Hvalfjarðargöng opnuð með viðhöfn

Hvalfjarðargöngin verða tekin í notkun næstkomandi laugardag, átta mánuðum fyrr en upphaflega var gert ráð fyrir. Samkomur verða af því tilefni við báða gangamunna og efnt til Hvalfjarðargangahlaups áður en göngin verða opnuð fyrir almennri umferð. Sjá meðfylgjandi dagskrá.

Gjaldlaust til 20. júlí nk.
Stjórn Spalar ehf. hefur ákveðið að bjóða landsmönnum að kynnast Hvalfjarðargöngum með því að aka endurgjaldslaust undir fjörðinn í átta daga eftir að göngin verða opnuð almenningi á laugardagskvöldið kemur. Ekki verður byrjað að innheimta veggjald fyrr en kl. 07:00 að morgni mánudags 20. júlí.

Rætt hafði verið um að hefja gjaldheimtuna fyrr en að athuguðu máli þótti stjórn Spalar rétt að lengja gjaldlausa tímabilið og stuðla á þann hátt að því að sem flestir kynntust ágæti Hvalfjarðarganga af eigin raun. Um leið mælist Spölur eindregið til þess að þeir sem ekki eiga beinlínis erindi undir Hvalfjörð, en gjarnan vilja skoða og prófa göngin, hugsi sér ekki til hreyfings strax núna um helgina!

Stefnt er að því að byrja um miðja næstu viku að selja áskrifendum ferðir með afsláttarkjörum og afhenda veglykla. Hægt verður að ganga frá áskriftarsamningum og fá veglykla í þjónustustöðvum olíufélaganna á Ártúnshöfða í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarnesi. Forráðamenn Spalar ehf. áformuðu upphaflega að byrja að selja ferðir í áskrift í byrjun þessa mánaðar en það tókst ekki vegna tafa á afhendingu veglyklanna.

Viðbúnaður lögreglu

Lögreglan í Reykjavík og í Borgarnesi hefur mikinn viðbúnað um helgina og næstu daga við Hvalfjarðargöng og í göngunum sjálfum. Á laugardaginn kemur verða einnig menn úr björgunarsveitum á Akranesi og í Mosfellsbæ til aðstoðar gestum og vegfarendum við göngin. þjónustubíll frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda verður og á svæðinu ef á þarf að halda.

Ef hringtorg við norðurmunna ganganna annar ekki umferð, vegna þess að ökumenn að sunnan ætla strax sömu leið til baka um torgið, er hugsanlegt að lögregla grípi til þess ráðs að setja einstefnu á veginn kringum Akrafjall. Sú ráðstöfun er hugsuð til að koma í veg fyrir að hnútar myndist fyrir norðan fjörð. Þá yrði hringakstur á torginu við gjaldhliðið bannaður tímabundið en sett einstefna á þjóðveg nr. 1 frá göngum norður fyrir Akrafjall að Akranesgatnamótum og svo einstefna á veginn frá Akranesi að norðurmunna.

Lögregla mun fylgjast sérstaklega vel með því að reglur um 70 km hámarkshraða verði virtar í göngunum. Hún hvetur ökumenn til að aka gætilega undir fjörðinn og hafa ætíð gott bil á milli bíla.

Hátíðardagskrá í Hvalfirði laugardaginn 11. júlí 1998

Kl. 14:00 við suðurmunna Hvalfjarðarganga:
Lúðrasveit Akraness leikur frá kl. 13:40.
Páll Sigurjónsson, stjórnarformaður Fossvirkis sf.,
og Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar ehf., flytja ávörp.
Davíð Oddsson, forsætisráðherra, flytur ávarp og opnar Hvalfjarðargöng.
Lúðrasveit Akraness leikur.
Langferðabílar aka með boðsgesti í gegnum göngin.

Kl. 14:45 við norðurmunna Hvalfjarðarganga:
Karlakór Reykjavíkur syngur.
Anton Ottesen, oddviti Innri-Akraneshrepps, býður gesti velkomna norður fyrir.
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra, flytur ávarp.
Halldór Blöndal, samgönguráðherra, flytur ávarp.
Karlakór Reykjavíkur syngur.

Kl. 16:00 hefst Hvalfjarðargangahlaup:
Fyrsta og eina hlaupið undir Hvalfjörð er í umsjón Reykjavíkur- maraþons. þátttakendur fá einstakt tækifæri til að kynnast göngunum hlaupandi, gangandi, hjólandi eða á línuskautum. þeim er síðan boðið að synda í Jaðarsbakkalaug á Akranesi og njóta veitinga í Íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum.

Kl. 19:00 verða Hvalfjarðargöng opnuð fyrir almennri umferð.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009