Nýir veglyklar og aukið eftirlit með notkun þeirra

Betur er fylgst með því nú en áður að áskrifendur ferða í Hvalfjarðargöngum noti veglyklana sína í samræmi við samninga sem þeir undirrita þar að lútandi. Eftirlitið varð sjálfkrafa bæði skilvirkara og auðveldara þegar tekið var í notkun nýtt innheimtukerfi hjá Speli ehf., sem á og rekur göngin.

Ný gerð veglykla var jafnframt tekin í gagnið handa nýjum áskrifendum og til að láta öðrum viðskiptavinum í té í stað veglykla sem bila eða glatast af einhverjum ástæðum. Áskriftarsamningar Spalar hafa frá upphafi kveðið á um að veglykill fylgi tilteknum bíl. Óheimilt sé að flytja veglykil á milli bíla eða nota lausan lykil þegar ekið er um gjaldhlið norðan Hvalfjarðar. Áskrifandi skuldbindur sig meira að segja til að festa veglykilinn sinn tryggilega innan á framrúðuna hjá sér.

Umtalsverð brögð hafa verið að því að áskrifendur virði ekki þessi ákvæði samninga, geymi veglyklana í hanskahólfunum og flakki með þá úr einum bíl í annan. Jafnvel hefur komið fyrir að veglykill fyrir venjulegan fjölskyldubíl hafi verið settur í flutningabíl til að spara eigandanum veggjald í efri gjaldflokki! Í öðrum tilvikum gerir fólk sér ekki grein fyrir því að fjölskylda geti til dæmis tengt marga veglykla einum áskriftarreikningi, ef áskrifandi, maki hans og börn gera út tvo eða fleiri bíla á heimilinu. Slíku má auðveldlega kippa í liðinn á þjónustustöðvum þar sem veglykla er að fá.

Gamla innheimtukerfið gerði það illmögulegt að fylgjast með að veglyklarnir væru notaðir eins og til er ætlast og í samræmi við það sem áskrifendur sjálfir hafa samþykkt með undirskrifuðum samningum. Þetta eftirlit er mun auðveldara núna í nýja innheimtukerfinu eins og dæmin sanna undanfarna vikur.

Af og til kemur svo fyrir að menn hreinlega bruni viljandi um Spalarhlið án þess að borga. Þeir komust stundum upp með þetta áður vegna tæknilegrar takmörkunar eldra innheimtukerfisins en slíkt gerist ekki lengur, þökk sé nýja innheimtukerfinu. Brot af þessu tagi jafngildir því að aka yfir gatnamót á rauðu ljósi. Viðkomandi bíll er myndaður sjálfvirkt í gjaldhliðinu og eigandinn fær að minnsta kosti sekt sem svarar til tvöfalds veggjalds. Í sumum tilvikum fer málið lengra og hafnar á borði sýslumanns.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009