Veggjaldið í aðalhlutverki

Veggjaldið í Hvalfjarðargöngum var aðalumræðuefnið í ýmsum myndum á borgarafundi markaðsráðs Akraness um samgöngumál á Skaganum í gærkvöld. Í lok fjölmenns fundar var samþykkt að skora á Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra að beita sér fyrir því að lækka gjaldið enn frekar eða fella það brott.

Ráðherra svaraði því til að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að borga upp skuldir Spalar og útrýma þannig veggjaldinu en benti á að hún hugleiddi að lækka neðra þrep virðisaukaskattsins. Þar með kynni að draga úr skattlagningu á veggjaldinu og það gæti lækkað sem því næmi til viðbótar gjaldskrárbreytingunni 1. apríl síðastliðinn.

Samgönguráðherrann eignaði sér reyndar bróðurpart heiðursins af því að veggjaldið var lækkað 1. apríl og vísaði í því sambandi til beiðni sinnar í fyrra um að Ríkisendurskoðun kannaði rekstur og lánamál Spalar. Hann sagði þessi afskipti sín hafa verið ,,fullkomlega eðlileg? og dró ekki fjöður yfir að hvesst hafi á stundum í samskiptum sínum og ráðamanna Spalar: ,,Stundum höfum við Gísli [Gíslason, stjórnarformaður Spalar] rekið horn hver í annan en það hefur leitt til þessarar ánægjulegu niðurstöðu."

Nokkrir fundarmenn gerðu harða hríð að samgönguráðherra á borgarafundinum og á honum dundu spurningar og athugasemdir vegna veggjaldsins, Sundabrautar og Héðinsfjarðarganga. Stjórnarformaður Spalar sat einnig fyrir svörum í pallborði og fékk fáeinar sneiðar líka en einkum og sér í lagi var það ráðherrann sem Skagamenn vildu eiga orðastað við. Það kom alveg skýrt fram hjá bæði Sturlu og Gísla að ríkisstjórnin hefði markað þá stefnu að borga hvorki skuldir Spalar né hætta innheimtu virðisaukaskatts af veggjaldi.

Samgönguráðherrann tók það fram að ef áhugasamir einstaklingar hefðu ekki á sínum tíma ráðist í að stofna félag um að gera og reka Hvalfjarðargöng hefðu þau ekki orðið að veruleika. ,,Líklega værum við enn að bíða eftir göngunum núna á árinu 2005", bætti Sturla við og þakkaði þessum aðstandendum Spalar fyrir frumkvæðið.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans, var einn þátttakenda í pallborðsumræðum og tók snerru við samgönguráðherra um Sundabraut við afar góðar undirtektir í salnum. Borgarfulltrúinn átti síðasta orðið á borgarafundinum og hlaut langvinnt lófatak fyrir þau ummæli að Sturla hefði lagt fram samgönguáætlun upp á 60 milljarða króna án þess að Sundabraut væri þar nokkurs staðar að finna. ,,Þetta er bara hreint brjálæði", sagði Dagur en Sturla svaraði skeytinu með því að hvetja Dag og meirihluta borgarstjórnar til að vinna betur sína heimavinnu svo unnt yrði að bjóða út framkvæmdir á árinu 2007.

Borgarafundurinn á Akranesi var í Grundaskóla og þar var fullt hús þrátt fyrir að á sama tíma væru Eiður Smári og félagar í Chelsea að spila við Liverpool í sjónvarpi í meistaradeild Evrópu í fótbolta. Sumir tóku stórt upp í sig og töluðu um að veggjald í Hvalfjarðargöngum væri dragbítur á atvinnulíf og þróun byggðar á Vesturlandi, hvorki meira né minna!

Fyrir örfáum árum var almennur fundur á Akranesi þar sem fundarmenn vildu ólmir borga fyrir að aka undir Hvalfjörð, bara ef þeir fengju göng. Tímarnir breytast og (Skaga)menn með. Eða þannig.

Þéttskipaður fundarsalur í Grundaskóla. Gísli, Sturla, Páll Brynjar bæjarstjóri í Borgarbyggð, Dagur B. og Gísli fréttamaður og fundarstjóri.
Stjórnarformaður Spalar tjáir sig og útlit er fyrir að sessunautunum sé mátulega skemmt. Margir þingmenn mættu til fundar en héldu sig til hlés.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofu Spalar að Kirkjubraut 28 á Akranesi hefur verið lokað! 

Unnt er að hafa samband í síma 431 5900 og með tölvupósti: spolur@spolur.is 

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009