Hvalfjarðargöng - bylting í samgöngum / Skessuhornsgrein

Grein úr Skessuhorninu:

Allt frá því að farið var af stað með hugmyndir um vegtengingu undir Hvalfjörðinn hafa menn haft eitt og annað við ákvarðanir þar að lútandi að athuga og menn verið misjafnlega bjartsýnir eða svartsýnir á fyrirtækið. Vitanlega er ekki við öðru að búast þegar um svo mikla framkvæmd er að ræða, en óneitanlega hefur umræðan stundum verið meira af kappi en forsjá. Nú er mikið fjallað um gjaldskrá Spalar og hafa komið fram ýmis sjónarmið sem eru góðra gjalda verð, en sum byggð á nokkrum misskilningi. Hér á eftir verður reynt að koma nokkrum atriðum á framfæri, sem ættu að upplýsa þá sem vilja kynna sér málið.

Gjaldskráin í samræmi við það sem áður hefur verið kynnt.
Þegar samningar náðust við fjárfesta og verktaka var bundið í þeim samningum að gjaldtaka Spalar ehf. yrði að skila ákveðnum tekjum á ári miðað við endurgreiðslutíma þeirra lána, sem gengið verður frá þegar göngin verða formlega afhent fyrirtækinu. Þar var gert ráð fyrir viðmiðunum, sem verður ekki vikið frá. Á verðlagi ársins 1994 var gert ráð fyrir að gjald fyrir fólksbíla yrði 7-800 krónur. Á verðlagi í dag er hærri talan um 860 krónur og minna verður á að 14% virðisaukaskattur er innifalinn. Sú gjaldskrá sem sett er fram gerir ráð fyrir að tekjur Spalar ehf. verði sem vegið meðaltal af þessum gjaldflokki 866 krónur með virðisaukaskatti. Þannig er gjald fyrir fólksbíla í samræmi við það sem fram var sett fyrir um tveimur árum.

Nauðsynlegt að þeir, sem fara oftar um göngin en aðrir fái afslátt.
Þegar fjallað er um mismunandi gjald fyrir fólksbíla verður að svara þeirri spurningu hvort sanngjarnt sé að allir borgi sama gjald eða hvort eðlilegt sé að þeir sem noti göngin oftar en aðrir njóti afsláttar. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þeir sem eiga oftar erindi um Hvalfjör eigi að njóta þess í afslætti og þess vegna er þeim boðin hver ferð á 600 eða 800 krónur. Með því að greiða þetta gjald er augljós hagnaður fyrir vegfarendur að nota göngin auk þess sem tímasparnaður er verulegur og ferðamátinn öruggari. Vangaveltur um enn lægra gjald nú í upphafi fá ekki staðist - því miður.

Veglykillinn er til hagræðis fyrir vegfarendur.
Varðandi veglykilinn sem notendur eiga kost á að fá gegn 2.000 króna skilagjaldi er nauðsynlegt að taka fram að fjölskyldur og fyrirtæki sem vilja fá veglykil á fleiri en einn bíl geta slíkt og notað einn reikning gagnvart Speli ehf. Gagnrýnt hefur verið að ekki skuli vera hægt að flytja veglykla milli bíla, en slíkt er með þessu óþarft. Rökin fyrir því að veglykillinn er festur við framrúðu bíls eru að veglyklar sem keyptir eru fyrir fólksbíla verði ekki notaðir á bíla sem eru í hærri gjaldflokki - svo einfalt er það. Veglykillinn á að skila notendum lægra gjaldi með kaupum á afsláttarfargjöldum og flýta för þeirra sem koma að gangamunnanum við Kirkjuból.

Þá er rétt að taka fram varðandi fólksbílana að ekki skiptir máli þótt fólksbíll dragi kerru eða hjólhýsi, gjaldtakan verður óbreytt. Vitanlega er það markmið Spalar ehf. að fá sem flesta til að aka um gögnin og m.a. þess vegna hefur þess verið getið að þeir sem kaupa afsláttarferðir geti greitt fyrir þær með kreditkorti og dreift greiðslum og vitanlega eru Spalarmenn tilbúnir að svara öllum fyrirspurnum varðandi útfærslu gjaldskrárinnar, þau atriði sem þarfnast utskýringar og þá möguleika sem gjaldskráin gefur.

Staðið við áætlanir um gjaldskrá og endurgreiðslutíma lána.
Ég hnaut um það orðalag í umfjöllun í Skessuhorninu um gjaldskránna að hjá einhverjum hafði það vakið furðu að fulltrúar sveitarfélaga af svæðinu hefðu átt þátt í að afgreiða gjaldskrá Spalar. Mín skoðun er sú að fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem frá upphafi hafa stutt dyggilega við framgang Hvalfjarðarganga geti verið stoltir af því að göngin verða nú í júlí tekin í notkun. Ef hlustað hefði verið í upphafi á ýlfur úrtöluradda þá væri staðan vafalaust önnur. Um gjaldskrá Spalar gildir það sama og annað í því verki. Áætlanir og samningar verða að standa. þegar gjald fyrir að aka í gegnum Hvalfjarðargöng er metið verður að hafa í huga að göngin eru mikið mannvirki sem kostar um 4.6 milljarða króna. Gjaldtakan getur því ekki byggst á óskhyggju og þó svo að fulltrúar sveitarfélaga af svæðinu norðan Hvalfjarðar sitji í stjórn Spalar ehf. þá verður þeim sannindum ekki breytt.

Er nú vilji til að ríkið komi inn í fjármögnun Hvalfjarðarganga?
Vilji menn breyta þeim forsendum sem gengið hefur verið út frá á liðnum árum t.d. með að lengja endurgreiðslutíma lána eða létta hluta lánanna af Speli þá er augljóst að ríkið verður að koma þar að málum. Það er verðugt verkefni - en myndi væntanlega kalla á gagnrýni ef slíkt hefði áhrif á aðrar framkvæmdir í vegamálum á Vesturlandi eða kallaði á ríkisábyrgðir lána. Að minnsta kosti höfðu margir af því áhyggjur hér áður fyrr að Hvalfjarðargöng myndu draga úr vegaframkvæmdum á Vesturlandi eða verða vandræðabarn ríkisins þegar allt um þryti. Nú þegar stutt er í að göngin verða opnuð er þó vonandi að sátt verði um rekstur þeirra og að þau muni hafa þau jákvæðu áhrif fyrir Vesturland sem að var stefnt í upphafi.

Gísli Gíslason,
bæjarstjóri á Akranesi og
formaður stjórnar Spalar ehf.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009