Hagkvæmara að aka undir fjörð en fyrir fjörð

Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi og stjórnarformaður Spalar, skrifaði greinar í Morgunblaðið og Skessuhorn í maí 1998 í tilefni umræðunnar um veggjald í Hvalfjarðargöngum. Hvalfjarðarsíðunni þykir rétt að birta þær báðar, fyrst er sú sem birtist í Morgunblaðinu:Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi og stjórnarformaður Spalar, skrifaði greinar í Morgunblaðið og Skessuhorn í maí 1998 í tilefni umræðunnar um veggjald í Hvalfjarðargöngum. Hvalfjarðarsíðunni þykir rétt að birta þær báðar, fyrst er sú sem birtist í Morgunblaðinu:

Hagkvæmara að aka undir fjörð en fyrir fjörð
Veggjald sem notendur Hvalfjarðarganga koma til með að greiða er í flestum tilvikum lægra en svarar til kostnaðar við að aka fyrir fjörðinn. Þessi fullyrðing er byggð á umfangsmikilli könnun á rekstrarkostnaði ökutækja og aksturstengdum kostnaði sem fyrirtækin Rekstrarstofan og Rekstrarstoð ehf. unnu að í vetur fyrir Spöl ehf. Könnunin sýnir að það er afar hagstætt fyrir flesta vegfarendur að aka um göngin þótt eingöngu sé horft á kostnaðarhliðina. Við bætist svo að menn eru fljótari í ferðum um göngin en fyrir fjörð og njóta að jafnaði meira öryggis þar en á veginum fyrir fjörðinn, einkum að vetrarlagi. Mikilvægt er að minna á að akstursleiðin um Hvalfjörð styttist um 42 til 60 kílómetra eftir því hver áfangastaður vegfarenda er.

Í aksturskostnaðarkönnuninni var í veigamiklum þáttum stuðst við viðmiðunartölur Félags íslenskra bifreiðaeigenda um bifreiðakostnað. Gögn með ítarlegum upplýsingum um allar forsendur og niðurstöður voru afhentar fréttamönnum um leið og gjaldskrá Hvalfjarðarganga var kynnt opinberlega 27. apríl sl. Þar kemur skýrt fram að vegfarendur spara fjármuni með því að nota göngin, ef undan eru skildir þeir sem aka í minnstu fólksbílunum. Í flestum stærðarflokkum bifreiða spara menn þótt miðað sé við gjald fyrir staka ferð (1.000 krónur fyrir heimilisbíl og sendibíl) en sparnaðurinn verður að sjálfsögðu enn meiri við það að gerast áskrifendur, fá veglykil í bílinn og kaupa 20 eða 40 ferðir í einu með 20 eða 40% afslætti.

Stjórn Spalar ehf. er bundin samningum við lánveitendur til Hvalfjarðarganga við ákvörðun gjaldskrár fyrir notkun mannvirkisins. Í umræðu um nýbirta gjaldskrá er nokkuð áberandi að eingöngu sé talað um gjald fyrir stakar ferðir en horft fram hjá afsláttarkjörum áskrifenda. Slíkt er hvorki rétt né sanngjarnt.

Það hefur líka verið fullyrt að veggjaldið sé hærra en menn hafi geta búist við eftir umræðu undanfarinna ára. Því er til að svara að veggjaldið er í góðu samræmi við það sem sagt hefur verið um málið af hálfu Spalar. Í bæklingi um göngin sem gefinn var út snemmsumars 1996 er t.d. talað um að áætlað gjald fyrir venjulegan heimilisbíl verði 700-800 krónur en 2.600 til 2.700 krónur fyrir flutningabíl.

Í fjármögnunarsamningum ganganna var á sínum tíma miðað við að gjald fyrir venjulegan heimilisbíl væri 700 krónur, auk virðisaukaskatts, á verðlagi ársins 1994. Í nýjustu rekstrarspá fyrir göngin er stuðst við reynslu Norðmanna og gert ráð fyrir að níu bílar af hverjum tíu bílum sem um Hvalfjarðargöng fara séu í I. gjaldflokki og greiði þar af leiðandi lægsta veggjald. Ennfremur er gert ráð fyrir að greitt sé fullt veggjald fyrir helming þessara bíla, hinn helmingurinn sé á afsláttarkjörum. Niðurstaðan er þá sú að meðalgjald fyrir alla notendur ganganna í I. gjaldflokki er 760 krónur (704 krónur á verðlagi 1994, sem er nánast sama tala og miðað var við í samningum við lánveitendur forðum).

Meðalgjald fyrir öll ökutæki í öllum gjaldflokkum rekstrarspánni er tæplega 930 krónur (860 krónur á verðlagi ársins 1994, sem er fjórum krónum hærra en gert var ráð fyrir í samningi við lánveitendur). Ríkið leggur síðan 14% virðisaukaskatt á gjöldin í öllum tilvikum.

Stjórn Spalar lagði mikla vinnu í undirbúning gjaldskrár Hvalfjarðarganga, ekki síst í útreikninga á aksturskostnaði sem fyrr er getið. Gjaldskránna má hafa með ýmsum hætti hvað varðar fast gjald og afslætti, en verkefni stjórnarinnar var að stilla gjaldinu þannig upp að ákvæði samninga við lánveitendur væru haldin og að hagkvæmt yrði fyrir notendur ganganna að fara undir fjörðinn í stað þess að aka leiðina fyrir fjörðinn. Gjaldskráin getur ekki byggst á óskhyggju og þegar niðurstaðan er skoðuð þá teljum við að hún sé á þeim grunni sem áður hefur verið kynnt og treystum því að hún höfði til vegfarenda.

Þá má nefna að metin var reynsla af hliðstæðum verkefnum erlendis, einkum í Noregi. Norðmenn lentu til dæmis í því að hafa gjaldskrár í nýlegum jarðgöngum of flóknar og ráðlögðu okkur því eindregið að nota skýra og einfalda gjaldskrá. Ákveðið var að fara að þessum ráðum og bjóðum við brátt landsmenn velkomna í göng undir Hvalfjörð sem stytta leið, flýta för, spara fjármuni og auka öryggi í umferð.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009