Spölur ehf., sem á og rekur Hvalfjarðargöng eftir að þau verða opnuð formlega, auglýsti eftir framkvæmdastjóra til starfa fyrir nokkru. Umsóknarfrestur rann út fyrir helgina og samkvæmt upplýsingum Hvalfjarðarsíðunnar sóttu 30 til 40 manns um starfið. Gert er ráð fyrir að nýr framkvæmdastjóri verði með aðsetur á Akranesi, enda er lögheimili Spalar þar í bæ. Stjórnendur Spalar fara næstu daga yfir umsóknir og ráða framkvæmdastjóra innan tíðar.

Gunnlaugur Þórðarson, hæstaréttarlögmaður, var í hópi þeirra sem hvað harkalegast gagnrýndu áform um Hvalfjarðargöng á opinberum vettvangi og vöruðu við að "anað væri út í" þessar framkvæmdir.

Verktakinn í Hvalfjarðargöngumm, Fossvirki, fær greiddar 7 milljónir króna fyrir hverja viku sem verkinu er skilað fyrir umsaminn verklokatíma. Nú blasir við að Hvalfjarðargöng verði opnuð um tíu mánuðum á undan áætlun og þá hljóðar "flýtibónus" Fossvirkis upp á um 300 milljónir króna. Spölur ehf., eigandi ganganna, hagnast að sjálfsögðu verulega á að verkið gengur jafn vel og raun ber vitni. Tekjur af umferðinni skila sér fyrr en ella og vaxtakostnaður minnkar að sama skapi.

Gangagerðarmenn og aðstandendur Hvalfjarðaganga verða enn varir við ásókn fólks í að "skreppa" undir fjörðinn áður en göngin verða opnuð formlega. Sumir hringja og spyrja hvort þeir geti ekki fengið leyfi til að renna í gegn þegar mikið liggur við. Aðrir spyrja til dæmis hvort Hvalfjarðargöngin verði opnuð til bráðabirgða um jólin?

Lokið er við að steypa vegskála við syðri mynna Hvalfjarðarganga og nú liggur fyrir að steypa upp vegskála að norðanverðu. Sá verður mun styttri en syðri skálinn. Inni í sjálfum göngunum er unnið við að styrkja bergið með boltun og sprautun og koma upp lagnakerfi fyrir dren, rafmagn og fleira. Þá verður lokið fyrir jól við að leggja fyrra malbikunarlagið á sjálfa akbrautina undir fjörðinn.

Starfsmenn Fossvirkis vinna þessa dagana við að styrkja bergið endanlega í göngunum, þeir byrjuðu verkið undir firðinum og eru á leið norður úr.

Svo mikil atgangur er í forvitnum vegfarendum nálægt gangamunnum í Hvalfirði að Fossvirkismenn ætla að setja upp "vegatálma", þ.e. bómu yfir veginn þannig þeir einir geti opnað sem eiga erindi inn á vinnusvæði verktakans. Sumir eru svo bjartsýnir að halda að þeir fái leyfi Fossvirkis til að "skjótast undir fjörðinn" á leið suður eða norður en það gengur auðvitað ekki. Óstaðfestar fregnir eru reyndar um að einhverjir hafi hreinlega reynt að keyra undir fjörðinn í heimildarleysi. Allt þetta hefur orðið til þess að Fossvirki bregður á það ráð að loka vegum beggja vegna ganga.

Friðrik Hansen Guðmundsson, verkfræðingur, kvaddi sér hljóðs í þjóðmálaumræðunni á sínum tíma og réðst harkalega gegn fyrirhuguðum framkvæmdum við Hvalfjarðargöng.

Gestir á heimasíðu Hvalfjarðarganga eru nú orðnir á sjötta þúsund, sem svarar til þess að rúmlega 120 manns hafi heimsótt hana í hverri viku frá því hún var opnuð á Vefnum.

Þá er komið að því góðir hálsar: Göng undir Hvalfjörð verða að veruleika föstudaginn 3. október klukkan 15:00. Þá sprengir Halldór Blöndal, samgönguráðherra, tveggja metra breitt haft undir miðjum Hvalfirði og þar með er lokið langþráðum áfanga verksins, löngu á undan áætlun.

Vinna í Hvalfjarðargöngum hefur gengið ágætlega á nýju ári og göngin lengjast um nálægt 100 metrum að jafnaði í viku hverri. Bergið er þétt og gott frá náttúrunnar hendi og tímafrekar þéttingar tefja því ekki verkið.

Í gær voru 175 metrar á milli enda í Hvalfjarðargöngum og nú hillir undir stóru stundina þegar "slegið verður í gegn". Engar staðfestar fregnir er hins vegar að hafa, frekar en fyrri daginn, um hvenær það gerist. Öruggt er þó að ekki verður opnað í gegn fyrr en í október og en trúlega frekar fyrr en síðar eftir mánaðarmótin.

