Einungis fjórðungur leiðarinnar eftir!

Þann 1. júní voru Hvalfjarðargöng orðin samtals 4.017 metrar, 2.239 metrar að sunnan og 1.778 metrar að norðan. Göngin verða alls 5.484 metrar, þannig að núna í byrjun júní eru 73% leiðarinnar að baki og einungis 1.467 metrar eftir.

Þegar vitað er að mjög vel hefur gengið og dæmi eru um að sprengdur hafi verið rúmlega hálfur kílómetri á einum mánuði (í apríl sl.) er nærtækt að ætla að bormenn "slái í gegn" síðsumars eða svo. Svo einfalt er málið samt ekki. Fulltrúar verktakans (Fossvirkis) eru varkárir sem fyrr og vilja engar dagsetningar nefna um hvenær gera megi ráð fyrir að síðasta haftið verði sprengt í göngunum. Jóhann Kröyer frá Fossvirki sagði við innlenda og erlenda fjárfesta á svæðinu 30. maí að bormenn "færu í gegn á þessu ári" og síðan tæki tíu til tólf mánuði að ljúka öllum frágangi í göngunum áður en hægt yrði að opna þau fyrir umferð. Hvenær svo sem það gerist að endar nái saman undir Hvalfirði á síðari hluta ársins, þá liggur skýrt fyrir að verkið er langt á undan upprunalegum áætlunum. Í bæklingi um Hvalfjarðargöng sem Spölur, Fossvirki og Vegagerðin gáfu út í fyrrasumar er talað um að áætlað sé að "vinnuflokkar mætist undir firðinum um mitt ár 1998." Og ennfremur:

"Áætlað er að göngin verði opnuð fyrir umferð á árinu 1999." Hér hefur augljóslega verið gefið drjúgt svigrúm og yfirgnæfandi líkur eru nú á að göngin verði tekin í notkun seint á árinu 1998.

Jarðfræðingar telja að á kaflanum sem eftir er að sprengja séu tveir til þrír erfiðir áfangar þar sem gera má ráð fyrir lausu bergi og jafnvel einhverjum vatnsleka. Þá þarf að þétta bergið og verkið gengur þá hægar en ella. Talsvert þurfti að þétta berg að sunnanverðu í síðustu viku maímánaðar, enda bættust einungis við 20 metrar þeim megin á heilli viku en 39 metrar að norðan, eða alls 59 metrar. Metið á einni viku sunnanmegin er frá í 8. viku 1997 þegar bættust við 80 metrar og 78 metrar í 9. viku. Metið að norðan er 57 metrar í 46. viku 1996, 56 metrar í 3. viku 1997 og 55 metrar í 49. viku 1996 og 15. viku 1997. Af þessum tölum má sjá að gangur mála getur sveiflast um tugi metra í hverri vinnuviku, meira þó að sunnan af því bergið þar hefur á köflum verið áberandi lakara en að norðan.

Í verksamningum um Hvalfjarðargöng er kveðið á um tiltekið hámark vatnsleka inn í göngin sem miðað er við og sérstakar ráðstafanir verði gerðar ef lekur umfram það. Skemmst er frá að segja að lekinn hefur verið á bilinu þriðjungur til fjórðungur af þessu hámarksviðmiði, þannig að innsteymi vatns hefur á engan hátt verið til vandræða í verki bormanna. Og reyndar eru göngin alveg með ólíkindum þurr, sérstaklega að norðan. Þurft hefur að þétta bergið á 20% leiðarinnar, en 80% leiðarinnar eru þurr!

Vatn sem lekið hefur inn í göngin að sunnanverðu hefur verið allt að 57 gráðu heitt, sem kemur nokkuð á óvart. Þegar farið var í gegnum ákveðinn kafla í göngunum núna í maí rauk hitinn í berginu/vatninu skyndilega upp og datt svo skyndilega aftur niður í um 35 gráður. Ekki liggur ljóst fyrir hver ástæðan fyrir þessari hitasveiflu er, en jarðfræðingar bíða spenntir eftir hvað gerist þegar neðar dregur, því búast má við heitara vatni þar.
Vatnshiti að norðanverðu er hins vegar mjög svipaður því sem spáð hafði verið og er á bilinu 25 til 35 gráður.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009