Heildarávinningur Vestlendinga af göngunum hálfur milljarður króna á ári

Hvalfjarðargöng komu Vesturlandi í svipaða stöðu og Suðurland var áður en göngin komu til sögunnar. Heildarávinningur ganganna er talinn vera að jafnaði 503 milljónir króna fyrir Vestlendinga árlega, þar af falla 394 milljónir króna íbúum á Akranessvæðinu í skaut, ávinningur Borgfirðinga er um 50 milljónir króna, ávinningur íbúa á Snæfellsnesi er sömuleiðis um 50 milljónir og Dalamanna um 7 milljónir króna.

Þetta er niðurstaða afar umfangsmikillar rannsóknar á áhrifum Hvalfjarðarganga á búsetuskilyrði og búsetuþróun á Vesturlandi sem Vífill Karlsson, hagfræðingur og dósent í Viðskiptaháskólanum Bifröst vann fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi.Verkefnið hófst árið 2002 og því lauk hún með því að birt var 26 blaðsíðna skýrsla þar sem dreginn er saman upplýsingar af ýmsu tagi varðandi viðfangsefnið. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi greiddu kostnað við rannsóknina auk Vegagerðarinnar, samgönguráðuneytis, Byggðastofnunar og Spalar.
Heildarávinningur Vestlendinga

Niðurstöður rannsóknarinnar eru dregnar saman í skýrslunni á eftirfarandi hátt:

 • Mikil áhrif voru á ferðakostnað Vestlendinga. Hann lækkar um 10-50% allt eftir eðli umferðar og búsetu vegfarenda. 
 • Aukin fjölbreytni og öryggi á vinnumarkaði. Jafnvel þó áhrif ganganna á meðallaun og atvinnuleysi séu ekki marktæk eru fjölbreytni starfaog öryggi á vinnumarkaði vissulega jákvæð vinnumarkaðsleg áhrif ganganna.
 • Lækkun vöruverðs og aukið vöruúrval. Matvöruverð hefur til að mynda lækkað um 3%. Þess utan hefur úrval matvöru og sérhæfðrar þjónustu aukist. Þróun á sérvöruúrvali hefur hins vegar verið neikvæð á Akranessvæðinu en jákvæð og frekar jákvæð annars staðar á Vesturlandi.
 • Á fasteignamarkaði fjölgar eignum og verð hækkar. Verð á íbúðarhúsnæði hefur hækkað eða á eftir að hækka um 13%-18,6% og iðnaðarhúsnæði um 10,5%-15%. Sumarhúsum fjölgar um 1%-4% árlega vegna Hvalfjarðarganganna. Eftirspurn bújarða hefur aukist.
 • Bætt aðgengi að opinberri þjónustu. Aðgengi Vestlendinga að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og háskólamenntun hefur batnað mjög mikið. Aðgengi að framhaldsskólum og aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunnar hefur batnað mikið.
 • Aðgengi Vestlendinga að menningar- og skemmtanalífi hefur tekið mjög jákvæðum breytingum.
 • Neikvæð umhverfisáhrif í formi hverskyns mengunar virðast ekki vera almenn en ferðum hefur fjölgað mjög mikið sérstaklega til og frá höfuðborgarsvæðinu eða um 30%.
 • Í rannsókninni kom skýrt fram að væntingar Vestlendinga til framtíðar Vesturlands hafa stóraukist. Það er einn mikilvægasti árangur Hvalfjarðarganganna þar sem jákvæðar væntingar eru frumforsenda fjárfestinga og framkvæmda í hverju hagkerfi.
 • Samskipti Vestlendinga við íbúa á höfuðborgarsvæði hafa stóraukist sem sjá má á tölum yfir umferðaraukingu en hún varð að minnsta kosti 30% vegna Hvalfjarðarganganna.
 • Opnun Hvalfjarðarganganna hefur leitt og á eftir að leiða til fjölgunar fyrirtækja á Vesturlandi. Á Suðvesturlandi fer mest fyrir fjölgun
  iðnaðarfyrirtækja en á Norðvesturlandi fyrirtækjum í verslun og þjónustu. Efling þekkingariðnaðar er áberandi á Borgarfjarðarsvæðinu
  á árunum eftir opnun ganganna og er að öllum líkindum vegna samspils á eflingu háskólastarfs og tilkomu Hvalfjarðarganga að þakka.
 • Fullyrða má að Hvalfjarðargöng eigi sinn þátt í því að íbúum hefur fjölgað á Vesturlandi að einhverju ráði í fyrsta skipti í 20 ár jafnvel þó
  aðrir þættir hafi byggst upp á sama tíma eins og stóriðja á Grundartanga og háskólar í Borgarfirði svo dæmi séu tekin. Þetta sést á
  því að íbúaþróun eflist líka á Snæfellsnesi og í Dölum. Ennþá er fjölgun mest í elstu aldurshópunum. Kynjahalli fer minnkandi.
 • Vannýtt tækifæri felast einkum í lækkun veggjalds, endurskoðun almenningssamgangna og kynningar á kostum Vesturlands til dvalar í
  skemmri eða lengri tíma, búsetu og atvinnustarfsemi.

