Veggjald á Stórabeltisbrúnni tvöfalt til þrefalt hærra en í Hvalfirði

Fróðlegt er í ljósi umræðunnar um veggjald í Hvalfjarðargöngum að skyggnast til nágrannalanda og sjá hvaða veggjöld bíleigendur þar greiða fyrir að nýta nýleg samgöngumannvirki, til dæmis brýr og göng. Stórabeltisbrúin mikla var tekin í notkun í Danmörku á dögunum.

Þar er einn gjaldflokkur fyrir heimilisbíl undir 6 metrum að lengd (nákvæmlega eins og í Hvalfjarðargöngum). Stakt gjald fyrir að fara um brúna er 210 Dkr. með vsk. (jafnvirði tæplega 2.200 íslenskra króna - en til samanburðar er stakt gjald í Hvalfjarðargöngum 1.000 krónur). Ekkert kostar aukalega að hafa hjólhýsi, hestvagn eða kerru aftan í fjölskyldubíl undir Hvalfjörð en á Stórabeltisbrúnni bætast við 105 Dkr. fyrir að hafa hjólhýsi/kerru aftan í fjölskyldubílnum. Þá er heildargjaldið komið upp í tæplega 3.300 krónur en er áfram þúsundkall í Hvalfirði. Hér heima geta menn keypt 20 eða 40 ferðir í áskrift, greitt þær fyrirfram og fengið þannig hverja ferð á 600 eða 800 krónur, allt eftir því hvorn áskriftarkosturinn er valinn. Áskriftarferðirnar hér má nota ótímabundið, þ.e. svo lengi sem þær endast sama hve langan tíma það tekur. Á Stórabeltisbrúnni er aðeins einn afsláttarkostur í boði. Þar er mönnum boðið að kaupa mánaðarkort með allt að 50 ferðum yfir brúna og borga fyrir það tæplega 47.000 ísl. krónur. Með þessu móti fæst hver ferð fyrir um 940 krónur (aðeins ódýrara en stök ferð í Hvalfjarðargöngum!) en áskrifandinn ytra verður þá að nýta allar ferðirnar á einum mánuði!

Á Stórabeltisbrúnni eru sérgjöld fyrir stóra fólksflutningabíla, þar sem greitt er gjald fyrir hvern farþega (330 krónur fyrir fullorðinn, 170 kr. fyrir barn). Í Hvalfjarðargöngum er greitt fyrir hvern bíl en ekkert tillit tekið til fjarþegafjölda.

Á Stórabeltisbrúnni er vöruflutningabílum skipt í flokka við 10 metra lengdarmarkið en við 12 metrana í Hvalfjarðargöngum. Gjaldið fyrir minnsti vörubílaflokkinn í Danmörku er 4.368 krónur ÁN VSK. en sambærileg tala í Hvalfjarðargöngum er 2.632 krónur (stakt gjald). Stakt gjald fyrir stærri vörubíla á Stórabeltisbrú er tæplega 7.000 krónur en 3.333 í Hvalfirði. Gerist eigendur flutningabíla í Danmörku áskrifendur fá þeir 10% afslátt en sambærilegur afsláttur í Hvalfjarðargöngum er 15-25%.

Auðvitað er ekki hægt að bera fyrirvaralaust saman brú yfir Stórabelti og göng undir Hvalfjörð en engu að síður er fróðlegt að þeir sem sjá um rekstur brúarinnar ytra telja að hægt sé að bjóða vegfarendum að greiða meira en þreföld Hvalfjarðargjöld. Reiknað er að með veggjöld á Stórabeltisbrúnni greiði niður stofnkostnaðinn á 40 árum en í samningum um Hvalfjarðargöng er gengið út frá því að stofnkostnaðurinn verði greiddur niður á 20 árum.

Í nýlegum neðansjávargöngum við Stafangur í Noregi er gjaldskráin byggð upp mjög líkt og í Hvalfjarðargöngum. Einn stærðarflokkur fjölskyldubíla (innan við 6 metrar á lengd), svo eru næstu stærðarskil við 12 metra lengd flutningabíla, eins og í Hvalfirði. Stakt gjald fyrir fjölskyldubílinn í göngunum er 750 ísl. krónur og svo þarf að borga til viðbótar fyrir hvern farþega (235 krónur) og fyrir hvert barn á aldrinum 4-16 ára (113 krónur). Hægt er að fá allt að 40% afslátt með því að gerast áskrifandi, nákvæmlega eins og í Hvalfirði.

Stök gjöld fyrir flutningabíla í þessum norsku göngum eru 2.538 krónur (innan við 12 metra að lengd) og 4.230 krónur fyrir stærri flutningabíla. Þarna er gjald fyrir minni flutningabíl heldur lægra en í Hvalfirði en gjald fyrir stóru bílana mun hærra en hér.

Þessar tölur um veggjöld í Noregi og Danmörku eru birtar til fróðleiks þeim sem taka andköf yfir gjöldunum í Hvalfirði. Í ljós kemur að samanburðurinn er Hvalfjarðargöngunum tvímælalaust í hag þegar litið er á heildarmyndina.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009