Dómsdagsvaðall rifjaður upp

Friðrik Hansen Guðmundsson, verkfræðingur, kvaddi sér hljóðs í þjóðmálaumræðunni á sínum tíma og réðst harkalega gegn fyrirhuguðum framkvæmdum við Hvalfjarðargöng.

Hann var hreint ekki sá eini sem fór mikinn á opinberum vettvangi gegn Hvalfjarðargöngunum í fyrra. Þegar nú göngin eru orðin að veruleika, hálfu ári á undan áætlun, er rík ástæða til að rifja upp sýnishorn af þessum málflutningi fyrir vinum og velunnurum Hvalfjarðarsíðunnar. Þetta eru bæði blaðagreinar og brot úr viðtölum í ljósvakamiðlum. Og rétt er að taka fram að ummæli í fréttum útvarps- og sjónvarpsstöðva eru skrifuð orðrétt.

Friðrik Hansen Guðmundsson í samtali við fréttamann Útvarps 1. febrúar 1996, eftir fund Verkfræðingafélagsins um Hvalfjarðargöng:

"Það liggur bara alveg fyrir eftir þennan fund að mínu mati að menn vita hreint og klárt ekkert hvað þeir eru að fara út í. Það verður ekki ljóst fyrr en menn fara að grafa og bora og sprengja þarna niðri. Þarna eru misgengissprungur, berggangar, þetta er allt saman vatnsleiðandi berglög sem þarna eru á ferðinni og ef menn lenda í þessum göngum þegar það er verið að sprengja niður á við, þar verða menn að vinna í vatni og sprengja í vatni með vatnið alltaf á sér og ef menn lenda í miklum lekavandamálum eins og í Vestfjarðagöngum, sem getur vel komið þarna upp, að þá sér maður fram á að menn gefist bara hreinlega upp."

Friðrik Hansen Guðmundsson í fréttum Stöðvar tvö 1. febrúar 1996:

"Það síðasta sem við þurfum á að halda sem stöndum í útflutningi á verkfræðiþekkingu er stórbrotið klúður á heimavelli og ef illa tekst upp í Hvalfjarðargöngunum þá mun það varpa skugga ótrúverðugleika yfir alla íslensku verkfræðistéttina."

Friðrik Hansen Guðmundsson í fréttum Sjónvarps 1. febrúar 1996:

"Ég er að benda á það að eftir þeirri reynslu sem menn hafa erlendis frá þá geta menn lent í hverju sem er þarna ofan í jarðgöngum. Menn eiga þar á hættu að lenda í miklum lekavandamálum eins og menn lentu í í Vestfjarðagöngum. Menn eiga þar á hættu að lenda í vandamálum vegna jarðskjálfta ef þarna á sér stað jarðskjálfti. Það er alveg óþekkt hvað gerist í slíkum göngum sem þessum í jarðskjálfta í þessu bergi sem við höfum hér. Við erum að horfa upp á möguleika á verulegum stórslysum ofan í þessum jarðgöngum ef að þarna á sér stað árekstur ofan í þessum djúpu jarðgöngum. Þarna getur átt sér stað bruni, þarna getur átt sér stað slys og bruni ofan í þessum jarðgöngum að þá geta menn lent þar í gríðarlegum slysum og eins og málin blasa við og standa við sérstakletga eftir þennan fund hér í dag þá hefur ekkert komið fram sem að annað en að styrkja mig í þeirri trú að þarna geta menn lent í stórbrotnu klúðri sem að bitnar síðan á okkur öllum sem búum í þessu landi."

Gunnlaugur Þórðarson, lögmaður, í Morgublaðsgrein 20. febrúar 1996:

"Gerð ganganna mun án efa kosta mannslíf."

"Mér er ekki kunnugt um neinn íslenskan verkfræðing, tæknifræðing né arkitekt, en þeir vera að standa ábyrgir fyrir gerðum sínum, sem fæst til að taka ábyrgð á eða jafnvel mæla með jarðgöngunum."

Gunnlaugur Þórðarson, lögmaður, í Morgunblaðsgrein 29. febrúar 1996:

"Í þessu máli, sem svo mörgum öðrum milli íslensku þjóðarinnar og norskra stjórnvalda, gildir gamla máltækið "frændur eru frændum verstir". Það er dapurlegt að hugsa til þess að það mun enn, á sinn hátt, rætast í jarðgöngunum undir Hvalfirði."

Magnús Sigurðsson skrifar í DV 23. febrúar 1996:

"Þeir sem ég hef heyrt ræða göngin telja þau beinlínis óðs manns æði og það skipti verulegu máli að þau verði ekki að veruleika."

Ágúst Sigurðsson skrifar í DV 29. febrúar 1996:

"Hér er rennt blint í sjóinn, í þeirra orða fyllstu merkingu, með gerð ganganna og þau eiga því miður eftir að verða stór og mikil martröð allrar þjóðarinnar á komandi árum. Mótmæli verða því að koma fram."

Jónas Kristjánsson í forystugrein í DV 27. febrúar 1996:

"Til marks um þýlyndi Íslendinga má hafa, að engin samtök grípa til varna gegn Hvalfjarðargöngum. Fólk tuðar gegn göngunum í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að göngin verði að einni helstu martröð þjóðarbúsins á næstu árum."

"Ef Íslendingar væru ekki þýlyndari en aðrar þjóðir, létu þeir ekki rugl af þessu tagi yfir sig ganga hljóðalaust. Stofnuð væru samtök til að gæta hagsmuna skattgreiðenda og vegfarenda til þess að berjast gegn því, að vandræðin yrðu meiri en þau eru þegar orðin." "Stofna þarf virk almannasamtök til að vernda viðhald og framkvæmdir við veginn fyrir botn Hvalfjarðar og hindra frekari ábyrgð skattgreiðenda á göngunum."

Ólafur Sigurgeirsson á Þaravöllum í samtali við Tímann 24. febrúar 1996:

"Þessi göng eru eitt mesta umhverfisslys landsins og stórskaði fyrir okkur hér og alla landsmenn. Göngin eiga eftir að verða dragbítur á þjóðfélaginu í áratugi og komast sennilega aldrei í gagnið."

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009