenska ríkið fái göngin afhent skuldlaus í framhaldi af því.

Bjarni Ármannsson, lýsti mikilli ánægju Íslandsbankamanna að undirskrift lokinni og rifjaði upp í leiðinni að hann hefði sjálfur komið að fjármögnun ganganna í upphafi sem ráðgjafi lífeyrissjóðanna á vegum Kaupþings.

,,Það hefur verið okkur hjá Íslandsbanka sérstaklega ánægjulegt að annast endurfjármögnun á lánum Spalar og fá þannig að eiga þátt í þeirri lækkun á veggjöldum sem nú hefur verið kynnt. Frá því göngin voru tekin í notkun árið 1998 hafa orðið alger umskipti á fjármálamarkaði hér á Íslandi og tímanna tákn að verkefni sem þetta skuli nú vera 100% fjármagnað af innlendum fagfjárfestum og einum innlendum banka. Slíkt hefði verið óhugsandi árið 1998. Við færum stjórn Spalar ehf. og starfsmönnum bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og óskum félaginu velfarnaðar á komandi árum."

Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, þakkaði Íslandsbankamönnum fyrir ánægjuleg samskipti í aðdraganda samningsins í dag:

,,Skuldbreytingarferli af þessu tagi er flókið mál og nægir að nefna að alls 12 samningar liggja að baki staðfestingarskjalinu sem undirritað var á Akranesi í dag. Þetta er samt öllu einfaldara en þegar samið var um framkvæmdir og fjármögnun Hvalfjarðarganga í upphafi, í febrúar 1996. Þá var skrifað undir alls 39 samninga af ýmsu tagi! Vinnan við skuldbreytinguna nú tók 6 vikur og samstarf allra sem að málinu komu var bæði afar gott og gjöfult. Árangurinn birtist í þessum samningi Spalar og Íslandsbanka sem skilar lækkun veggjalds svo um munar, mest hjá þeim viðskiptavinum ganganna sem oftast fara undir Hvalfjörð."

Breyttar forsendur sem skiptu sköpum
Nýi lánasamningurinn á sér langan aðdraganda. Í maí 2001 samdi Spölur við Íslandsbanka um að kanna möguleika og kostnað við að skuldbreyta lánum félagsins. Ekki reyndist hagkvæmt þá að endurfjármagna lán John Hancock. Gengi íslenskrar krónu var óhagstætt og vextir á fjármagnsmarkaði voru mun hærri en nú.

Vorið 2004 samþykkti stjórn Spalar að taka málið upp á nýjan leik í ljósi þess að skilyrði til endurfjármögnunar voru orðin afar hagstæð á innlendum fjármagnsmarkaði. Vextir á lánum í verðtryggðum krónum voru lægri en um árabil og krónan stóð sterkt gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Þá lá fyrir að Spölur myndi greiða að fullu skuldir við íslenska lífeyrissjóði fyrir árslok 2004. Stjórn Spalar mat því endurfjármögnunina álitlegan kost og tækifæri til að minnka verulega hlutdeild erlendra gjaldmiðla í lánum félagsins. Það væri ótvíræður ávinningur fyrir félagið að losna við gengisáhættu sem fylgdi því að hafa stóran hluta skulda í erlendum gjaldmiðlum en allar tekjur í íslenskum krónum.

Í október 2004 hreyfði Spölur þeirri hugmynd við fjármálaráðherra að endurfjármagna lán ríkissjóðs og í kjölfarið heimilaði fjármálaráðuneytið uppgreiðslu allra skulda félagsins við ríkið. Á aðalfundi Spalar 16. nóvember 2004 kom fram að stjórn, framkvæmdastjóri og lögmaður félagsins ynnu að því að undirbúa endurskipulagningu lánamála félagsins í heild sinni. Þeirri undirbúningsvinnu lyktaði með því að Spölur óskaði eftir tilboðum fjármálafyrirtækja í endurfjármögnun skuldanna við John Hancock og ríkissjóð. Fimm tilboð bárust og ákveðið var að ganga til samninga við Íslandsbanka. Áður hafði Ríkisendurskoðun staðfest með athugun, að ósk samgönguráðherra, að draga mætti úr vaxtakostnaði Spalar með því að skuldbreyta innlendum og erlendum lánum félagsins. Þetta kom fram í bréfi dagsettu 23. nóvember 2004. Ráðherrann óskaði eftir slíkri athugun í mars 2004 í samræmi við heimild í samningi ríkisins og Spalar. 

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofu Spalar að Kirkjubraut 28 á Akranesi hefur verið lokað! 

Unnt er að hafa samband í síma 431 5900 og með tölvupósti: spolur@spolur.is 

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009