Landsbréf hf. slá um sig í Hvalfirði, svo um munar. Fyrirtækið tekur þátt í að fjármagna Hvalfjarðargöngin og byggingu nýs álvers á Grundartanga, auk þess sem það sér um að selja hlut ríkisins í Járnblendiverksmiðjunni.

Aðeins 290 metrar skildu að bormenn í Hvalfjarðargöngum þriðjudaginn 2. september. Göngin voru þá orðin alls 5.194 metra löng en verða 5.484 metrar þegar yfir lýkur. Gangur verksins í ágúst kemur að vanda fram tölum í töflunni sem birt er í málaflokknum framkvæmdir á heimasíðunni.

Bormenn í Hvalfirði tóku sér tíu daga sumarleyfi fyrir verslunarmannahelgina og á meðan var eingöngu vakt á vinnusvæðum beggja vegna fjarðarins til að fylgjast með ferðum óboðinna gesta (sem létu ekki sjá sig, sem betur fer!). Þegar bormenn komu á ný til starfa, kl. sex að morgni þriðjudags eftir verslunarmannahelgi, voru eftir 632 metrar eða 13% af leiðinni. Þá var lokið við 2.160 metra að norðan og 2.692 metra að sunnan, eða alls 4.852 metrar.

Norskur starfsmaður Fossvirkis slapp með skrámur og mar þegar 20 til 30 kílóa steinflaga féll á hann í Hvalfjarðargöngunum að kvöldi 15. júlí.

Afstaða manna til Hvalfjarðarganga er afar jákvæð, ef marka má niðurstöður könnunar meðal farþega um borð í Akraborginni í nokkrum ferðum í apríl sl. Fram kom til dæmis að 40% svarenda frá Akranesi töldu að þeir myndu fara oftar til og frá höfuðborgarsvæðinu eftir að göngin verða tekin í notkun en nú gerist. Af öllum sem afstöðu tók í könnuninni töldu einungis tæplega 5% svarenda að þeir myndu ferðast sjaldnar til og frá Reykjavík eftir að göngin verða tekin í gagnið.

Núna um mánaðarmótin var lokið við að sprengja 4.506 metra af göngum undir Hvalfjörð, 2.514 að sunnan og 1.992 metra að norðan. Göngin verða alls 5.484 metrar, þannig að nú eru eftir 978 metrar, eða um 18% leiðarinnar. Þannig sígur nú mjög á seinni hlutann í þessu verki og við blasir að "slegið verði í gegn" einhvern tíma í haust.

Nær 40% kvenna hyggjast ekki aka um Hvalfjarðargöngin, heldur kjósa að aka áfram fyrir fjörðinn. Yfirgnæfandi meirihluti karlmanna velur hins vegar göngin.

Alls var lokið við að sprengja nákvæmlega 4,2 km í Hvalfjarðargöngum þegar farið var yfir stöðu framkvæmda að morgni mánudags 9. júní. Lokið var þá um 77% leiðarinnar og eftir voru 1.283 metrar. Í síðustu viku (23. viku) bættust við alls 85 metrar, 38 metrar að sunnan og 47 metrar að norðan. Oftast hefur miðað betur að sunnan, í metrum talið, en þá er þess að gæta að í 23. viku var sprengt fyrir útskoti í göngunum þeim megin og því segir metrafjöldinn í áfanganum ekki nema hálfa söguna. Hvalfjarðargöngin verða alls tæplega 5.5 km löng.

Fulltrúar erlendra og innlendra fjármögnunaraðila Hvalfjarðarganga kynntu sér gang framkvæmdanna föstudaginn 30. maí og létu í ljósi mikla ánægju með það sem þeir sáu og heyrðu í heimsókninni.

Þann 1. júní voru Hvalfjarðargöng orðin samtals 4.017 metrar, 2.239 metrar að sunnan og 1.778 metrar að norðan. Göngin verða alls 5.484 metrar, þannig að núna í byrjun júní eru 73% leiðarinnar að baki og einungis 1.467 metrar eftir.

Jarðgöngin undir Hvalfjörð verða tilbúin mun fyrr en búist var við og framkvæmdir hafa raunar gengið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona . Ef svo fer sem horfir ná endar saman undir firðinum núna á haustdögum og gera má þá ráð fyrir að þjóðbraut undir Hvalfjörð verði opnuð fyrir umferð síðla árs 1998.

Flýtileiðir vegna endurgreiðslu

1. Skráðu bankaupplýsingar með Íslykli

2. Prentaðu út skilagrein og sendu til Spalar

Skrifstofa Spalar á Akranesi verður enn um sinn opin á virkum dögum frá kl. 9 til 15. Lokað í hádeginu.

Símanúmerið er 431 5900, tölvupóstfangið spolur@spolur.is

 

FYRIRMYNDARFYRIRTÆKI

VR Fyrirmyndarfyrirtaeki 2015 VR Fyrirmyndarfyrirtæki 2015 enska Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2014 Spölur - Fyrirmyndarfyrirtaeki VR 2013
Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2012 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2011 Fyrirmyndarfyrirtæki árið 2010 Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2009