Samantekt Spalar um lánamál og veggjald

Samantekt Spalar ehf. vegna endurfjármögnunar lána og bréfs Ríkisendurskoðunar dags. 23. nóvember 2004.

  1. Stjórn Spalar ehf. hefur um nokkurra mánaða skeið haft til skoðunar þann möguleika að endurfjármagna lán félagsins. Hefur framkvæmdastjóri m.a. sett upp líkan um endurgreiðslu lána félagsins annars vegar miðað við óbreytta stöðu og hins vegar miðað við nýja fjármögnun og lengingu lána. Líkan þetta var í októbermánuði kynnt fjármálaráðherra og Vegagerðinni. Í nóvember var málið kynnt svonefndri samráðsnefnd um Hvalfjarðargöng, en í þeirri nefnd eru fulltrúar Spalar, Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytis. Þá hafa fulltrúar Spalar átt fund með fulltrúum fjármálaráðuneytisins um málið.
  2. Endurfjármögnun lána Spalar ehf. lúta annars vegar að uppgreiðslu lána við líftryggingafyrirtækið John Hancock Ltd. að fjárhæð um 2,8 milljarða króna og hins vegar við íslenska ríkið að fjárhæð um 2,2 milljarða króna. Erlendu lánin eru háð uppgreiðsluákvæðum, sem taka mið af mismuni greiddra vaxta og vaxta af ríkisskuldabréfum með sama líftíma og er á þeirri mynt, sem skuld Spalar er í, Dollurum, Evru og GPB. Ætla má að fjárhæð þessi nemi um 450 ? 550 mkr. Vaxtakjör á þeim lánum sem fengjust í staðinn myndu síðan leiða í ljós hvort uppgreiðslan væri hagkvæm. Væru þau tekin hér á Íslandi hjá lífeyrissjóðum eða bönkum yrðu þau hugsanlega álíka í kjörum eða jafnvel hærri þegar tillit væri tekið til verðtryggingar. Hvað lán frá íslenska ríkinu varðar þá telur Spölur að betri kjör og lengri lánstími létti greiðslubyrði félagsins og er það nú rætt við fulltrúa fjármálaráðuneytis. Í bréfi Ríkisendurskoðunar er rætt um að lækkun vaxta gæti numið um 50 mkr. á ári. Hér er sennilega fullmikið í lagt, þar sem dýrasti hluti lánsins, sem ber 9,2% vexti verður greiddur upp strax á næsta ári. Líklegast er að lækkunin yrði, ef ríkissjóður samþykkir, 28 ? 29 mkr. í upphafi. Þessi lækkun jafngildir um 20 krónum að meðaltali á bíl í upphafi.
  3. Af hálfu Spalar ehf. hefur verið kappkostað að gæta aðhalds í rekstri. Bréf Ríkisendurskoðunar staðfestir að það hafi tekist.
  4. Af hálfu Spalar ehf. hefur verið unnið að því að ná bestu og hagstæðustu kjörum á iðgjöldum trygginga, sem í kjölfar atburðanna 11. september 2001 hækkuðu verulega. Nú hefur náðst árangur í þessu efni og munu iðgjöld trygginga lækka úr um 60,0 mkr. í tæplega 50,0 mkr., en þess ber að geta að tryggingaiðgjöld eru hæsti einstaki útgjaldaliðurinn í almennum rekstrargjöldum félagsins
  5. Þegar Hvalfjarðargöng voru opnuð voru kannaðir ýmsir kostir til innheimtu veggjalds, meðal annars að hafa þar mannlausa innheimtustöð. Niðurstaðan var sú að hafa vakt við göngin allan sólarhringinn og þar var fyrst og fremst horft til öryggishagsmuna vegfarenda, viðskiptavina Spalar. Reynslan hefur margsinnis sýnt og sannað að vakt í gjaldskýlinu getur skipt sköpum ef eitthvað bjátar á í göngunum eða við þau. Í endurskoðaðri viðbragðsáætlun Hvalfjarðarganga, sem tók gildi 10. maí 2004 eftir umfangsmikið starf fulltrúa allra viðbragðsaðila sunnan og norðan Hvalfjarðar, er vaktmönnum í gjaldskýli ætlað afar veigamikið hlutverk. Vaktin er þannig formlegur þáttur í viðbragðsáætlun ganganna og hefur skilgreint hlutverk á neyðarstundu gagnvart vegfarendum í göngunum, Neyðarlínunni, slökkviliði, lögreglu og öðrum sem koma við sögu. Stjórn Spalar ehf. er það metnaðarmál að öryggi í göngunum verði eins og best verður á kosið. Mikill meirihluti vegfarenda um Hvalfjarðargöng notar nú þegar sjálfvirkan innheimtubúnað (veglykla). Einhverjir fjármunir myndu vissulega sparast við að leggja niður vaktina í gjaldskýlinu og innheimta allt sjálfvirkt en það eru óverulegar fjárhæðir þegar horft er til þess að öryggi vegfarenda myndi um leið minnka verulega. Slík breyting myndi beinlínis kalla á heildarendurskoðun nýrrar viðbragðsáætlunar ganganna sem mikil samstaða hefur náðst um. Þess má geta að launakostnaður vegna starfsmanna í gjaldskýli er á síðasta fjárhagsári 40,3 mkr., en einhver kostnaður kæmi alltaf á móti vegna aukins eftirlits.
  6. Á fundi stjórnar Spalar ehf. þann 16. nóvember s.l. var m.a. tekið fyrir erindi samgöngunefndar Alþingis um veggjald í Hvalfjarðargöng. Stjórnin gerði af því tilefni eftirfarandi samþykkt: ?Stjórnin er að kanna hvort mögulegt sé að ná hagkvæmari og lengri lánskjörum sem ættu að geta leitt til lækkunar veggjaldsins. Rétt er þó að benda á að veggjald hefur frá opnun ganganna lækkað að raungildi um 40%. Hyggist ríkið koma með einhverjum hætti að frekari lækkun, sér stjórn Spalar ehf. því ekkert til fyrirstöðu.?

Akranesi 26. nóvember 2004.
Gísli Gíslason, formaður stjórnar.
Stefán Reynir Kristinsson, framkvæmdastjóri.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009