Árni Þór Sigurðsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna, lýsti yfir á aðalfundi Spalar að hafnasamlagið myndi standa dyggan vörð um Spöl og láta mál félagsins og Hvalfjarðarganga sig miklu skipta.
Faxaflóahafnir sf. eru stærsti einstaki hluthafinn í Speli með 23,5%. Grundartangahöfn átti áður þessi hlutabréf í Speli en við samruna hafnanna í Reykjavík, á Akranesi, Grundartanga og í Borgarnesi, í byrjun árs 2005, fengu Faxaflóahafnir forræði yfir eignarhlutnum og stjórnarformaður hafnasamlagsins sat þarna aðalfund Spalar í fyrsta sinn.
Árni Þór kvaddi sér hljóðs í lok fundar og sagði að Faxaflóahafnir myndu heilshugar taka þátt í umræðum og undirbúningi þess að stækka Hvalfjarðargöng ef sú yrði niðurstaðan. Göngin væru afar mikilvæg samgönguæð á starfssvæði Faxaflóahafna og skiptu miklu máli fyrir uppbygginguna á Grundartanga. Hann sagði að þetta mál yrði tekið meðal annars tekið upp við Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sem kæmi fljótlega í heimsókn til Faxaflóahafna.
Hluthafar í Speli voru alls 44 í lok nýliðins reikningsárs félagsins. Þeir sem áttu meira en 10% hlut voru
- Faxaflóahafnir 23,5%,
- Ríkissjóður Íslands 17,6%,
- Íslenska járnblendifélagið hf. 14,7%,
- Vegagerð ríkisins 11,6%,
- Skilmannahreppur 11,6%.