Ávinningur notenda

Ávinningur notenda ganganna felst í lægri heildaraksturskostnaði auk þess sem minni líkur eru á að þeir lendi í slysum.

Heildarávinningur VestlendingaEinna mestur ávinningur Vestlendinga er í formi lægri ferðakostnaðar.
Heildaraksturskostnaður samanstendur af beinum aksturskostnaði og tímavirði. Beinn aksturskostnaður felst í öllum fjárútgjöldum sem vegfarandi verður fyrir við að ferðast. Tímavirði felst í því hversu mikils virði tíminn er vegfarandanum. Þarna þarf að greina á milli hvort ekið er í frítíma eða vinnutíma. Atvinnubifreiðum er ekið í vinnutíma og eru laun ásamt launatengdum gjöldum tímavirði í því tilviki. Erfiðara er að meta tímavirði
frítíma. Þá má gera ráð fyrir að tímavirði sé mjög mismunandi frá einum vegfaranda til annars. Þó er almennt er talið að það sé í nánum tengslum við laun einstaklingsins þar sem einstaklingurinn þekkir hvernig atvinnurekandinn metur tíma hans.

Að öllu jöfnu má telja að þeir íbúar Akranessvæðisins sem meta frítíma sinn
meira en 297 króna virði hverja klst. fari um göngin. Á öðrum svæðum er þessi tala 756 krónur. Ef vegfaranda finnst óþægilegra að aka um fjörðinn heldur en um göngin þá lækkar þetta viðmið. Hins vegar getur vegfarenda fundist æskilegra að fara um fjörðinn heldur en um göngin ef honum finnst fjörðurinn falleg akstursleið eða ef hann er haldinn innilokunarkennd. Í því tilfelli þarf tímavirði vegfarandans að fara upp fyrir áðurnefndar tölur til þess að hann fari um göngin.

Eftir allnokkurn samanburð á aðferðum og útreikningum var niðurstaðan sú að heildaraksturskostnaður lækkar um 6.784 milljónir króna að núvirði fyrir Vestlendinga alla. Þetta eru 5.386 milljónir króna fyrir íbúa á Akranessvæðinu, 628 milljónir króna fyrir Borgfirðinga og Mýramenn, milljónir króna fyrir Snæfellinga og 94 milljónir króna fyrir Dalamenn.

Slysum fækkar töluvert á akstursleiðinni fyrir Hvalfjörð. Hins vegar er slysatíðni á hverja milljón ekna kílómetra óbreytt fyrir og eftir göng. Þegar nánar er rýnt í tölurnar þá kemur í ljós að slysatíðni alvarlegri slysa dregst saman en minna alvarlegum slysum fjölgar, þ.e. óhöpp án líkamsmeiðsla.

Eftir að þessi breyting var metin kom í ljós að Vestlendingar hagnast um 274 milljónir króna á fækkun slysa, þar af falla 149 milljónir króna í hlut Akranessvæðisins, milljónir króna í hlut Borgarfjarðarsvæðisins, 30 milljónir króna til Snæfellsness og 5 milljónir króna til Dalanna.

Í spurningakönnun sem framkvæmd var í tengslum við þessa rannsókn var svarendum gefinn kostur á að tjá sig að vild (þ.e. opnar spurningar) um aðra neikvæða og jákvæða fylgifiska Hvalfjarðarganganna en þá sem spurt var út í með beinum hætti. Þess utan voru haldnir fundir með íbúum þessara svæða (rýnihópar) um sama málefni. Ýmsar upplýsingar komu þá fram sem forvitnilegt er að nefna og verður það gert undir þeim liðum sem við eiga hverju sinni. Aukið umferðaröryggi var einna oftast nefnt í opnum spurningum og rýnihópum. Þá komu einnig fram fullyrðingar um betri samgöngur og sá munaður að vera laus við Hvalfjörðinn. Þess ber þó að geta að sjónarmið um aukinn umferðarþunga og umferðaróöryggi komu einnig fram en þau voru miklu sjaldgæfari.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofu Spalar að Kirkjubraut 28 á Akranesi hefur verið lokað! 

Unnt er að hafa samband í síma 431 5900 og með tölvupósti: spolur@spolur.is 

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009