Okur í göngum? Nei, aldeilis ekki!

Dagblaðið Dagur birti í leiðaraopnu hinn 24. júní sl. grein eftir einn af blaðamönnum þar á bæ um gjaldskrármál Spalar undir fyrirsögninni "Okur í Hvalfjarðargöngum". Svargrein birtist í sama blaði 1. júlí en henni var valinn staður svo lítið bar á aftast í seinni blaðhlutanum. Sú grein fer hér á eftir og er öðrum þræði almenn hugleiðing um gjaldskrá ganganna:

Greinarhöfundur Dags kallar veggjald í Hvalfjarðargöngum "okur í skjóli einokunar". Hugtakið "okur" í þessu sambandi er huglægur merkimiði sem hann notar til að fá meiri slagkraft í málflutninginn en gengi orðsins hríðfellur í því samhengi sem það er hér notað. Eftirtektarvert er nefnilega að greinarhöfundur telur sig geta vel unað við að borga 800 krónur fyrir að aka í gegnum göngin en þegar stakt veggjald upp á 1.000 krónur er orðið okur! Hvorki meira né minna.

Að bendla rekstur ganganna við "einokun" er er líka gengisfelling á hugtaki og þar að auki hreinlega rangt. Enda birtist ákveðin móttsögn síðar í greininni þegar greinarhöfundur réttilega segist geta valið um að aka um göngin eða fara fyrir fjörð. Hvernig birtist honum þá hin meinta "einokun"? Ef ríkisvaldið hefði lagt Akraborginni og grafið í sundur veginn fyrir Hvalfjörð, þá hefði hæglega mátt velta Speli upp úr einokunaraðstöðu. Staðreyndin er hins vegar sú að Hvalfjarðargöng verða rekin í samkeppni við núverandi veg fyrir fjörðinn. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir. Fullyrt er í greininni að rætt hafi verið um að veggjald í Hvalfjarðargöngum yrði 600 krónur. Þar sem sú fullyrðing hefur áður sést á síðum Dags, án þess að vísað væri í heimildir, fór ég í gegnum allt sem frá Speli hefur farið um gjaldskrármál frá upphafi. Skemmst er frá að segja að Spalarmenn hafa hvergi nefnt að veggjaldið yrði 600 krónur. Þegar framkvæmdir hófust var talað um að gjaldið yrði 700 til 800 fyrir venjulegan fjölskyldubíl og þegar síðasta haftið var sprengt í fyrrahaust var talað um að gjaldið yrði nálægt 800 krónum. Eftir á að hyggja hefði verið nákvæmara að taka alltaf fram að hér væri verið að tala um meðalverð fyrir venjulegan fjölskyldubíl og að á veggjaldið legðist 14% virðisaukaskattur í ríkissjóð.

Veggjaldið var auðvitað ekki ákveðið út í bláinn, heldur voru lánsloforð lánveitenda bundin því að hver ferð bíls um göngin skilaði að meðaltali 865 krónum á verðlagi dagsins í dag. Þannig myndu tekjur af umferðinni greiða lán vegna sjálfrar gangagerðarinnar á tilteknu árabili og rekstur ganganna að auki. Gjaldskráin varð um leið að vera þannig uppbyggð að vegfarendur sem oft færu um göngin fengju að njóta hagstæðari kjara en þeir sem sjaldan væru þar á ferð. Og veggjaldið varð að vera samkeppnisfært við akstur fyrir fjörðinn og ekki mátti það ofbjóða gjaldþoli alls almennings. Gjaldskráin, sem birt var í vor uppfyllir þessi skilyrði samkvæmt margvíslegum könnunum hér heima og reynslu erlendis frá. Þeir sem fara oft á fjölskyldubílnum um göngin geta fengið hverja ferð á 600 til 800 krónur í áskrift en þeir sem sjaldan fara greiða 1.000 krónur. Til fróðleiks má nefna til samanburðar að stakt gjald fyrir heimilisbíl í nýlegum neðansjávargöngum við Stavangur í Noregi er jafnvirði 750 króna og til viðbótar þarf að greiða 235 krónur fyrir hvern fullorðinn farþega og 110 krónur fyrir hvert barn í bílnum. Og blaðamanni Dags yrði þá fyrst öllum lokið ef fyrir honum ætti að liggja á næstunni að aka yfir nýju Stórabeltisbrúna í Danmörku. Þar er gjald fyrir staka ferð einkabíls jafnvirði tæplega 2.200 króna. Ef kerra eða hjólhýsi hangir aftan í bílnum fer veggjaldið hátt í 3.300 krónur! Gjald fyrir jeppakerruna eina á þessari ágætu dönsku brú er þannig nokkru hærra en sem nemur stöku veggjaldi fyrir fjölskyldubíl í Hvalfjarðargöngum og hér heima verður ekkert rukkað sérstaklega fyrir jeppakerrur og hjólhýsi.

Spalarmenn hafa síður en svo farið dult með að veggjald í göngunum er hærra en kostnaður við að aka minnstu fólksbílunum fyrir Hvalfjörð. Þegar komið er upp í flokka meðalstórra og stærstu einkabíla gegnir öðru máli. Ég á til dæmis sjálfur Subaru Legacy og hef mælt bensíneyðsluna í ferðum fyrir Hvalfjörð, bæði til Borgarness og Akraness. Niðurstaðan í þeim könnunum leiðir í ljós að það kostar mig sáralítið eða hreint ekki neitt að aka um göngin, jafnvel þótt miðað sé við þúsundkallinn (en auðvitað gerist ég áskrifandi, fæ hverja ferð á 600 krónur og spara fjármuni!). Bensínkostnaðurinn vegna ferðar fyrir fjörð slagar upp í veggjaldið og gott betur en það þegar aksturskilyrði eru erfið og bílar drekka meira bensín en ella. Svo er ég mun fljótari í ferðum um göngin en fyrir fjörð og síðast en er ég á allan hátt mun öruggari í göngunum en á ferð fyrir fjörðinn. Undir Hvalfirði verður alltaf sumarblíða og flennifæri árið um kring. Verði þeim að góðu sem velja frekar sviptivinda og flughálku ofanjarðar að vetrarlagi.

Vegfarendur munu vega og meta kostina sem bjóðast. Ég spái því að þorri þeirra sem leið eiga um Hvalfjörð muni velja göngin. Líka þeir sem taka stórt upp í sig um veggjaldið nú um stundir og þykjast ætla að leggja fjarðarlykkju á leið sína eftir að langþráð göngin verða opnuð.

Eftir Atla Rúnar Halldórsson.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009