Ósanngjörn umræða um öryggismál ganganna

Forystumenn Spalar eru ekki sáttir við tóninn sem hefur verið nokkuð áberandi í þjóðmálaumræðunni um öryggismál Hvalfjarðarganga og vilja ekki sitja undir ásökunum um að öryggi vegfarenda í göngunum sé áfátt. Þetta kom skýrt fram í máli Gísla Gíslasonar, stjórnarformanns Spalar ehf. á aðalfundi félagsins á Akranesi í sl. föstudag.

,,Spölur hefur uppfyllt öll þau skilyrði sem samið var um að gilda skuli um rekstur félagsins. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins telur sig ekki í stakk búið til að mæta eldsvoða í göngunum og að það sé hlutverk Spalar að bæta þar úr. Því er og haldið fram að vafi leiki á hver fari með eftirlitshlutverk hvað brunavarnir varðar. Stjórn Spalar telur félagið ekki hafa með að gera hver fari með boðvald í brunamálum en minnir ítrekað á að Hvalfjarðargöng uppfylli þá staðla sem um var samið í upphafi og reyndar gott betur en það. Þau rök duga hins vegar skammt og svo virðist sem sá samningur, sem Spölur gerði við ríkið um rekstur Hvalfjarðarganga, sé gleymdur eða torskilinn - jafnvel sumum þeim sem koma að málum frá ríkinu."

Gísli sagði að stjórn Spalar vildi leggja sitt af mörkum til að ,,ná sátt um öryggismál í göngunum" og nefndi nokkur atriði þar að lútandi.

  • Stjórn Spalar samþykkti að endurskoða viðbragðsáætlun ganganna að því er tekur til slökkiliða og brunavarna. Óskað hefur verið eftir tilnefningu Brunamálastofnunar, slökkviliðanna á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, Vegagerðarinnar og lögreglunnar í starfshóp, auk þess sem Spölur tilnefnir fulltrúa.
  • Stjórn Spalar hefur tilnefnt formann félagsins í samráðshóp með vegamálastjóra, brunamálastjóra og slökkviliðsstjóra slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til að fjalla um tiltekin verkefni, svo sem endurskoðun viðbragðsáætlunar, gerð brunavarnarreglugerðar fyrir veggöng, flutning hættulegra efna, slökkviliðsæfingar í göngunum, framkvæmd skoðunar á ástandi vöruflutningabíla og framkvæmd eftirlits með farmi vöruflutningabíla.
  • Stjórn Spalar hvetur til þess að fulltrúar Spalar, Brunamálastofnunar og slökkviliðanna kynni sér staðla og brunavarnir í sambærilegum göngum erlendis undir leiðsögn fulltrúa Vegagerðarinnar.

Formaður Spalar rifjaði upp að í samningum Spalar og ríkisvaldsins um öryggismál í Hvalfjarðargöngum væru öryggiskröfur í samræmi við norskan öryggisstaðal í sambærilegum jarðgöngum. Sá staðall væri í endurskoðun í Noregi en engu að síður væri útlit fyrir að Hvalfjarðargöng uppfylltu nú þegar væntanlegar hertar öryggiskröfur nýs staðals. Stjórn Spalar hefur falið Vegagerðinni að gera úttekt á Hvalfjarðargöngum með tilliti til hertra öryggiskrafna í Noregi. Fjallað verður sérstaklega um málið á vettvangi stjórnar Spalar þegar úttekt Vegagerðarinnar er lokið og þá væntanlega ákveðið hvað beri að gera til að uppfylla kröfur nýs norsks öryggisstaðals.

Gísli Gíslason sagði auðvitað mikilvægast að vegfarendur gætu treyst því að öryggis þeirra væri gætt í Hvalfjarðargöngum eins og nokkur kostur væri. Hann sagði að ef farið yrði að krefjast ráðstafana í öryggismálum, sem væru umfram þær kröfur sem kveðið væri á um í samningi Spalar og ríkisvaldsins, þá ætti ríkissjóður að greiða þann kostnað í samræmi við ákvæði í þeim samningi.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009