Afar lærdómsrík almannavarnaæfing

Almannavarnaæfingin Hvalfjarðargöng 2005 tókst eins og til var stofnað og efni stóðu til. Ætla má að hátt í 200 manns hafi tekið þátt í henni á einn eða annan hátt. Göngin voru opnuð að nýju fyrir umferð klukkan 14:00, einum tíma fyrr en auglýst hafði verið.

Göngunum var lokað á slaginu klukkan 8 í morgun og eftir það stóðu lögreglumenn frá Reykjavík vaktina á gatnamótum að sunnan en Borgarneslögreglan að norðan. Þá þegar var hafist handa við að draga bílflök inn í göngin og undirbúa vettvanginn fyrir þann atburð sem allt snerist um. Sviðsettur var árekstur rútu og fólksbíls en rétt hjá var jeppa ekið á gangavegginn og í honum kviknaði. Reyndar var meiningin sú að láta nægja að búa til reykjarkóf með vélum en þegar til kom framleiddu reykvélar Brunamálastofnunar svo máttleysislegan reyk að brugðið var á það ráð að ausa olíu yfir jeppaflakið og kveikja í. Bíllinn stóð því í ljósum logum þegar slökkviliðið bar að.

Fólk var í öllum bílunum og margir alvarlega slasaðir. Í hlutverkum bílstjóra og farþega voru nemendur í Lögregluskóla ríkisins og ungmenni af Akranesi, alls á fimmta tug manna sem höfðu verið útbúnir með svöðusár, beinbrot og meiðsl af ýmsu tagi í bækistöðvum slökkviliðsins á Kjalarnesi frá því snemma í morgun. Vert er að nefna að Vigdís, sú sem séð hefur árum saman um að sminka og undirbúa sjálfboðaliða fyrir flugslysa- og almannavarnaæfingar, segist ekki fyrr hafa unnið með svo góðum leikurum í hlutverkum slasaðra. Og víst er að frammistaða leikaranna hafði sitt að segja til að gera æfinguna raunverulega og á köflum hreinlega hrollvekjandi. Óp þeirra eftir gleymast þeim seint sem fylgdust með á hliðarlínunni.

Neyðarlínan fékk upphringingu úr göngunum um kl. 10:15 og um 20 mínútum síðar kom Slökkvilið Akraness á vettvang. Í kjölfarið dreif að sjúkralið af Akranesi og björgunarsveitir til að annast fyrstu aðgerðir á vettvangi og flytja fólk út úr göngunum, upp á söfnunarsvæði slasaðra á bílaplaninu ofan við gjaldskýlið. Ljóst var strax að sjúkrahúsið á Akranesi réði ekki við að taka í einu við öllum alvarlega slösuðum og var því óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar. Þyrla kom á vettvang þrátt fyrir að bálhvasst væri. Hún flutti slökkviliðsmenn og tækjabúnað frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að norðurmunnanum og tók til baka sjö slasaða áleiðis á Landspítala-háskólasjúkrahús. Þeir sem eftir voru alvarlega slasaðir voru fluttir á sjúkrahúsið á Akranesi ásamt þeim sem sluppu með meiðsl og minni háttar áverka. Sjúkrahúss Akraness hefði getað tekið við mun fleirum lítið slösuðum og meiddum en var komað að mörkum varðandi alvarlega slasaða. Til tals kom að kalla eftir skurðstofuteymi frá Reykjavík til aðstoðar.

Þátttakendur voru ánægðir með að fá tækifæri til að spreyta sig á verkefnum sem þeim tilheyra á neyðarstundu sem þessari. Víst er að umræðuefni skortir ekki á væntanlegum rýnifundi allra sem að málum komu á Akranesi á mánudagskvöldið. Af nógu er að taka, ef marka má fyrstu viðbrögð í dagt. Sumt þótti hafa vel tekist en annað miður. Til þess var leikurinn líka gerður, að læra af reynslunni. Og vissulega var almannavarnaæfingin í dag lærdómsrík.

Hópur gesta fylgdist með æfingunni í boði Spalar og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Gestirnir voru niðri í göngunum þegar mest gekk á þar og kynnt sér því næst þar sem fram fór á söfnunarsvæði slasaðra utan ganganna og á sjúkrahúsinu á Akranesi. Þeir létu í ljósi mikla ánægju með það sem bar fyrir augu og eyru í dag.

 

Glaðbeittur þrátt fyrir svöðusár! Hringt í Neyðarlínuna kl. 10:15.
Jeppi í ljósum logum í göngunum. Blóðugur rútufarþegi á slysstað.
Læknir stumrar yfir slösuðum bílstjóra. Bíllinn lenti beint framan á strætó.
Klippum beitt til að ná bílsstjóranum út. Og hér er hann kominn á börur.
Slökkvliðsmaður hughreystir rútufarþega. Fleiri rútufarþegar og aðvífandi aðstoð.
Þyrlan komin á vettvang. Greining slasaðra í gula tjaldinu.
Á þessi að fara á Skagann eða suður? Sjúkralið á Akranesi.
Gestirnir á Sjúkrahúsi Akraness. Hlúð að sjúklingi á Akranesi.
   

 

 

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofu Spalar að Kirkjubraut 28 á Akranesi hefur verið lokað! 

Unnt er að hafa samband í síma 431 5900 og með tölvupósti: spolur@spolur.is 

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009