Þjóðvegahátíð í besta skilningi

Opnunarhátíð Hvalfjarðarganga sl. laugardag, 11. júlí, var þjóðvegahátíð í besta skilningi þess orðs og átti ekkert sameiginlegt með þeirri ringulreið sem ríkti á vegum að Þingvöllum á afmæli lýðsveldis forðum daga - eins og ýmsir óttuðust.

Öðru nær, umferðin var gífurlega mikil eftir að göngin voru opnuð - einkum síðdegis sunnudaginn 12. júlí en hún gekk greiðlega og áfallalítið - þökk sé tillitssemi og þolinmæði ökumanna, frábæru starfi lögreglu og síðast en ekki síst afar afar afkastamiklu samgöngumannvirki! Alls fóru 11.800 bílar um Hvalfjarðargöng frá miðnætti aðfararnótt 12. júlí til miðnættis aðfaranótt 13. júlí. Þetta er um 55% meiri umferðarþungi en um verslunarmannahelgar og til samanburðar má geta þess líka að meðalumferð við Fossá í Hvalfirði á sunnudögum er um 5.200 bílar.

Þessi umferð fyrsta sólarhringinn er langt umfram það sem miðað var við að göngin "þyldu" áður en loftmengun af útblæstri færi yfir viðmiðunarmörk og umferð yrði stöðvuð sjálfvirkt til að hreinsa út óloftið. Meira að segja voru loftblásararnir í göngunum aldrei keyrðir af fullu afli og samt varð mengun aldrei svo mikil að öryggiskerfið segði stopp. Þetta eru þannig góðar fréttir fyrir vegfarendur að öryggisbúnaðurinn hafi staðist þessa prófraun með glans.

Sex bílar biluðu í göngunum á fyrstu sólarhringunum og veita þurfti aðstoð við að koma þeim í gang eða draga þá upp, þar af biluðu bílar í þrígang þegar mest umferðarálag var í göngunum síðdegis á sunnudag. Loka varð göngunum á meðan þeir voru dregnir burtu og raðir mynduðust en úr hnútunum greiddist fljótt og vel.

Lögregla fylgist vel með ökumönnum og umferðinni fyrstu vikurnar, einkum um helgar, og gætir þess m.a. að menn virði 70 km hámarkshraða. Nokkrir ökumenn fóru samt vel yfir hundraðið í göngununum að næturlagi fyrstu helgina en voru staðnir að verki og gjalda fyrir það lögum samkvæmt. Það sem einna helst veldur ugg og áhyggjum eftir reynslu af göngunum fyrstu dagana eftir opnun eru flutningabílar með farm sem er hærri en lögbundið hámark, 4,20 metrar.

Í nokkrum tilvikum hafa flutningabílar rekið farm upp í skilti við gangamunna og einn "áreksturinn" var svo harður að skellurinn heyrðist úr norðurmunna upp að gjaldskýli. Lögreglu var gert viðvart í því tilviki og hún stöðvaði þann bíl á leið til Reykjavíkur og staðfesti með mælingu að farmurinn var talsvert hærri en lög leyfa. Ráðamenn Spalar og Fossvirkis velta fyrir sér hvort gera beri sérstakar ráðstafanir vegna þessarar tegundar lögbrota í göngunum enda er það hreint ekkert grín ef flutningabílar sleppa inn í göngin með svo háan farm að hann rekst upp í stóru loftblásara í gangaloftinu, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir blásarana, flutningabílana og þá vegfarendur sem á eftir koma. Rík ástæða er því til þess að brýna fyrir flutningabílstjórum að gæta vel að hæð farmsins hjá sér áður en lagt er í'ann undir fjörðinn.

Sjálf opnunarathöfnin 11. júlí fór fram eins og best verður á kosið í blíðskaparveðri. Hátt í sjö hundruð boðsgestir Spalar og Fossvirkis mættu á svæðið, að því er talið er, og fjöldi annarra gesta komu á vettvang bæði sunnan og norðan ganga. Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, og Páll Sigurjónsson, stjórnarformaður Fossvirkis, ávörpuðu gesti við suðurmunna, Davíð Oddsson, forsætisráðherra, opnaði göngin formlega og Lúðrasveit Akraness lék. Við suðurmunna talaði Anton Ottesen, oddviti Innri-Akraneshrepps, og verðskuldar heiðurstitilinn "senuþjófur samkomunnar", enda fór hann á kostum og kætti áheyrendur verulega. Ráðherrarnir Ingibjörg Pálmadóttir og Halldór Blöndal töluðu þar á eftir og Karlakór Reykjavíkur söng. Á eftir fóru boðsgestir um borð í Akraborgina og nutu veitinga í eftirminnilegri siglingu um Hvalfjörð og til Reykjavíkur. Skipið lagðist að bryggju í höfuðstaðnum um kl. 19 og hélt þaðan upp á Skaga með gesti sem þar fóru í land.

Á meðan glaumur og gleði ríkti í Akraborginni hlupu, hjóluðu, gengu og (hjóla)skautuðu um 2.000 manns gegnum göngin, frá suðri til norðurs, í einstæðu Hvalfjarðargangahlaupi á vegum Reykjavíkurmaraþons. þátttakendur urðu tvöfalt fleiri en búist var við og reyndar varð að hætta að skrá í hlaupið til að koma í veg fyrir hreint öngþveiti. Fyrstur í mark að norðan kom hljólreiðakappinn Einar Jóhannsson og fór undir fjörðinn á rúmum 12 mínútum. Fyrsti hlauparinn var Ingólfur Gissurarson á tímanum 22,40. Verulegur mótvindur var í göngunum og sumir voru orðnir dasaðir í leiðarlok.

Biðraðir vonglaðra ökumanna í bílum höfðu myndast beggja vegna ganga þegar klukkan nálgaðist sjö um kvöldið og nákvæmlega kl. 18:56 klippti Geir Jón þórisson, lögregluvarðstjóri í Reykjavík, á borða að sunnan og hleypti umferðinni inn í göngin. Stóra stundin var þar með runnin upp.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009