Stundin nálgast - þjóðhátíð í Hvalfirði

Dagskrá hátíðarhalda í Hvalfirði laugardaginn 11. júlí hefur tekið á sig endanlega mynd. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, opnar göngin formlega með því að klippa á hefðbundinn borða í munnanum sunnan megin, Páll Sigurjónsson, stjórnarformaður Fossvirkis og Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, ávarpa gesti þar á vettvangi og Lúðrasveit Akraness leikur.

Síðan verður ekið með heiðursgesti samkomunnar í gegnum göngin, aðallega í fólksflutningabílum, og gera má ráð fyrir að boðsgestir verði alls á fimmta hundrað. Norðan megin syngur Karlakór Reykjavíkur og Anton Ottesen, oddviti í Innri-Akraneshreppi og Halldór Blöndal, samgönguráðherra, flytja ávörp.
Að athöfn lokinni er heiðursgestum boðið í hóf um borð í Akraborginni í Akraneshöfn.

Hvalfjarðargangahlaup á vegum Reykjavíkurmaraþons hefst við suðurmunna kl. 16 og verður hlaupið norður göngin.
Hvalfjarðargöng verða svo opnuð fyrir almennri umferð kl. 19:00 að kvöldi 11. júlí og þá má búast við að mikilli umferð frá fyrstu stundu.

Fulltrúar Fossvirkis og Spalar áttu í dag, 3. júlí, fund um löggæslu og umferðareftirlit í og við Hvalfjarðargöng með fulltrúum lögreglu og björgunarsveita sem að því koma um opnunarhelgina og síðar. Lögreglan verður með mikinn viðbúnað á svæðinu 11. júlí og næstu daga, enda er búist við því að margir hugsi sér gott til glóðarinnar að kynnast þessu mikla umferðarmannvirki af eigin raun strax og færi gefst - ekki síst þegar haft er í huga að veggjald verður ekki innheimt til að byrja með. Menn úr björgunarsveitum á Akranesi og í Mosfellsbæ aðstoða við gæslu á svæðinu beggja vegna fjarðar á opnunardaginn þar til Hvalfjarðargangahlaupið er afstaðið. Gert er ráð fyrir að allir sem taka þátt í hlaupinu undir Hvalfjörð hafi skilað sér upp úr göngunum kl. 17:30 til að færi gefist til að undirbúa opnun fyrir almenna umferð.

Fram kom á fundinum með lögreglu að hugsanlegt er að sett verði einstefna til norðurs á þjóðveginn frá Hvalfjarðargöngum að norðan upp að núverandi Akranesgatnamótum og að einstefna verði á leiðinni frá Akranesi að göngunum til að koma í veg fyrir umferðarteppu við nýja hringtorgið nálægt norðurmunna.

Lögreglan hvetur vegfarendur að öðru leyti til að halda góðu bili á milli bíla í göngunum og ætlar að fylgja því eftir að 70 km hámarkshraði þar verði virtur.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009