FÍB fagnar en gagnrýnir

Félag íslenskra bifreiðaeigenda fagnar Hvalfjarðargöngum sem merkum tímamótum í íslenskri samgöngusögu en gagnrýnir gjaldskrána. Í blaði FÍB, Ökuþór, 2. tbl. 1998, kemur fram að samtökunum þykir gjald fyrir fjölskyldubíl of hátt og gjaldflokkar of fáir.

Fjallað sérstaklega um útreikninga sem Spölur birti um kostnað bifreiðaeigenda vegna aksturs fyrir Hvalfjörð. FÍB segist ekki gera athugasemdir við forsendur þeirra útreikninga (enda eru þær í veigamiklum atriðum þær sömu og FÍB notar í sínum útreikningum á aksturskostnaði!). Hins vegar heldur FÍB því fram að kostnaður sé að nokkru ofmetinn í útreikningum Spalar og "áréttar einnig, að öll talnadæmi um þetta álitamál eru aðeins dæmi, ekki er rétt að alhæfa út frá þeim."
Ökuþór hefur eftir Stefáni Reyni Kristinssyni, framkvæmdastjóra Spalar, að rétt sé að eigenendur minnstu bílanna hagnist ekki á að aka um göngin, þar skakki allt að 350 krónum í hverri ferð. Á móti megi mega tímasparnað við að fara undir fjörðinn. Stefán segir að skipting í gjaldflokka sé að norskri fyrirmynd (og reyndar má bæta því hér við að mjög lík skipting er notuð á nýju brúnni yfir Stórabelti í Danmörku). Stefán segir ennfremur að gjaldskráin verði endurskoðuð í ljósi reynslunnar og það verði að gera í samráði við fjárfesta sem fjármagna framkvæmdina. Gert sé ráð fyrir að 66% af bílum, sem hag hafa af því að fara um göngin muni nýta þau.

Eftirmáli I

FÍB vitnar í upplýsingar sem fram koma hér á heimasíðu Hvalfjarðarganga og birtir veffangið okkar. Kærar þakkir fyrir það. Hins vegar rangfeðrar Ökuþór heimasíðuna, sem hægt er að sanna með einfaldri blóðprufu. Það er kynningarfyrirtækið Athygli sem átti frumkvæði að því að búa til heimasíðu fyrir Hvalfjarðargöng og tileinkaði síðuna mannvirkinu sjálfu. Athygli hefur síðan séð um heimasíðuna og ber ábyrgð á því sem þar er sagt og gert. Þrenningin Atli Rúnar Halldórsson, G. Valdimar Valdimarsson, kerfisfræðingur, og Guðmundur Rúnar Lúðvíksson, myndlistarmaður, hönnuðu á sínum tíma þessa heimasíðu og komu henni á Vefinn. Nokkur fyrirtæki keyptu birtingu á firmamerkjunum sínum á Vefnum, þar á meðal Spölur og Vegagerðin - sem eru þátttakendur í framkvæmdunum sjálfum í Hvalfirði. Þannig fengu aðstandendur aura upp í stofn- og rekstrarkostnað. Mest hefur þetta samt bara verið hrein og klár sjálfboðavinna ARH og GVV í seinni tíð, utan vinnutíma og drifin áfram af áhuga fyrir málefninu. Spölur ákvað svo í vetur að taka þátt í að halda heimasíðunni úti fram á sumar og þess vegna erum við enn að - á milli leikja heimsmeistarakeppninni!

Eftirmáli II

Ökuþór birtir í blaðinu sínu þrjár teikningar úr bæklingi sem Athygli sá á sínum tíma um að búa til og gefa út um Hvalfjarðargöngin, á vegum Spalar, Fossvirkis og Vegagerðarinnar. þar á meðal er teikning eftir myndlistarmann sem sérstaklega var gerð fyrir bæklinginn - sem og langsnið af göngunum sjálfum. Venjan er sú í tilvikum sem þessum að láta þess getið hvaðan teikningar/myndir eru teknar. Það er bæði kurteisi og varðar höfundarrétt að auki. Enn betra hefði nú verið að hafa samband við Athygli og fá leyfi fyrir birtingunni, einsog gerst hefur áður með aðra notendur þessa sama bæklings og annars útgáfuefni frá fyrirtækinu. FÍB gerði hvorugt. Bara svo það sé nú á hreinu.

Eftirmáli III
Árni Sigfússon, formaður FÍB, boðar í títtnefndum Ökuþór að FÍB muni gera sérstakt átak í umferðaröryggismálum og slysavörnum til að fækka alvarlegum slysum svo sem kostur er. "FÍB mun ekki bíða eftir öðrum, heldur leita til félagsmanna sinna og kveðja þá til baráttunnar gegn slysunum," segir Árni orðrétt.
Þetta er auðvitað lofsverð viðleitni og hið besta mál. Heimasíða Hvalfjarðarganga tekur FÍB á orðinu og bendir þeim ágætu samtökum á að byrja herferðina sína með því að hvetja alla vegfarendur á leið um Hvalfjörð að aka um göngin. Hvalfjarðargöng eru nefnilega einn stærsti áfangi í öryggismálum umferðar hér á landi í háa herrans tíð. Vegagerðin tekur saman upplýsingar um slys í umferð og skráir nákvæmlega á Íslandskortið.
Þar sést glögglega að slysatíðni á tilteknum köflum vegarins fyrir Hvalfjörð eru með því hæsta sem þekkist á íslenskum þjóðvegum og sú mynd er næsta hrollvekjandi. Þetta ætti FÍB að hafa í huga í málflutningi sínum um Hvalfjarðargöng. Það er lítið mál að borga veggjald í göngunum þegar vindar gnauða í Hvalfirði að sumri sem vetri og glæruhálka er um alla vegi að auki. Þá er gott að geta skotist undir fjörðinni í sumarfæri og blíðu og komast heill heilsu með heilan bíl á áfangastað. FÍB ætti að setja öryggi Hvalfjarðarganga á oddinn!

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009