Göngin bæta samkeppnisstöðu landflutninga

Hvalfjarðargöng munu bæta samkeppnisstöðu landflutninga, hafa jákvæð áhrif á þróun flutningaþjónustu innanlands og vera stórt skref í þá átt að gera landflutninga enn hagkvæmari í samkeppni við sjóflutninga.

Þetta kom fram í máli Jóns Pálssonar, framkvæmdastjóra Ármannsfells og fyrrverandi þróunarstjóra Samskipa, á ráðstefnu Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi um áhrif Hvalfjarðarganga á búsetu og mannlíf. Viðskiptablaðið greinir frá þessu áhugaverða erindi Jóns í 14. tbl. 1998 og segir m.a.:

"Í dag getum við sagt að það sé nokkurn veginn jafn hagkvæmt að flytja vörur landleiðina og sjóleiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar. Með tilkomu Hvalfjarðarganga færist þessi hagkvæmni langleiðina til Húsavíkur.
Þá verður eingöngu hagkvæmara að nota sjóflutninga til að flytja vörur til svæða eins og Vestfjarða og Norðausturlands. Eins og allar aðrar samgöngubætur munu Hvalfjarðargöng fyrst og fremst verða enn eitt skref í þá átt að bæta samkeppnisstöðu landflutninga. Ekki má þó reikna með að það hafi bein fjárhagsleg áhrif á rekstur flutningabíla að fara undir Hvalfjörð í stað þess að fara fyrir hann. Menn losna þó við að greiða skatt til ríkisins fyrir að keyra 40 km fyrir fjörð.
Fyrirtækið sem rekur göngin mun væntanlega taka þann skatt í sinn vasa og taka gjald sem verður í samræmi við þann kostnað sem flutningsaðilar hafa af þessu í dag. Fyrst og fremst má búast við að áhrif ganganna verði jákvæð fyrir rekstur flutningaþjónustu vegna sparnaðar tíma sem nýst getur til annarra verka."

Kostnaður á einingu gæti lækkað um helming

"Ef litið er á rekstur landflutningatækja í dag, lúta þau sömu lögmálum og hver önnur atvinnutæki. Sá aðili sem rekur flutningabíl milli Reykjavíkur og Akureyrar þarf fyrst og fremst að nýta tækið eins mikið og hann getur á sem stystum tíma. Að sjálfsögðu ekki bara til þess að keyra það, heldur keyra það sem mest fullt af varningi.
Kostnaður við flutning á hverri einingu getur hæglega lækkað um helming með því að auka nýtinguna úr 50% í 90% og/eða við að aka fleiri kílómetra á ári. þetta gerir flutningsaðilum kleift að reka þessi flutningatæki á hagkvæmari hátt og gera þau samkeppnishæf við sjóflutninga.
Við þessa samgöngubót um Hvalfjörð má gera ráð fyrir að vegalengdin milli Reykjavíkur og Akureyrar styttist um u.þ.b. 10%. Ef ákveðinn bíll væri eingöngu nýttur á leiðinni Reykjavík-Akureyri og ekkert annað, myndi bíllinn bara keyra minna á ári og reksturinn í sjálfu sér ekki verða hagkvæmari, þar sem Spölur fengi ávinninginn af aksturssparnaðinum fyrir Hvalfjörð. Að vísu myndu flutningar verða 10% hraðari á leiðinni, sem væri gott fyrir viðskiptavininn.
Tækifæri flutningsaðila liggur í því að nýta flutningstækið um þessi 10% í viðbót. Það mætti ímynda sér að hægt væri að skreppa eina ferð Borgarnes-Akranes til viðbótar við ferðina Reykjavík-Akureyri, án þess að það kostaði meira. Þannig myndi hagkvæmni aukast og flutningskostnaður lækka. Þetta horfir hins vegar allt öðru vísi við á þjónustusvæðinu Reykjavík-Vesturland. Þar mun verða stórbylting í flutningaþjónustu, þar sem allt að helmingur vegalengdarinnar mun sparast. Gera má ráð fyrir verulegum ávinningi fyrir þá sem þurfa að flytja vöru milli þessara staða. Samkeppnisstaða iðnaðar á þessum svæðum mun batna til muna."

Sjóflutningar verða óhagkvæmari en áður

"Niðurstaðan er ótvírætt sú að Hvalfjarðargöng muni hafa jákvæð áhrif á þróun flutningaþjónustu innanlands og vera stórt skref í þá átt að gera landflutningana enn hagkvæmari í samanburði við sjóflutninga. Það mun koma að því að talið verður óhagkvæmt með öllu að reka sjóflutninga innanlands, nema sem hluta af millilandasiglingum. Hvalfjarðargöng munu flýta þeirri þróun með því að auka hagkvæmni landflutninga á stærstu flutningaleiðunum."

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009