Ó sú náð að eiga göngin

Morgunútvarpsstjórnendur vöruðu við fljúgandi hálku í öllum landshlutum. Í morgunfréttum Útvarps voru landsmenn beðnir um að aka gætilega vegna glæru á vegum.

Sama sagan blasti við á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar í Textavarpinu. Svona byrjaði dagurinn þegar tíðindamaður Heimasíðu Hvalfjarðarganga tygjaði sig til brottfarar úr Smáíbúðahverfinu í kynnis- og kurteisisheimsókn undir Hvalfjörð. Með hálfum huga var lagt af stað um áttaleytið en sem betur áttu varnaðarorðin úr útvarpstækinu ekki við leiðina að Saurbæ. Einu merkjanlegu hálkublettirnir voru í höfuðborginni sjálfri. Í Mosfellsbæ var kominn rigningarsuddi og eftir það fannst ekki ísingarvottur á veginum.

Björn Harðarson, glaðbeittur jarðfræðingur Spalar, var löngu mættur til starfa í búðum gangagerðarmanna við sunnanverðan Hvalfjörð og búinn brugga morgunkaffið til að hressa gesti úr höfuðstaðnum. Svo var gerð leikmannsúttekt á framkvæmdum.

Hópar manna voru við margvísleg störf á mörgum stöðum í göngunum. Fyrst komum við að einum slíkum sem hamaðist við að renna steypu í mót í suðurhluta ganganna. þarna var verið að steypa upp eina af fjórum spennistöðvum fyrir rafmagn. Mikil raforka verður notuð í Hvalfjarðargöngum og rafmagnið verður leitt inn í báða enda. Í suðurhlutanum var líka verið að undirbúa sjálfa akbrautina fyrir malbikun og vinna við lagnir af ýmsu tagi.

Verkið er lengra komið í norðurhluta ganganna.Búið er að malbika akbrautina niður undir botn og vaskir menn hömuðust við að setja klæða loft og veggi ganganna á tveimur stöðum samtímis. Miðja vegu milli botns og norðurmunna ganganna var verið að festa "dropavörn" á bergið: fóðringarmottur til að koma í veg fyrir að það sáralitla vatn, sem á annað borð lekur úr berginu, fari á sjálfa akbrautina. Eftir að motturnar eru komnar á sinn stað er sprautað á þær sex sentimetra þykku lagi af sementsblöndu. Nær nyðri munna var annar hópur að festa grindur á bergið og á grindurnar er síðan festur dúkur. þetta er líka lekavörn og þegar menn sjá með eigin augum hve bergið í Hvalfjarðargöngum er ótrúlega þurrt alla leiðina, þá vekur það eiginlega nokkra undrun að sjá hve stór hluti bergsins í göngunum er klæddur í varnarskyni. En hér er einfaldlega vandað til verka og öryggið vegfarenda verður í fyrirrúmi. Akbrautin verður þurr. Svo einfalt er nú það.

Björn Harðarson þekkir hina raunverulegu undirheima Íslands betur en flestir aðrir og tók til dæmis þátt í því að sprengja bæði Vestfjarðagöng og Ólafsfjarðargöngin, áður en bormenn tóku til hendinni í Hvalfirði. Hann segir að vatnsleki í öllum Hvalfjarðargöngum sé einungis um 5 lítrar á sekúndu. Til samanburðar leki um 150 lítrar af vatni í Ólafsfjarðargöngum á sekúndu og um 1.000 lítrar á sekúndu í Vestfjarðargöngum!

Áfram héldum við áfram ferðinni til norðurs og létum ekki staðar numið fyrr en við gjaldskýlin sem búið er að steypa upp norðan Hvalfjarðar. þar verða í framtíðinni vaktmenn á nóttu sem degi til að innheimta veggjald og fylgjast með umferð og öryggisbúnaði í göngunum.

Norðan Hvalfjarðar hafði hvesst og hitinn var kominn niður fyrir frostmarkið. Ísing á veginum og ekki beinlínis óskaveður til aksturs fyrir fjörðinn. Ósköp var þá ljúft að geta snúið við og farið sömu leið til baka í fylgd jarðfræðingsins glaðbeitta. þið trúið því ekki landmenn góðir hve mikið kikk það er að keyra á fáeinum mínútum á milli stranda í þessum annars ágæta firði og raula fyrir munni sér: Ó sú náð að eiga göngin.

ps. Enn er spurt hvenær göngin verði opnuð almenningi til umferðar. Svar: Það verður örugglega í júlí og trúlegast rennur stóra stundin upp þann 10. Við þann dag miðast a.m.k. niðurtalningin okkar á heimasíðunni!

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009