Þjóðhátíð undir Hvalfirði - 285 dagar þar til göngin verða opnuð

Hvalfjarðargöngin eru staðreynd. Halldór Blöndal sprengdi síðasta haftið á slaginu kl. 15:00 föstudaginn 3. október svo undir tók í göngunum og allt nötraði enda á milli.

Ekki var laust við að færi um yfir 400 gesti sem stóðu í útskoti hálfum öðrum kílómetra norðar. Spenna var mikil í loftinu og á daginn kom að þegar haftið var farið að það skeikaði heilum fjórum sentimetrum að endarnir mættust nákvæmlega upp á punkt og prik!

Rúmlega tveimur klukkustundum síðar var búið að moka burt grjótinu sem til féll í sprengingunni og gestir óku suður undir fjörðinn. Fremst fór bíll samgönguráðherrans með Blöndal sjálfan undir stýri og ráðherrann brosti breitt þegar hann kom á land að sunnan - eins og baksíðumynd Morgunblaðsins 4. október staðfestir. Í framsætinu hjá ráðherranum sat Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra og fyrsti þingmaður Vestlendinga. Á eftir komu fleiri einkabílar og síðan hópferðabílar.

Það var ótrúleg tilfinning að upplifa sprenginguna og geta nokkru síðar ekið hindrunarlaust á milli standa í Hvalfirði. Þarna var brotið blað í samgöngusögunni og um leið í sjálfri Íslandssögunni, eins og Björn Harðarson, jarðfræðingur og eftirlitsmaður Spalar, skrifar í stórgóðri og fróðlegri. Hvalfjarðargöng eru fyrstu neðansjávargöng á Íslandi, fjármögnunarmódelið hið fyrsta sinnar tegundar á Norðurlöndum og göngin þau fyrstu í ungu gosbergi í heiminum.
Umgjörð sögulegs atburðar í Hvalfjarðargöngum var gestgjöfunum til mikils sóma og stemmningin á svæðinu ólýsanleg. Hverjum hefði til dæmis dottið í hug fyrir fáeinum árum að boðið yrði upp á veisluborð, hlaðið sjávarréttum af ýmsu tagi, 165 metrum undir yfirborði sjávar í Hvalfirði? Eða að djasshljómsveit myndi spila eins og englar þarna í undurdjúpum á meðan glaðir gestir nutu sjávarfangs, græns Túborgs og íslensks brennivíns í snapsavís?

Innfluttum norskum sið í jarðgangagerð var fylgt undir Hvalfirði og koníaki fórnað í stórum stíl í þágu bergbúans eftir að haftið hafði verið sprengt. Samgönguráðherra, forystumenn Fossvirkis, Spalar og Vegagerðarinnar príluðu upp á grjóthauginn, hver með sína koníaksflöskuna og heltu yfir grjótið. Þótti sumum sem bergbúinn færi brátt að fá nóg að drekka í bili og við hæfi að þessi aðaldrykkur færi ofan í aðra og lífmeiri hálsa á svæðinu. Allir viðstaddir fengu koníaksstaup til að skála fyrir góðu verki og það var upphaf afar vel heppnaðrar og eftirminnilegrar samkomu undir Hvalfirði.

Helst bar til tíðinda í ræðum dagsins að Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, greindi frá ákvörðun verktakans, Fossvirki, um að ljúka verki í Hvalfjarðargöngum næsta sumar, þannig að hægt yrði opna þau fyrir umferð í annarri viku júlí mánaðar, þ.e. eftir 285 daga. Þeir sem til þekkja sögðu hins vegar í óopinberum samtölum að fyrst Fossvirkismenn væru farnir að lofa því að opna göngin fyrri hluta júlímánaðar, þá yrðu þau örugglega tilbúin í byrjun júní! Vísað var til þess hve langt sprengingar undir Hvalfirði voru undan áætlun, því það sem gerðist núna 3. október var samkvæmt upprunalegri áætlun á dagskrá í júlí 1998.

Eftir sameininingu Kjalarness og Reykjavíkur á næsta ári geta borgaryfirvöld sett upp skilti í loftið í miðjum Hvalfjarðargöngum: Velkomin til Reykjavíkur. Og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í ávarpi sínu að göngin myndu stuðla að enn betra samstarfi og sambandi Reykvíkinga og Skagamanna. Því til áréttingar bauð hún bæjarstjórn Akraness í opinberra heimsókn til Reykjavíkur innan tíðar. Fram kom reyndar í ávörpum flestra sem töluðu að áhrif Hvalfjarðarganga yrðu meiri en menn gætu séð fyrir nú.

Hvalfjarðargöng kosta alls um 4,6 milljarða króna. Það er bæði verktaka og verkkaupa til hagsbóta að verkið gengur jafn fljótt og vel og raun ber vitni. Verktakinn, Fossvirki, sparar fjármagnskostnað og verkkaupinn, Spölur, færi fyrr tekjur af göngunum þegar byrjað verður að aka um þau tíu mánuðum á undan áætlun.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009