Samgönguráðherra opnaði Tetra-kerfið

Sturla Þórðarson, samgöngurráðherraSturla Böðvarsson, samgönguráðherra, opnaði í morgun nýtt Tetra-fjarskiptakerfi Spalar og Hvalfjarðarganga með því að tala við Neyðarlínuna úr þjónustubíl Spalar. Ráðherra kom ásamt föruneyti og Spalarmenn í tilefni fimm ára afmælisins. Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, tók á móti gestunum og bauð upp á morgunkaffi í rútubíl norðan fjarðar, á milli gangamunnans og gjaldskýlisins. Á vettvangi voru aðrir stjórnarmenn Spalar, starfsmenn fyrirtækisins, Jón Pálsson, framkvæmdastjóri Tetra-Ísland og slökkviliðsmenn af Akranesi í fullum skrúða. Samgönguráðherra fór lofsamlegum orðum um Hvalfjarðargöng og aðstandendur mannvirkisins í ávarpi og sagði að göngin hefðu staðið undir öllum væntingum og rúmlega það. Hann sagði að umferðarálag væri að aukast á nærliggjandi þjóðvegum og vék sérstaklega að tvöföldun þjóðvegarins í gegnum Mosfellsbæ. Allt eins líklegt væri að stjórnvöld tækju Spalarmenn tali í framtíðinni um að bora ný göng undir Hvalfjörð til að anna álaginu!

Gísli Gíslason afhenti ráðherra að skilnaði afar fallegt listaverk sem Dýrfinna Torfadóttir, gullsmiður á Akranesi, hannaði sérstaklega í tilefni dagsins. Þar er munni Hvalfjarðarganga mótaður í silfur og steinn úr göngunum í viðarramma. Verkið nefnist ,,Góða ferð undir fjörðinn".

Spölur sendi í dag frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í tilefni heimsóknar samgönguráðherrans:
Fimm ár eru í dag liðin frá því Hvalfjarðargöng voru tekin í notkun við hátíðlega athöfn. Göngin voru opnuð fyrir almennri umferð kl. 18:56 11. júlí 1998 og á fyrsta sólarhringnum fóru um þau 11.800 bílar, sem er umferðarmet þar enn þann dag í dag.

Alls fóru 5,8 milljón ökutæki um Hvalfjarðargöng á fyrstu fimm árunum, mun fleiri en ráð var fyrir gert á undirbúningstíma mannvirkisins. Þannig var í upphafi miðað við að 1.500 bílar færu að jafnaði á sólarhring um göngin en reyndin varð 2.500 bílar á sólarhring á fyrsta rekstrarárinu og 3.500 bílar á sólarhring árið 2002!

Í fyrstu óku landsmenn ókeypis undir Hvalfjörð í boði Spalar ehf., sem á og rekur göngin, en byrjað var að innheimta veggjald að morgni 20. júlí 1998.

Í dag heldur Spölur ehf. upp á afmæli Hvalfjarðarganga með því að bjóða landsmönnum að aka ókeypis undir Hvalfjörð í einn sólarhring, frá kl. 7 að morgni föstudags 11. júlí til kl. 7 að morgni laugardags 12. júlí.

Umferðin hefur verið stóráfallalaus allan rekstrartíma ganganna og einungis eru skráð í þeim fáein minni háttar óhöpp án alvarlegra meiðsla á fólki. Það er þannig staðreynd að opnun Hvalfjarðarganga markaði ekki einungis tímamót í samgöngumálum heldur ekki síður í umferðaröryggismálum þjóðarinnar.

Samgönguráðherra tók í notkun nýtt fjarskiptakerfi ganganna
Ráðamenn Spalar ehf. hafa öryggi vegfarenda ætíð í fyrirrúmi. Öryggisbúnaður í Hvalfjarðargöngum er í fremstu röð miðað við sambærileg samgöngumannvirki.

Ný viðbúnaðaráætlun fyrir Hvalfjarðargöng stuðlar að enn auknu öryggi í umferðinni og sama má segja um nýtt Tetra-fjarskiptakerfi Spalar og Hvalfjarðarganga, sem Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, tók formlega í notkun í dag. 
TETRA-væðingin er mikilvægur þáttur í öryggisviðbúnaði ganganna og tryggir traust og skilvirkt fjarskiptasamband slökkviliðs, lögreglu, sjúkraliðs og starfsmanna Spalar ef alvarlegt ástand skapast í göngunum.
 

Ný viðbragðsáætlun
Viðbragðsáætlun hefur verið í gildi frá því göngin voru opnuð. Umfangsmikil endurskoðun hennar hófst á árinu 2002 þar sem koma að verki m.a. fulltrúar slökkviliða, lögreglu, Brunamálastofnunar, Almannavarna, björgunarsveita, sjúkrahúsa, Vegagerðarinnar og Spalar. Liður í því verkefni voru fjarskipta- og slökkviæfingar í göngunum fyrr á þessu ári til að afla þekkingar og nauðsynlegrar reynslu. Um þessar mundir er unnið að lokayfirferð og frágangi áætlunarinnar og stefnt að því að láta reyna á hana og viðbúnaðarkerfið allt á almannavarnaæfingu í göngunum í haust.

Þeir sem að málinu koma vinna í þeim anda að viðbragðsáætlunin verði aldrei plagg, sem fái að rykfalla uppi á hillu, heldur virkt samráðsferli, sem aldrei lýkur. Þess vegna hefur verið samþykkt og ákveðið að

  • viðbragðsáætlunin verði kynnt á hverju ári fyrir starfsmönnum útkallsdeilda slökkviliða á höfuðborgarsvæði og á Akranesi og fyrir starfsmönnum Spalar. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra annist reglubundna kynningu fyrir aðra sem málið varðar.
  • fjarskipta- og útkallsæfingar verði minnst einu sinni á ári.
  • slökkviæfing verði annað hvert ár.
  • almannavarnaæfing verði fimmta hvert ár.

Tetra-kerfið
Stjórn Spalar ákvað fyrr á þessu ári að verja nær 20 milljónum króna til að setja upp Tetra-fjarskiptakerfi, sams konar kerfi og slökkvilið og lögregla á höfuðborgarsvæðinu nota. Tetrastöðvar voru þegar í stað settar upp í gjaldskýlinu norðan fjarðar og í sumar hefur verið unnið að því að koma fyrir sendum, móttökurum og öðrum nauðsynlegum búnaði inni í göngunum. Nýja kerfið er nú komið í gagnið og þar með skapast tæknilegar forsendur fyrir mun öruggara og skilvirkara sambandi slökkviliða, lögreglu og annarra aðila að viðbragðsáætlun ganganna.

Minnkandi rauntekjur af umferðinni
Tekjur af umferðinni í Hvalfjarðargöngum urðu mun meiri en búist var við í upphafi og í því ljósi þótti fært að lækka veggjaldið í ágúst 1999, í upphafi annars rekstrarárs ganganna. Einnig er ljóst að veggjaldið hefur lækkað verulega frá upphafi miðað við verðlag. Þess njóta auðvitað viðskiptavinir Spalar.

  • Nettótekjur Spalar af hverjum bíl (óháð stærð) hafa lækkað um allt að 36% að raunvirði frá júlí 1998 til maí 2003.
    o Nettótekjur af hverjum bíl voru að meðaltali 1.072 krónur í júlí 1998 en 684 krónur í maí 2003 (báðar tölur á verðlagi í maí 2003).
  • Veggjald í einstökum gjaldflokkum hefur lækkað að raungildi um 18-40% frá því göngin voru opnuð, sé miðað við breytingar á neysluverðsvísitölu á sama tímabili.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009