Mannleg mistök, bilanir og gallað öryggiskerfi í Oslófjarðargöngum

Samspil mannlegra mistaka, bilana í tæknibúnaði og ófullnægjandi öryggiskerfis gerði það að verkum að vatn flæddi inn í veggöng undir Oslóarfjörð 16. ágúst í sumar. Má því segja að þar hafi flest brugðist sem brugðist gat.

Rannsóknarskýrsla fyrirtækisins Veritas og norsku vegagerðarinnar um atvikið var gerð opinber í gær. Í kjölfarið verður farið yfir öryggisbúnað og eftirlit í öllum jarðgöngum í Noregi sem eru yfir einn kílómetri að lengd en þau eru um 190 talsins.

Í skýrslunni kemur fram að öryggiskerfi ganganna undir Oslóarfirði hafi trúlega aldrei verið prófað á fullnægjandi hátt án þess að fyrir liggi skýring á því. Dælur við safnþró vatns í botni ganganna reyndust bilaðar eða óvirkar af ýmsum ástæðum og viðvörunarkerfið lét ekki vita um ástandið á búnaðinum, að hluta til vegna þess gleymst hafði að ganga á fullnægjandi hátt frá stýribúnaði eftir síðustu viðhaldsskoðun.

Ekki var fylgst með vatnsborðinu í þrónni nema með mælitækjum ofanjarðar og þegar þau tæki sviku vissi enginn um að vatnsborðið hafði hækkað um 7 metra án þess að nokkru væri dælt út. Að lokum hlaut vatnið að flæða inn á sjálfa akbrautina. Það gerðist 16. ágúst sl. og skömmu síðar óku eldri hjón skyndilega út í vatnstjörn á leið sinni um göngin.

Dælur og eftirlitskerfi hefur verið lagfært og endurbætt í göngunum undir Oslóarfjörð en síðast en ekki síst hefur verið búið svo um hnúta að farið verði reglulega niður að vatnsþrónni til að fylgjast með gangi mála þar og ganga úr skugga um að þar sé allt með felldu, hvað svo sem sjálfvirkur eftirlitsbúnaður gefur til kynna.

Sjá umfjöllun í Aftenposten 17. september 2003.

Nánast er útilokað að atvik af þessu tagi gæti komið fyrir í Hvalfjarðargöngum. Spölur ehf., sem á og rekur göngin, sendi frá sér tilkynningu 17. ágúst í tilefni vatnslekans í göngunum undir Oslóarfjörð. Eftir að rannsóknarskýrslan hefur verið birt í Noregi er ástæða til að rifja upp meginefni tilkynningar Spalar frá því í sumar:

  • Fram kemur að inn í göngin undir Oslóarfjörð leki að jafnaði um 30 lítrar á sekúndu af jarðvatni en til samanburðar má geta þess að leki í Hvalfjarðargöngum er einungis um 5 lítrar á sekúndu.
  • Á botni Hvalfjarðarganga er þró sem tekur við jarðvatninu. Fjórar dælur eru til taks til að koma vatninu þaðan út. Lekinn í göngunum er einungis brot af því sem reiknað var með við hönnun ganganna og er reyndar svo lítill að það dugar að hafa eina dælu af fjórum í gangi í fáeinar klukkustundir á sólarhring.
  • Fylgst er með dælubúnaðinum og vatnsborðshæðinni í þrónni. Þetta er liður í reglubundnu eftirliti í göngunum.
  • Vatnsþróin tekur við leka í göngunum í að minnsta kosti eina viku án þess að dælt sé úr henni.

Í ljósi þess sem hér segir þyrfti margt að fara úrskeiðis samtímis til að vatnsþróin Guðlaug í Hvalfjarðargöngum yfirfylltist líkt og virðist hafa gerst í göngunum undir Oslóarfjörð: t.d. langvarandi bilun í öllum dælum samtímis, rafmagnsleysi dögum saman og bilun á sama tíma í varaaflgjafa ganganna.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009